Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 419  —  132. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um vopnaflutninga.


     1.      Hversu margar umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum hafa borist frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til ráðuneytisins? Þess er óskað að fyrir hverja umsókn komi fram nafn flugrekanda, uppruna- og áfangastaður sendingar, hvort flogið hafi verið um íslenska lofthelgi, upplýsingar um hvaða hergögn er að ræða, framleiðandi og magn þeirra, hvenær ráðuneytið komst að niðurstöðu og hver sú niðurstaða var.
    Alls hafa borist 69 umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til ráðuneytisins vorið 2019 þegar reglugerð nr. 464/2019 um flutning hergagna með loftförum tók gildi. Í eitt skipti var um að ræða flutning í íslenskri lofthelgi. Allar umsóknirnar bárust frá flugrekandanum Air Atlanta.
    Varðandi nánari tilgreiningu á uppruna- og áfangastað og nánari upplýsingar um hvaða hergögn er að ræða, framleiðanda og magn hergagna vísar ráðuneytið til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á. Litið er svo á að um sé að ræða virka viðskiptahagsmuni félagsins og upplýsingarnar geti verið mikilvægar fyrir viðskiptavini flugfélaga sem flytja hergögn, eiganda farmsins eða móttakanda. Einnig vísast til 2. mgr. 8. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, þar sem fram kemur að með gögn og aðrar upplýsingar sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum, skuli fara sem trúnaðarmál. Í þessu samhengi skal haft í huga að samkvæmt reglugerð um flutning hergagna með loftförum, nr. 464/2019, móttekur Samgöngustofa umsóknir um leyfi og upplýsir umsækjanda um afgreiðslu ráðuneytisins. Þá er vísað til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar séu undirorpnar sérstökum þagnarskylduákvæðum sem takmarka upplýsingarétt almennings umfram fyrirmæli upplýsingalaga, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 737/2018 frá 6. apríl 2018. Umbeðnar upplýsingar liggja fyrir í ráðuneytinu og hægt er að kynna þær utanríkismálanefnd Alþingis í trúnaði.

     2.      Hvaða ástæður voru fyrir hverri synjun um leyfi til hergagnaflutninga?
    Umsókn hefur verið hafnað í eitt skipti á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 464/2019.

     3.      Hvernig tryggir ráðuneytið að umsóknir brjóti ekki í bága við 3. gr. reglugerðar nr. 464/2019 um flutning hergagna með loftförum?
    Fjallað er um umsóknir um hergagnaflutninga með skýru verklagi sem ætlað er að tryggja vandaða yfirferð gagna og greiningu sjónarmiða sem varða mannúðarmál og öryggismál til að tryggja að umsóknir brjóti ekki í bága við 3. gr. reglugerðar nr. 464/2019. Umsóknir fara í umsagnarferli innan ráðuneytis áður en ákvörðun um leyfi er tekin. Jafnframt hefur í einstökum tilvikum verið leitað umsagna stofnana utan ráðuneytis og ráðlegginga varðandi tegundir hergagna. Umsagna innan ráðuneytis er leitað hjá öryggis- og varnarmálaskrifstofu og alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu en þar eru umsóknir skoðaðar, t.d. með hliðsjón af afvopnunar- og mannúðarmálum. Þá er ávallt litið til gildandi þvingunaraðgerða og kallað eftir frekari upplýsingum frá umsækjenda ef ástæða þykir til.

    Alls fóru 3 vinnustundir í að taka þetta svar saman.