Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 554  —  290. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur um biðtíma eftir kynleiðréttingaraðgerðum.


     1.      Hver er meðalbiðtími eftir kynleiðréttingaraðgerð? Svar óskast sundurliðað eftir árum síðustu fimm ár.
    Kynleiðréttingarferli er flókið og sérstakt fyrir hvern og einn þar sem það byggist á einstaklingsbundnum þörfum. Kynleiðréttingarferli er í nokkrum fösum og er aðgerðarfasi oftast á seinni hluta ferlisins. Hjá þeim einstaklingum sem fara í gegnum aðgerðarhluta kynleiðréttingarferlis getur það náð frá einni skurðaðgerð upp í fimm eða fleiri. Breytileikinn er mikill. Einstaklingur getur því verið að fara aftur á biðlista hjá mismunandi sérgreinum lækninga á því tímabili.
    Biðtími þeirra sem hafa farið í eina eða fleiri af meginaðgerðum kynleiðréttingarferlis á sl. fimm árum má sjá í eftirfarandi töflu. Hér er einungis gefinn upp biðtími stærri aðgerða sem falla undir lýtalækningar. Smærri hópar eru dregnir saman vegna persónuverndar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hversu langir eru biðlistar eftir kynleiðréttingaraðgerðum?
    Fjölda einstaklinga í bið eftir megin aðgerðum kynleiðréttingarferlis má sjá í eftirfarandi töflu. Hér er einungis gefinn upp fjöldi í bið eftir stærri aðgerðum. Smærri hópar eru dregnir saman vegna persónuverndar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hverjar eru helstu ástæður fyrir skorti á gagnsæi og löngum biðtíma eftir kynleiðréttingaraðgerðum fyrir sjúklinga?
    Spítalinn gefur út yfirgripsmiklar upplýsingar um starfsemi sína og rekstur mánaðarlega og er hægt að nálgast þær og ýmislegt annað talnaefni á vefsíðu spítalans. Þar fyrir utan má vinna sértæk gögn úr sjúkraskrám og upplýsingakerfum spítalans en margt af því eru viðkvæm heilsufarsgögn sem ekki er unnt að gefa upp nema sértæk heimild liggi fyrir.
    Embætti landlæknis heldur utan um biðtíma valinna skurðaðgerða á landinu og kallar eftir gögnum þar um, m.a. frá Landspítala, tvisvar á ári. Unnt er að nálgast þau gögn og skýrslu embættisins um biðtíma aðgerða á vef embættis landlæknis.
    Biðlistar sem hér er spurt um eiga að mestu leyti við um lýtalækningar en þó eru innan kynleiðréttingarferlis aðgerðir sem snúa að öðrum sérgreinum læknisfræðinnar. Einstaklingar geta verið á mörgum biðlistum samtímis. Til dæmis gæti einstaklingur hafa lokið öllum stærri aðgerðum sem tengjast kynleiðréttingarferli en verið á bið eftir einfaldari og hugsanlega útlitstengdum aðgerðum.
    Á lýtaskurðdeild er kappkostað að sinna öllum vel og gera ekki upp á milli skjólstæðinga. Auk skjólstæðinga sem heyra beint undir lýtaskurðdeild, skarast fagið við aðrar sérgreinar svo sem kvenlækningar, barnalækningar, bæklunarskurðlækningar, krabbameinslækningar og fleiri sérgreinar. Þetta hefur mikil áhrif á flæði sjúklinga. Umræddir einstaklingar eru á biðlistum ýmissa sérgreina í bland við aðra.
    Vegna þess að rými á skurðstofu er takmarkað og sem og rými á legudeildum, ræður aðstaðan hversu hratt flæðið verður og því geta myndast biðlistar.
    Undanfarin ár hefur ýmislegt orðið til þess að takmarka hversu mörgum skjólstæðingum er sinnt. Á sl. tveimur árum hefur COVID-19 heimsfaraldur nánast lamað starfsemina á skurðsviði spítalans og má sjá áhrif þess á biðlista aðgerða, bæði með fjölgun á þeim og lengri biðtíma. Á sama tíma hefur orðið hröð aukning í fjölda nýrra skjólstæðinga transteymis Landspítala.

     4.      Stendur til að breyta forgangsröðun kynleiðréttingaraðgerða, þar sem ljóst er að þær eru lífsnauðsynlegar þeim sem þær þurfa?
    Allar aðgerðir eru taldar nauðsynlegar. Biðlistar Landspítala, þar með talið fyrir aðgerðir sem tengjast kynleiðréttingu, eru háðir sífelldri endurskoðun. Áætlanir eru gerðar um aðgerðir en þar sem Landspítalinn er bráðasjúkrahús, getur það skipulag farið úr skorðum vegna bráðra aðgerða sem eðli máls samkvæmt hafa forgang.