Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 610  —  299. mál.
Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um landsmarkmið í loftslagsmálum.


     1.      Hvenær kynnir ríkisstjórnin uppfærð landsmarkmið í loftslagsmálum, líkt og aðildarríki Parísarsamningsins voru hvött til í lokayfirlýsingu COP26 í Glasgow í nóvember sl.?
     2.      Í hverju mun slík uppfærsla helst felast, sérstaklega gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandinu?

    Í aðdraganda COP26 voru aðildarríki samningsins hvött til að kynna uppfærð landsmarkmið í loftslagsmálum. Í lokayfirlýsingu fundarins voru ríki sem ekki höfðu þegar sent ný eða uppfærð markmið hvött til að gera það hið fyrsta og eigi síðar en fyrir næsta aðildarríkjafund sem haldinn verður síðla árs 2022.
    Jafnframt voru aðildarríkin hvött til að herða markmið sín til 2030 í samræmi við markmið Parísarsamningsins.
    Ísland tilkynnti um uppfært markmið gagnvart samningnum í febrúar 2021. Markmiðið hljóðar upp á 55% heildarsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990, í samfloti með Evrópusambandinu og Noregi. Þetta nýja markmið er umtalsvert metnaðarfyllra en fyrra markmið um 40% heildarsamdrátt ríkjanna á umræddu tímabili.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur lagt fram tillögu að samdrætti í losun á beinni ábyrgð fyrir sambandsríkin og birt að hluta úthlutunar- og reiknireglur sem liggja þar að baki. Tillagan er enn til umræðu bæði hjá Evrópuþinginu og leiðtogaráði ESB og því ekki hægt að líta á úthlutun og reiknireglur sem þar liggja að baki sem endanlegar. Í tillögunum er gert ráð fyrir að hámarkssamdráttarmarkmið fyrir einstök ríki verði 50% og lágmark 10%. Forsendur útreikninga byggjast á skilgreindum viðmiðum sem eiga að tryggja sanngirni, hagkvæmni og að aðlögunar sé gætt varðandi sérstakar aðstæður í viðkomandi ríkjum, t.d. varðandi hlutfall losunar í atvinnugreinum þar sem tæknilega erfitt er að draga úr losun, svo sem í landbúnaði og sjávarútvegi.
    Þar sem ekki er búið að samþykkja tillögu um markmið fyrir sambandsríkin hefur markmið Íslands og Noregs ekki verið metið og mun ekki liggja fyrir formlega fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um markmið ríkja ESB.
    Miðað við þær forsendur sem kynntar hafa verið, og að teknu tilliti til samsetningar losunar frá Íslandi í samanburði við önnur ríki og kostnaðargreiningar á aðgerðum til samdráttar, og að teknu tilliti til sérstakrar aðlögunar samkvæmt regluverkinu vegna aðstæðna hér á landi, þ.m.t. hás hlutfalls endurnýjanlegrar orku, er fastlega gert ráð fyrir að samdráttarmarkmið á beina ábyrgð Íslands muni hækka umtalsvert innan hins nýja markmiðs. Í þessu sambandi er vert að ítreka að ekki liggur fyrir formleg ákvörðun um forsendur, reiknireglur og mögulega aðlögun vegna sérstakra aðstæðna í einstökum ríkjum og því gætu forsendur breyst.
    Samkvæmt stjórnarsáttmála verður sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beina ábyrgð Íslands fyrir sama tímabil.
    Í stjórnarsáttmála kemur fram að í samráði við sveitarfélög og atvinnulíf sé ætlunin að setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hverja atvinnugrein.
    Ljóst er að markmið Íslands um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beina ábyrgð Íslands, kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040, fyrst þjóða, er með metnaðarfyllri markmiðum ríkja.
    Samkvæmt útreikningum sem settir voru fram við gerð núgildandi aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum munu þær aðgerðir sem hægt var að meta til samdráttar skila um 35% samdrætti. Til viðbótar var áætlað að aðgerðir sem settar voru fram og voru þá enn í mótun myndu skila um 40–46% samdrætti árið 2030 miðað við árið 2005.
    Unnið er að því að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að þessu nýja markmiði. Vinnan mun fara fram í miklu samráði við atvinnulíf og haghafa. Undirbúningsvinnan felst t.d. í greiningu á fyrirliggjandi aðgerðum til orkuskipta og á því hvaða áfangar hafa náðst, í greiningu á tölfræðigögnum og því hvaða greiningu þarf til að meta framtíðaraðgerðir og möguleika.
    Í framhaldinu verður tekin ákvörðun varðandi tilkynningu gagnvart loftslagssamningnum. Í slíkri tilkynningu þarf að skýra með hvaða hætti ríkin ætla að ná þessum árangri og því er æskilegt að greining á mögulegum nýjum og uppfærðum aðgerðum liggi fyrir áður en hægt er að tilkynna um nýtt og uppfært markmið gagnvart loftslagssamningnum.

     3.      Verða uppfærð markmið í takt við það sem nauðsynlegt er til að standa við markmið Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C?
    Ekkert ríki er þess megnugt eitt og sér að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Hnattræn hlýnun og loftslagsbreytingar af völdum hennar eru alþjóðlegt vandamál sem þjóðir heims þurfa að taka á saman. Með samþykkt Parísarsamningsins árið 2015 var stigið stórt skref í þá átt. Samkvæmt samningnum stefna aðilar að því að ná hnattrænu hámarki á losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og auðið er og jafnframt að ná jafnvægi milli losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá uppsprettum og upptöku þeirra í viðtaka á síðari helmingi þessarar aldar.
    Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi. Fullum orkuskiptum verði náð eigi síðar en árið 2040 og verði landið óháð jarðefnaeldsneyti sama ár, fyrst ríkja.
    Ríkisstjórnin hefur sett þá stefnu að engin leyfi verði gefin út til olíuleitar í íslenskri efnahagslögsögu. Í undirbúningi er að fella brott lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis í íslenskri efnahagslögsögu til að árétta þessa stefnu.