Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 416  —  205. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Lenyu Rún Taha Karim um byrlanir.


     1.      Hvaða upplýsingar og tölfræði hefur ráðherra um byrlanir og tilraunir til þeirra? Hversu mörg byrlunarmál eru skráð í málaskrá lögreglu? Svar óskast greint eftir kyni fimm ár aftur í tímann.
    Byrlun kann að vera verknaðarþáttur í ýmsum tegundum afbrota, til að mynda nauðgunar og annarra kynferðisbrota. Byrlun er hins vegar ekki skilgreind sem sjálfstætt brot í refsilöggjöf og er því ekki sérstök skilgreining í kerfum lögreglu sem varðar byrlun lyfja. Vegna þess eru umbeðnar tölfræðiupplýsingar í 1., 3., 4. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar ekki aðgengilegar.

     2.      Hvert er verklag lögreglu þegar uppi er grunur um byrlun? Hvernig bregst lögregla við til að tryggja rannsóknarhagsmuni í slíkum málum og til að koma í veg fyrir að sönnunargögn spillist?
    Samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum fylgja embættin þar til gerðum ráðleggingum rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði varðandi leit að lyfjum og eiturlyfjum þar sem grunur leikur á um byrlun. Í ráðleggingunum kemur fram að mikilvægt sé að taka bæði blóð- og þvagsýni úr viðkomandi og að áríðandi sé að sem stystur tími sé liðinn frá ætlaðri byrlun að sýnatöku.
    Samkvæmt lögum um meðferð sakamála ber lögreglu að rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli, leita þess sem grunaður er um brot, finna sjónarvotta og aðra sem ætla má að geti borið vitni og svo hafa uppi á munum sem hald skal leggja á og öðrum sýnilegum sönnunargögnum. Þá skal rannsaka vettvang ef við á og yfirleitt öll ummerki sem kunna að vera eftir brot.
    Einhver embætti hafa sett sérstakar verklagsreglur um rannsókn mála er varða meinta byrlun og önnur hafa í hyggju að setja slíkar reglur.
    Samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættum á landinu er mikil áhersla lögð á að blóð- og þvagsýni séu tekin svo fljótt sem auðið er eftir að upp kemur grunur um byrlun. Þá leggur lögreglan áherslu á öflun annarra sönnunargagna sem upplýst geta um málsatvik, eins og að framkvæma vettvangsskoðun, afla upptaka úr eftirlitsmyndavélum, haldleggja gögn, svo sem glas eða flösku sem þolandi á að hafa drukkið úr, gögn sem gefa upplýsingar um ferðir þolanda og geranda, taka skýrslur af mögulegum vitnum, framkvæma húsleit hjá geranda, sé hann þekktur o.s.frv. Sé grunur uppi um að þolandi hafi orðið fyrir kynferðisbroti er, þegar við á, framkvæmd læknisskoðun á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
    Þá vinna embættin í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir í sínum umdæmum um að framkvæma sýnatöku.

     3.      Hversu margir hafa verið handteknir vegna gruns um byrlun og hversu margir hafa verið ákærðir vegna slíks brots? Svar óskast greint eftir kyni fimm ár aftur í tímann.
     4.      Hversu margar kærur hafa verið lagðar fram vegna byrlunar á sl. fimm árum?
     5.      Hversu margir dómar hafa fallið í byrlunarmálum á sl. fimm árum?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við fjölda frásagna sem sýna hvernig öryggi, heilsu og kynfrelsi fólks hefur verið stefnt í hættu með byrlun?

    Dómsmálaráðherra hefur að undanförnu markvisst unnið að aðgerðum í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi. Í maí 2020 skipaði dómsmálaráðherra ásamt félagsmálaráðherra aðgerðateymi, sem ríkislögreglustjóri leiddi, vegna markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi á tímum COVID-19. Mörg verkefnanna beindust að vitundarvakningu, forvörnum og auknu samráði þeirra sem sinna þjónustu við þolendur ofbeldis. Var skipunartími teymisins út árið 2021. Nú hefur ráðherra falið ríkislögreglustjóra að leiða starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti. Skal hópurinn styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þá mun hópurinn standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu. Hluti af því er að hvetja fólk til að gæta hvert að öðru í skemmtanalífinu, í því skyni að koma í veg fyrir óæskilega og ólöglega hegðun og aðstoða þá sem á því þurfa að halda. Þá hyggst ráðherra sem fyrst hefja vinnu við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota, en núgildandi áætlun rennur úr gildi við lok þessa árs. Við gerð slíkrar áætlunar er mið tekið af birtingarmyndum kynferðisofbeldis hverju sinni og áætlunin aðlöguð þeim þörfum sem kerfið kallar á við rannsókn brota hverju sinni.