Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 522  —  230. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um réttarstöðu þolenda.


     1.      Hvers vegna var ekki lagt fram stjórnarfrumvarp á 150. eða 151. löggjafarþingi um að þolendur kynferðisbrota fái formlega aðild að sakamáli eða flest þau réttindi sem aðilastaða veitir þegar réttað er yfir geranda eins og lagt var til í greinargerð sem unnin var fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi árið 2019?
    Á 151. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Eitt af markmiðum þess var að bæta réttarstöðu brotaþola, það er þeirra sem kveðast hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots, sbr.1. mgr. 39. gr. laganna. Í því sambandi var einkum horft til réttarstöðu brotaþola í málum sem varða ætluð brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (kynferðisbrot). Frumvarpið var samið af réttarfarsnefnd og í því var að finna mikilvægar breytingar sem hefðu til muna bætt réttarstöðu brotaþola, þ.m.t. fatlaðra brotaþola og aðstandenda látins brotaþola. Í frumvarpinu var ekki lagt til að brotaþoli yrði aðili að því sakamáli sem til meðferðar væri enda um að ræða atriði sem þyrfti mun meiri skoðunar við svo ótvírætt væri að réttindi brotaþola yrðu ekki fyrir borð borin.

     2.      Er unnið að slíku frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð sakamála í dómsmálaráðuneytinu og verður frumvarpið lagt fram á yfirstandandi þingi?
    Í ráðuneytinu hefur verið unnið að því að endurskoða framangreint frumvarp. Við þá vinnu hefur verið stefnt að því að þær breytingar sem lagðar eru til bæti ótvírætt upplifun og réttarstöðu brotaþola enn frekar, án þess að auka líkur á því að sekir menn komist hjá refsingu, að réttindi sakaðra manna verði fyrir borð borin eða að erfiðara reynist að leiða hið sanna í ljós. Við vinnuna hefur sem fyrr verið höfð hliðsjón af greinargerð Hildar Fjólu Antonsdóttur, en einnig ýmsum öðrum gögnum, svo sem löggjöf annarra Norðurlanda og reynslu þeirra, umsagnar réttarfarsnefndar um tillögur þær sem lagðar voru til í greinargerðinni og þeim umsögnum sem bárust um frumvarpið á 151. löggjafarþingi, bæði í gegnum samráðsgátt stjórnvalda og til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum möguleikum þolenda í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum til gjafsóknar?
    Rétt er að benda á að ekkert er því til fyrirstöðu að brotaþoli í kynferðisbrota- eða heimilisofbeldismáli, sem hyggst stefna þeim sem hann telur að hafi valdið sér tjóni eða miska sæki um gjafsókn og fái hana uppfylli hann skilyrði laga um að kostnaður við málsókn hans greiðist úr ríkissjóði. Frekari þátttaka íslenska ríkisins í málskostnaði við meðferð dómsmála brotaþola af einkaréttarlegum toga er til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir bættri réttarstöðu þolenda kynferðisbrota og heimilisofbeldis? Hvaða aðgerðir verður ráðist í á kjörtímabilinu og hvernig verður umbótatillögum um bætta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála, sem fram komu í tengslum við vinnu stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi árið 2019, fylgt eftir
    Gildandi aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota gildir út árið 2022. Nú þegar er farið að leggja grunninn að gerð nýrrar áætlunar, og er það í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fylgja áfram eftir aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota. Við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar er litið til meðferða kynferðisbrota frá öllum hliðum málsins, þar með talið hvernig bæta megi réttarstöðu brotaþola.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022 var samþykkt að hækka framlag til löggæslu um 200 millj. kr. til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota í samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans. Til grundvallar tillögunum var lögð áhersla á það að horfa á kerfið í heild sinni, þannig að það taki til allra þeirra þátta sem meðferð kynferðisbrota felur í sér og ekki síst huga að því að mál séu afgreidd innan eðlilegs tíma sem er til mikilla bóta ekki síst fyrir brotaþola.
    Þá hefur ríkissaksóknari ákveðið að skipa starfshóp sem á að rýna þau kynferðisbrotamál, sem hvað lengstan tíma taka í kerfinu með það fyrir augum að skoða hvaða atriði það eru sem helst tefja meðferð málanna og hvernig unnt sé að bæta verklag og stytta um leið málsmeðferðartímann. Þá vinnur starfshópur skipaður af ráðherra að skýrslu um málshraða innan refsivörslukerfisins, allt frá broti þar til afplánun hefst, í öllum brotaflokkum. Mun niðurstaðan úr þessum starfshópum nýtast til að greiða úr flöskuhálsum innan kerfisins, sem mun á endanum fela í sér bætta réttarstöðu þolenda.
    Samkvæmt lögum um meðferð sakamála eiga þolendur heimilisofbeldis rétt á að fá tilnefndan réttargæslumann líkt og þolendur kynferðisbrota. Munu framantaldar breytingar því einnig hafa áhrif á réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis. Þá eru kynferðisbrot í um helmingi tilfella framin af einhverjum nákomnum þolanda og teljast því oft einnig til heimilisofbeldisbrota.
    Mikil vinna hefur verið unnin til að bæta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis á síðastliðnum árum. Árið 2015 tóku gildi uppfærðar verklagsreglur lögreglu um meðferð heimilisofbeldismála vegna aukinnar áherslu á málaflokkinn og voru gerðar talsverðar breytingar á skráningu slíkra mála í kjölfarið. Þessar verklagsreglur voru uppfærðar árið 2018. Samstarfi lögreglu og félagsþjónustu hefur verið komið á í þeim tilgangi að styrkja stöðu þolenda. Séu skilyrði laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili uppfyllt, getur lögregla að eigin frumkvæði tekið ákvörðun um að gerandi skuli sæta nálgunarbanni, en úrræðin skulu ávallt kynnt þolanda þegar það á við.
    Vegna aukinnar hættu á heimilisofbeldi eftir útbreiðslu COVID-19 faraldursins ákváðu stjórnvöld í maí 2020 að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra skipuðu tímabundið aðgerðateymi sem fékk það hlutverk að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða í víðtæku samráði við viðeigandi hagsmunaaðila. Verkefni teymisins sneru einkum að almennri vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi, eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við þolendur ofbeldis og stuðningi við þróun og framkvæmd annarra verkefna á þessu sviði.