Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 374  —  267. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um félagsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Halldóra Mogensen, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að setja fram áætlun um hvernig tryggja megi að í grunn- og framhaldsskólum starfi félagsráðgjafar sem nemendur geti leitað til. Ráðherra hafi jafnframt samráð um málefnið við Samband íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélag Íslands, auk annarra félagasamtaka eftir því sem við á. Ráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu um verkefnið eigi síðar en 1. ágúst 2022 og skal fylgja henni kostnaðaráætlun og tillaga að fyrirkomulagi kostnaðarskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga.

Greinargerð.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir lagði fram tillögu þessa á 150. (647. mál) og 151. löggjafarþingi (113. mál) en tillagan náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju. Með tillögunni er lagt til að mennta- og barnamálaráðherra verði falið að setja fram áætlun um hvernig tryggja megi að í grunn- og framhaldsskólum starfi félagsráðgjafar sem nemendur geti leitað til. Markmið tillögunnar er að tryggja störf félagsráðgjafa í skólum þannig að skólar geti betur sinnt hlutverki sínu út frá áherslum nýrra farsældarlaga og brugðist við á skilvirkan hátt innan veggja skólans um leið og þarfar verður vart. Félagsráðgjafi sem starfar í skóla hefur möguleika á að bregðast fyrr við og á annan hátt en utanaðkomandi tengiliður frá annarri stofnun. Hann á auðveldara með að mynda tengsl við nemendur í nærumhverfinu en utanaðkomandi tengiliður, auk þess sem stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk hefðu betra og skjótara aðgengi að stuðningi og ráðgjöf.
    Ráðherra er falið að útfæra nánar með hvaða hætti þjónustan verði veitt. Þá er lagt til að ráðherra hafi jafnframt samráð um málefnið við Samband íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélag Íslands og önnur félagasamtök eftir því sem við á, t.d. Kennarasamband Íslands. Þá benda flutningsmenn á mikilvægi þess að hafa virkt samráð við börn og ungmenni í þessum efnum. Í skýrslu ráðherra til Alþingis um verkefnið skulu m.a. koma fram tillögur um næstu skref og greining á því hvort gera þurfi lagabreytingar til að ná markmiði þingsályktunartillögunnar.
    Fjölmargar rannsóknir hafa á undanförnum árum sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar hvað varðar félagslega þjónustu við börn og ungmenni. Fræðimenn hafa bent á að enginn vettvangur sé jafn kjörinn og skólinn til þess að búa ungmenni undir flókið líf í flóknu samfélagi. Sú reynsla sem börn fá í skóla getur haft jákvæð og langvarandi áhrif á félagslega velferð þeirra og því er mikilvægt að líta á skólann sem lykilþátt við forvarnir og stuðningsúrræði fyrir börn. Í því sambandi má nefna börn sem standa frammi fyrir áföllum, svo sem vegna skilnaðar foreldra eða andláts, kynbundins ofbeldis, eineltis, vanrækslu eða fátæktar. Auk þess geta börn staðið frammi fyrir persónulegum og félagslegum áskorunum vegna fötlunar og veikinda og eins þarf að huga að börnum af erlendum uppruna. Íslenskar og erlendar rannsóknir hafa sýnt að börn sem búa við framantaldar aðstæður eiga oftar við sálfélagslega erfiðleika að stríða en önnur börn og eru í meiri áhættu gagnvart námsvanda og brotthvarfi úr námi. 1 Þegar vá steðjar að í samfélaginu þarf að gæta sérstaklega að velferð barna. Það á meðal annars við um náttúruhamfarir, efnahagskreppu, slys og veikindafaraldur. Þá þurfa fjölskyldur, opinber þjónusta, heilbrigðiskerfi og skólasamfélagið öðrum fremur að stilla saman strengi kringum börnin. Í starfi áfallateymis í skólum eiga félagsráðgjafar oft frumkvæði að viðeigandi viðbrögðum. Þeir miðla vitneskju um úrræði og veita fólki áfallahjálp, einu sér eða hópum og fjölskyldum, oft í nánu samstarfi við annað fagfólk, svo sem hjúkrunarfræðinga, presta og sálfræðinga. Þegar rof verður á skólastarfi, eins og nú þegar COVID-faraldurinn geisar, er ekki aðeins þörf á að endurskoða starfsemina sem slíka heldur þarf einnig að huga að því hvernig best verði unnið úr reynslunni til góðs fyrir nemendur, foreldra, stjórnendur, kennara og annað starfsfólk skóla.
    Samhliða samfélagsbreytingum á undanförnum áratugum, sem hafa m.a. haft áhrif á hlutverk og aðstæður íslenskra fjölskyldna, hefur félagsmótunarhlutverk skóla aukist og náð til margþættari verkefna. Sú staða veldur auknu álagi á kennara og annað starfsfólk skóla vegna margvíslegra úrlausnarefna sem þeir standa frammi fyrir við að sinna velferð og vellíðan nemenda. Niðurstöður rannsókna á upplifun og reynslu kennara sýna að aukið og illviðráðanlegt álag fylgi því að láta sig varða velferð hvers barns. Kennurum sé mikil áraun að horfa upp á börn sem glíma við vanlíðan, áföll í fjölskyldum, fátækt og félagslega útskúfun, og upplifi sig hjálparvana í þessum aðstæðum. Að mati kennara skortir aðstoð fagfólks í slíkum málum. Eitt mikilvægt markmið skólafélagsráðgjafar er að geta verið kennurum, stjórnendum og öðru starfsfólki skóla stoð við að greina og meta þá þætti sem geta haft áhrif á námsferlið og almenna líðan nemenda. Með því að vinna með þeim aðilum bæði í málefnum einstakra barna og með því að vinna að þróun forvarna- og stuðningsúrræða fyrir nemendur má betur búa svo um hnútana að allir nemendur geti notið sín í skólaumhverfinu. Það er ein af forsendunum fyrir framtíðarheill þeirra. Skólafélagsráðgjafar munu gegna mikilvægu hlutverki til að markmiðum nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna verði náð.

Skólafélagsráðgjöf.
    Upphaf félagsráðgjafar í skólum er rakið til Bandaríkjanna í kringum aldamótin 1900. Ástæðan fyrir því að félagsráðgjafar voru ráðnir til skóla var að þekking þeirra á félagslegum vanda, svo sem vegna fátæktar, vanheilsu og félagslegrar stöðu lágtekjufólks, og á þeim áhrifum sem slíkar aðstæður gætu haft á börn, var álitin mikilvæg fyrir skólann. Til að byrja með fólust störf félagsráðgjafanna aðallega í því að vera tengiliðir á milli heimila og skóla og bera kennsl á orsakir að baki erfiðleikum barna. Í dag eru skólafélagsráðgjafar starfandi í 53 löndum. Samkvæmt upplýsingum frá fagdeild fræðslu- og skólafélagsráðgjafa innan Félagsráðgjafafélags Íslands eru félagsráðgjafar starfandi í 12 skólum hér á landi, þar af í átta grunnskólum og í fjórum framhaldsskólum.
    Markmið skólafélagsráðgjafar er að greina og meta þá þætti sem geta haft áhrif á námsferlið og almenna líðan, og vinna að frekari þróun forvarna- og stuðningsúrræða fyrir nemendur til að tryggja að allir geti notið sín í skólaumhverfinu. Með þekkingu sinni á einstaklingsþroska, fjölskyldusamskiptum, löggjöf, þjónustustofnunum og félagslegum úrræðum mynda skólafélagsráðgjafar mikilvæga brú á milli skóla, fjölskyldu og samfélags. Hugmyndafræðileg nálgun og faglegur grunnur í vinnuaðferðum félagsráðgjafa byggist á heildarsýn og kerfishugsun. Með heildarsýn að leiðarljósi vinna þeir í samstarfi við annað fagfólk innan skóla og annarra stofnana í þverfræðilegri nálgun, ásamt því að veita stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki handleiðslu og ráðgjöf.
    Í ljósi þess aukna álags sem skólar standa frammi fyrir við að sinna nemendum í viðkvæmri stöðu er brýnt að fjölga félagsráðgjöfum í grunn- og framhaldsskólum. Þannig getur skólinn betur sinnt velferðarhlutverki sínu og markvissu forvarnastarfi í anda nýrra farsældarlaga til að koma í veg fyrir að vandi þróist og verði illviðráðanlegur með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.
    Með því að veita framangreindri þingsályktunartillögu brautargengi yrði stigið enn mikilvægara skref í þá átt að efla forvarnastarf og snemmtækan stuðning í nærumhverfi sem getur betur tryggt samþætta þjónustu í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Álykta má að tilkoma félagsráðgjafa í skólum bæti velferð og vellíðan barna ásamt því að draga úr álagi á starfsfólk skóla og brotthvarfi nemenda úr námi.


1     Sjá t.d. Sigrún Harðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir. (2019). Opinber stefna, skólakerfið og hlutverk kennara: Viðbragðsbúnaður skólans. Stjórnmál og stjórnsýsla, 1(15), 113-134.