Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 613  —  430. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2021.

1. Inngangur.
    Á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) bar á árinu 2021 hæst umræður um þær áskoranir sem heimsfaraldur kórónuveiru skapaði þjóðþingum heims. Á haustþingi IPU var samþykkt ályktun um hvernig nýta megi alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við COVID-19. Þar var lögð áhersla á nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið tryggi tímanlegan, sanngjarnan og hagkvæman aðgang að öruggum og viðurkenndum bóluefnum. Þá var áréttað að umfangsmikil bólusetning gegn COVID-19 stuðli að almannaheill á heimsvísu. Í umræðum var enn fremur bent á skýran mun milli Afríku og umheimsins í alþjóðlegri dreifingu bóluefna.
    Á árinu var haldinn fundur þingkvenna þar sem rætt um áhrif COVID-19 á jafnréttismál og hvernig tryggja megi jafnrétti kynjanna á tímum heimsfaraldurs. Enn fremur gaf IPU út leiðbeiningar um hvernig þjóðþing geta tryggt að afskipti stjórnvalda á tímum COVID-19 taki mið af jafnréttissjónarmiðum og brjóti ekki gegn mannréttindum. Jafnframt voru útbúin tveggja mínútna myndbönd þar sem kynnt var hvernig þjóðþing og þingmenn hefðu brugðist við faraldrinum á heimsvísu. Þá fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og voru þingmenn sammála um að COVID-19 hafi sýnt fram á að IPU hefði hæfni og getu til að aðlagast nýjum áskorunum og óvæntum aðstæðum.
    Áskoranir samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum voru jafnframt í brennidepli á árinu og samþykkti IPU yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Forseti IPU, Duarte Pacheco, sagði í umræðu um yfirlýsinguna að undanfarin tvö ár hefðu einkennst af hættulegri afturför varðandi sameiginlegar skuldbindingar alþjóðasamfélagsins gagnvart mannréttindum og lýðræði. Faraldur valdarána og beinna árása á stofnanir þjóðþinga hafi átt sér stað, m.a. í Súdan, Mjanmar og Afganistan. Alþjóðasamfélagið þurfi að standa saman og krefjast þess að horft verði til stjórnskipulegra reglna. Þá lagði hann áherslu á mikilvægt starf IPU við að verja lýðræðið og aðstoða aðildarríki IPU við að virða lýðræðislega stjórnarhætti.
    Á haustþingi IPU var samþykkt ný stefna fyrir árin 2022–2026. Í stefnunni eru tilgreind eftirfarandi sex áhersluatriði: Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti kynjanna og þátttaka ungs fólks, friður og öryggi og sjálfbær þróun. Stefnan er aðgerðamiðuð og sniðin að því að IPU nái að vinna að markmiðum sínum og standist þær alþjóðlegu áskoranir sem fram undan eru. Sérstök áhersla er lögð á loftslagsbreytingar og stuðning við innleiðingu Parísarsamkomulagsins.
    Jafnframt hefur IPU í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og Sameinuðu þjóðirnar staðið fyrir fjölmörgum fjarfundum um heimsfaraldurinn og áhrif hans á ýmsa málaflokka. Þar hafa þingmenn og sérfræðingar haft vettvang til skoðanaskipta um áhrif hans, aðgerðir og þróun. Þá hefur heimsfaraldurinn, með sínum ströngu ferðatakmörkunum, opnað á möguleika þingmanna til að nýta sér fjarfundi í auknum mæli til framtíðar. Enn fremur voru þingmenn aðildarríkjanna sammála um að baráttan við faraldurinn hefði varpað ljósi á mikilvægi enn frekari samstöðu og alþjóðlegs samstarfs. Einnig voru þingmenn hvattir til að brýna fyrir stjórnvöldum að sameina krafta sína í baráttunni gegn faraldrinum á vísindalegan hátt og styrkja samstöðu og samstarf á heimsvísu.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum IPU árið 2021 má nefna stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar og aðlögun. Þá ályktaði IPU um samþættingu stafrænnar tækni að hringrásarhagkerfinu svo að ná megi þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og um alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna á internetinu.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2021 má nefna svæðisbundnar málstofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á innleiðingu þeirra. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu var m.a. gefin út handbók í samstarfi við UN Women um kynbundna lagasetningu og skýrsla um kynferðislega áreitni og ofbeldi gegn konum í þjóðþingum Afríku.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að sambandinu eiga nú 178 þjóðþing en aukaaðild að því eiga 13 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eru einn af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvo þingfundi árlega, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja oftar en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en það eru nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpurs, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar sambandsins og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing við að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo að þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar. Ályktanir sambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við.

3. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Fram að alþingiskosningum 25. september áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild: Sigríður Á. Andersen, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Miðflokks. Varamenn voru Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, Helga Vala Helgadóttir, þingflokki Samfylkingar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar.
    Ný Íslandsdeild var kosin 1. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Hildur Sverrisdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, varaformaður, þingflokki Miðflokks, og Jóhann Friðrik Friðriksson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi fram að kosningum þar sem þátttaka í fundum IPU var undirbúin og starf sambandsins rætt. Ný Íslandsdeild hélt einn fund árið 2021.

4. Fundir Alþjóðaþingmannasambandsins 2021.
    Á venjubundnu ári kemur IPU tvisvar saman til þings og jafnframt fundar ráð IPU í tengslum við þingin. Af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru fór vorþingið fram sem fjarfundur en haustþingið sem staðfundur. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Finnland formennsku á árinu. Fyrri norræni fundurinn var haldinn sem fjarfundur en sá síðari sem staðfundur í Finnlandi.
    Árið 2021 tók Íslandsdeild þátt í vorþingi í maí og haustþingi í nóvember og tveimur norrænum samráðsfundum. Einnig tók Ágúst Ólafur Ágústsson þátt í þingmannaráðstefnu á vegum IPU og Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg 9. september um baráttuna gegn hryðjuverkum. Þá tóku Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Andrés Ingi Jónsson þátt í fundi á vegum IPU og breska þingsins í Glasgow 7. nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26. Jafnframt sóttu fulltrúar Íslandsdeildar ýmsar ráðstefnur og málstofur sem haldnar voru með rafrænum hætti á árinu um málefni IPU.

Norrænn samráðsfundur, fjarfundur, 18. janúar 2021.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 142. þingi IPU 24.–27. maí 2021. (Sjá fylgiskjal 1.)

142. þing Alþjóðaþingmannasambandsins 24.–27. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fjarfundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru umræða og ákvarðanataka um starfsemi IPU á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru, stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar og aðlögun stafrænnar tækni að hringrásarhagkerfinu svo að ná mætti þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð. (Sjá fylgiskjal 2.)

Norrænn samráðsfundur í Rantasalmi, Finnlandi, 24. september.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Arna Gerður Bang, ritari Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 143. þingi IPU 26.–30. nóvember 2021. (Sjá fylgiskjal 3.)

Fundur IPU í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow 7. nóvember.
    Alþjóðaþingmannasambandið og breska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 7. nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í Glasgow 31. október til 13. nóvember. Yfirskrift fundarins var Það er ekki í boði að bíða. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, varaformaður, og Andrés Ingi Jónsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Á fundinum var m.a. fjallað um framvindu samningaviðræðna á ráðstefnunni COP26, áhrif loftslagsbreytinga á matvælaöryggi og loftslagsfjármál (e. climate finance). Þá fór einnig fram umræða um leiðir til að bregðast við tapi og skaða af völdum loftslagsbreytinga. (Sjá fylgiskjal 4.)

143. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Madríd 26.–30. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna á internetinu, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir og hvernig megi endurhugsa og skipuleggja nálgun friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Jafnframt fór fram almenn umræða um áskoranir samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum. Þá var utandagskrárumræða um það hvernig nýta mætti alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við COVID-19 og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. (Sjá fylgiskjal 5.)

Alþingi, 4. mars 2022.

Hildur Sverrisdóttir,
form.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
varaform.
Jóhann Friðrik Friðriksson.


Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af norrænum samráðsfundum landsdeilda IPU (fjarfundir) 18. janúar 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 142. þingi IPU 24.–27. maí 2021. Hér á eftir fer stutt yfirlit um helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Heli Järvinen, formaður finnsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum en Finnland fer með formennsku í norræna hópnum árið 2021.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Hún greindi nefndarmönnum frá helstu áherslum og umræðum framkvæmdastjórnar og stýrihóps Tólfplús-hópsins auk þess sem hún kynnti dagskrá næsta fundar stjórnarinnar sem fyrirhugaður var í mars 2021 sem fjarfundur. Heimsfaraldur kórónuveiru og viðbrögð þjóðþinga við honum yrðu í brennidepli. Þá yrði rætt um starfið fram undan en óljóst væri hvort hægt yrði að halda vorþing með hefðbundnum hætti í ljósi ferðatakmarkana af völdum heimsfaraldurs. Farið yrði yfir valkosti í stöðunni og metið hvort vorþingið yrði staðfundur eða það fært í fjarfundarform.
    Þá kynnti Widegren vinnu undirnefndar um fjármál IPU þar sem hún gegnir formennsku. Hún sagði sambandið hafa markvisst dregið úr kostnaði undanfarin ár og lækkað árgjöld jafnt og þétt í samræmi við kröfur aðildarríkjanna. Þá hefði aukin áhersla verið lögð á frjáls framlög til starfseminnar og Svíþjóð verið þar í fararbroddi. Í ljósi heimsfaraldurs kórónuveiru og efnahagsþrenginga sem mörg aðildarríkin stæðu frammi fyrir yrði áfram lögð áhersla á aðhald í fjármálum IPU.
    Norræn ríki hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum IPU, auk framkvæmdastjórnar, undanfarin ár og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess. Sérstaklega var rætt um mikilvægi umræðuvettvangs þingkvenna og ungra þingmanna hjá IPU, en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum. Þá fór fram umræða um sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna, sem fyrirhugaður var í New York í febrúar og skyldi beina sjónum að baráttunni gegn spillingu. Einnig fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð.
    Sigríður Á. Andersen sagði frá ástandinu á Íslandi á tímum COVID-19 og frá helstu aðgerðum stjórnvalda. Hún greindi frá því að Alþingi hefði verið að störfum meðan faraldurinn geisaði en þó með fjarlægðartakmörkunum í þinghúsinu. Stjórnvöld hefðu kynnt til sögunnar fjölda efnahagsúrræða vegna heimsfaraldursins sem nýttust heimilum og fyrirtækjum með beinum hætti. Þá sagði hún gagnlegt að norrænu landsdeildirnar deildu upplýsingum um faraldurinn og viðbrögð stjórnvalda við honum. Nefndarmenn voru sammála Sigríði um að fjarfundir sem þessir væru góður vettvangur til skoðanaskipta um faraldurinn og yrði skoðað að fjölga þeim meðan á honum stæði.
    Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænum ríkjum, til þess að undirbúa vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborg viðkomandi formennskuríkis eða nágrenni hennar. Þá hefði heimsfaraldur kórónuveiru, með ströngum ferðatakmörkunum milli ríkja, sýnt nefndarmönnum fram á gagnsemi og möguleika fjarfunda og að nýta mætti þá í auknum mæli í framtíðinni. Þá bauð formaður finnsku landsdeildarinnar norrænu formönnunum á næsta samráðsfund í september 2021 í Finnlandi, ef ferðatakmarkanir af völdum heimsfaraldurs leyfðu. Að öðrum kosti yrði fundurinn haldinn sem fjarfundur.
Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN
af 142. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum 24.–27. maí 2021, fjarfundur.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fjarfundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru umræða og ákvarðanataka um starfsemi IPU á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru, stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar og aðlögun stafrænnar tækni að hringrásarhagkerfinu svo að ná mætti þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð. Enn fremur var haldinn kvennafundur 10. maí í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um áhrif COVID-19 á jafnréttismál og hvernig tryggja mætti jafnrétti kynjanna á tímum heimsfaraldurs.
    Um 1.073 þátttakendur sóttu fjarfundinn, þar af 755 þingmenn (288 þingkonur, eða 38%) frá 133 ríkjum og 52 þingforsetar. Þá var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 193, eða 25,5%. Í janúar 2021 hélt framkvæmdastjórn IPU fund til að ræða starfið fram undan í ljósi takmarkana vegna COVID-19. Á fundinum var tekin ákvörðun um að vorþingið færi fram með rafrænum hætti og var skipaður starfshópur með fulltrúum allra landahópa IPU, fulltrúa kvennahóps IPU og fulltrúa ungra þingmanna og honum falið að skipuleggja framkvæmd þingsins með rafrænum hætti.
    Forseti IPU, Duarte Pacheco frá Portúgal, ávarpaði þingið og sagði mikilvægt að IPU héldi áfram á þeirri vegferð að verða opnara og gagnsærra samband þar sem áhersla væri lögð á að virkja ungt fólk og konur til þátttöku. Þá væri samstarf IPU við Sameinuðu þjóðirnar gríðarlega mikilvægt ef varanlegur árangur ætti að nást í málefnum mannréttinda á heimsvísu. Þá kynnti framkvæmdastjóri IPU, Martin Chungong, skýrslu skrifstofu IPU um starfsemi sambandsins á tímum kórónuveirufaraldurs. Hann sagði skýrsluna sýna fram á að IPU hefði hæfni og getu til að aðlagast nýjum áskorunum og óvæntum aðstæðum. IPU hefði m.a. gefið út leiðbeiningar um það hvernig þjóðþing gætu tryggt að afskipti stjórnvalda á tímum heimsfaraldurs tækju mið af kynjasjónarmiðum annars vegar og brytu ekki gegn mannréttindum hins vegar. Einnig voru útbúin tveggja mínútna myndbönd þar sem kynnt var hvernig þjóðþing og þingmenn hefðu brugðist við faraldrinum á heimsvísu. Ekki var kosið um neyðarályktun á þinginu eins og venja er en almenn umræða fór fram um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð.
    Fastanefndir IPU funduðu í tengslum við þingið dagana 26.–29. apríl og voru allir fundir haldnir sem fjarfundir. Í fastanefndum var fjallað um fyrirframákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, fór fram umræða og afgreiðsla ályktunar um stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar. Þar var sjónum beint að átökum og ógnum af völdum loftslagsbreytinga og að afleiðingum þeirra. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, var samþykkt ályktun um samþættingu stafrænnar tækni og hringrásarhagkerfisins til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar var m.a. lögð áhersla á ábyrga neyslu og framleiðsluhætti. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, fór fram umræða um alheimslöggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun á börnum á internetinu. Fjórða nefnd, um málefni Sameinuðu þjóðanna, hittist á tveimur fundum og beindi sjónum sínum að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í ljósi COVID-19 og ræddi m.a. áhrif heimsfaraldurs á framkvæmd þeirra.
    Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU árlega fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin hélt fjarfundi og tók fyrir og afgreiddi fjölda mála. Skýrsla nefndarinnar var kynnt á ráðsfundi IPU og samþykkt. Jafnframt fóru fram pallborðsumræður til undirbúnings loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fara átti fram í Glasgow í nóvember.
    Ráð IPU fundaði í tengslum við þingið og afgreiddi fjölda mála. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 auk þess sem fram fór umræða og afgreiðsla fjárhagsskýrslu. Framkvæmdastjóri IPU greindi frá því að rekstrarkostnaður sambandsins hefði verið minni en gert hefði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2020. Ástæða þessa hefði verið heimsfaraldur því að árlegum þingum IPU, fundum og ráðstefnum hefði verið aflýst vegna ferðatakmarkana. Þá hefðu fundir í auknum mæli færst yfir í rafrænt form, sem væri ódýrari kostur þótt fjárfesta hefði þurft í tæknibúnaði. Þá kynnti Cecilia Widegren drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 fyrir hönd framkvæmdastjórnar IPU. Hún sagði að í ljósi erfiðra aðstæðna margra aðildarríkja og mikillar óvissu í heiminum af völdum kórónuveiru yrði árgjald aðildarríkja fyrir árið 2022 ekki hækkað.
    Að lokum ávarpaði forseti IPU þingið og þakkaði fyrir undangengna þrjá daga og minnti þátttakendur á hversu fordæmisgefandi þingið væri í ljósi fordæmalausra aðstæðna þar sem þingið hefði allt farið fram með rafrænum hætti. Mögulegt hefði verið að taka mikilvægar ákvarðanir varðandi starfsemi IPU á nýjum vettvangi og samþykkja ályktanir og yfirlýsingar. Þá sagði hann nauðsynlegt að þingmenn héldu áfram að hvetja stjórnvöld til að sameina krafta sína í baráttunni gegn faraldrinum á vísindalegan hátt og styrkja samstöðu og samstarf á heimsvísu. Auk þess var yfirlit yfir skipulagða fundi kynnt með fyrirvara um þróun heimsfaraldurs. Fyrirhugað var að halda næsta haustþing IPU í Kigali í Rúanda í nóvember 2021 ef faraldur leyfði en að öðrum kosti yrði þingið haldið sem fjarfundur.


Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN
af norrænum samráðsfundi landsdeilda IPU í Rantasalmi 23. september 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sóttu fundinn Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Arna Gerður Bang, ritari Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 143. þingi IPU 26.–30. nóvember 2021. Hér á eftir fer stutt yfirlit um helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Heli Järvinen, formaður finnsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum en Finnland fór með formennsku í norræna hópnum árið 2021.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Ceciliu Widegren, formanns sænsku landsdeildarinnar og fulltrúa norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU, á helstu málum sem til umræðu eru í framkvæmdastjórn og stýrihóp Tólfplús-hópsins. Hún sagði að þar sem hægt hefði á útbreiðslu smita í heimsfaraldri kórónuveiru hefði verið tekin ákvörðun um að halda haustþing IPU sem staðfund í Madríd í nóvember 2021 og fögnuðu nefndarmenn þeirri ákvörðun.
    Því næst fór fram umræða um niðurstöður rafræns vorþings IPU í maí 2021 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn hafa sótt á vegum IPU-þingsins undanfarna sex mánuði. Ágúst Ólafur Ágústsson greindi frá þátttöku sinni í alþjóðlegri þingmannaráðstefnu sem haldin var á vegum IPU og Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg 9. september 2021 um baráttuna gegn hryðjuverkum. Hann sagði að á ráðstefnunni hefði sjónum verið beint að hryðjuverkaógninni á tímum heimsfaraldurs meðan alþjóðasamfélagið og innlend hagkerfi jöfnuðu sig eftir heimsfaraldur. Rætt var um forvarnir gegn herskárri öfgahyggju og um aðgerðir stjórnvalda til að aðstoða fórnarlömb hryðjuverka í aðildarríkjum IPU.
    Jafnframt var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. alþjóðleg löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun á börnum á internetinu, hvernig endurskoða megi og skipuleggja nálgun friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði, og loks áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir. Einnig skyldi fara fram almenn umræða um lýðræðislegar áskoranir samtímans og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum. Þá skyldi fara fram árlegur kvennafundur 26. nóvember í tengslum við þingið.
    Einnig var rætt um sameiginlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna sem fram fer árlega og haldinn skyldi í New York 17.–18. febrúar 2022. Fjallað var um mögulega vinnuheimsókn norrænna landsdeilda til Washington í tengslum við hann. Voru nefndarmenn sammála um að gagnlegt væri fyrir landsdeildirnar að skipuleggja sambærilega vinnuheimsókn á árinu 2022 og þá sem fór fram í febrúar 2020. Yrði það gert ef heimsfaraldur leyfði og ferðatakmörkunum hefði verið aflétt. Á fundinum í New York yrði sjónum beint að sjálfbærri þróun og hvernig byggja mætti upp pólitískan stuðning við sjálfbæran bata í ljósi yfirstandandi heimsfaraldurs. Undanfarin tvö ár hefði mikið verið rætt um þann skaða sem COVID-19 hefur valdið á sjálfbærri þróun en þó hefði verið ljóst fyrir heimsfaraldur að horfa þyrfti til sjálfbærrar þróunar á breiðari grunni. Þá hafi COVID-19 aukið enn frekar á misrétti og misskiptingu auðs í heiminum.
    Ísland tekur við formennsku í norræna samráðshópnum af Finnlandi árið 2022. Ágúst Ólafur Ágústsson bauð formenn norrænu landsdeildanna velkomna til næsta fundar hópsins sem fyrirhugaður er í Reykjavík í byrjun mars 2022. Verður fundurinn haldinn til undirbúnings fyrir næsta vorþing IPU sem fram fer í Nusa Dua á eyjunni Balí í Indónesíu 20.–24. mars 2022. Þá greindi Ágúst Ólafur frá því að kosningar til Alþingis færu fram á Íslandi 25. september og að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Það yrði því hlutverk nýrrar Íslandsdeildar IPU að taka á móti norrænum þingmönnum á Íslandi í byrjun næsta árs. Þá þakkaði hann kærlega fyrir gagnlegt og gefandi samstarf undanfarin fjögur ár á vettvangi IPU.


Fylgiskjal IV.


FRÁSÖGN
af sameiginlegum fundi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og breska þingsins í Glasgow 7. nóvember 2021.


    Alþjóðaþingmannasambandið og breska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 7. nóvember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow 31. október til 13. nóvember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Yfirskrift fundarins árið 2021 var Það er ekki í boði að bíða. Fundurinn var haldinn í Kelvingrove Art Gallery og í honum tóku þátt 200 þingmenn frá 35 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, varaformaður, og Andrés Ingi Jónsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Á dagskrá fundarins var m.a. fjallað um framvindu samningaviðræðna á ráðstefnunni COP26, áhrif loftslagsbreytinga á matvælaöryggi og loftslagsfjármál (e. climate finance). Þá fór einnig fram umræða um leiðir til að bregðast við tapi og skaða af völdum loftslagsbreytinga. Þá greindu þingmenn frá ríkjum sem eru viðkvæmust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga frá reynslu sinni og stöðu mála. Meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum voru Chris Frasetto, ráðgjafi Alþjóðlega Rauða krossins hjá Sameinuðu þjóðunum um loftslagsbreytingar, átök og mannúðaraðstoð, og Gernot Laganda, yfirmaður loftslags- og hamfaraáætlunar hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (e. World Food Programme).
    Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Duarte Pacheco, hélt opnunarávarp fundarins og lagði áherslu á að tíminn til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga væri senn liðinn. Hann kallaði eftir kröftugum viðbrögðum þingmanna og sagði vísindin hafa sýnt fram á að óafturkræfar breytingar hefðu nú þegar átt sér stað og grípa þyrfti til aðgerða strax til að afstýra loftslagshörmungum víða um heim. Þá tók til máls forseti bresku lávarðadeildarinnar, lávarðurinn McFall frá Alcluith, og sagði það sláandi að jafnvel þegar efnahagur heims drægist verulega saman vegna heimsfaraldurs hefði losun eingöngu dregist saman um 6%. Sú staðreynd sýndi okkur hversu mikil áskorun væri fram undan og að nauðsynlegt væri að finna raunverulegar og róttækar lausnir til að draga úr hlýnun jarðar.
    Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, hélt ræðu á fundinum og lagði m.a. áherslu á mikilvægt hlutverk þingmanna við að bindast samtökum til að tryggja að stjórnvöld framfylgdu þeim ákvörðunum sem teknar yrðu á COP26. Hún áréttaði að það væri tæknilega og efnahagslega framkvæmanlegt að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins með viðeigandi alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd. Þá lauk hún ræðu sinni með því að vitna í Nelson Mandela, sem sagði: „Allt virðist ómögulegt þar til það hefur verið gert.“
    Enn fremur hélt Valérie Masson-Delmotte, meðstjórnandi milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, erindi um niðurstöður sjöttu skýrslu milliríkjanefndarinnar, en nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félagslegar og efnahagslegar upplýsingar sem grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Hún sagði skilning á loftslagsbreytingum hafa aukist mikið og að sama skapi væru framtíðarspár taldar öruggari. Skýrslan sýndi fram á ótvíræða ábyrgð mannsins á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Þá sagði hún ítarleg gögn liggja fyrir sem gæfu til kynna að loftslagsbreytingar gerðu það að verkum að ýmsir hamfaraatburðir yrðu algengari og afdrifaríkari, þ.m.t. ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum.
    Andrés Ingi Jónsson tók þátt í umræðum á fundinum og sagði m.a. að ekki væri hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að margar ríkisstjórnir væru enn að fjármagna loftslagshamfarir. Það væri því misræmi milli þeirrar upphæðar sem sýndi landsbundin framlög til loftslagsmála og þess að sum ríki veittu ný leyfi og fjármagn til vinnslu jarðefnaeldsneytis, t.d. Bretland. Draga þyrfti ríkisstjórnir til ábyrgðar og minna þær á að ekki væri trúverðugt að halda fram metnaðarfullri áætlun í loftslagsmálum á sama tíma og stutt væri við framkvæmdir sem ynnu gegn þeim.
    Í samþykkt fundarins voru settar fram metnaðarfullar leiðbeiningar fyrir aukna þátttöku þjóðþinga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þar var lögð áhersla á mikilvægt hlutverk þjóðþinga við að tryggja framkvæmd loftslagsmarkmiða Parísarsamkomulagsins sem helsta lagalega bindandi alþjóðasáttmála heims um loftslagsbreytingar. Samþykktin felur jafnframt í sér skuldbindingar um að efla baráttuna við loftslagsbreytingar með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo að takmarka megi hækkun hitastigs jarðar á þessari öld við 1,5°C umfram það sem var fyrir iðnbyltingu.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur undanfarinn áratug stutt þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og hélt sambandið á árinu 2021 námskeið til að auka vitund þingmanna um alvarleika loftslagsbreytinga og til að skilgreina mikilvægustu aðgerðir.
    Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin, eins og áður sagði, dagana 31. október til 13. nóvember í Glasgow og gegndu Bretar þar formennsku. Fyrir hönd Alþingis sóttu ráðstefnuna 8.–10. nóvember Bryndís Haraldsdóttir, Kristrún Frostadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Andrés Ingi Jónsson (4.–12. nóvember), auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara.
    Meðal helstu niðurstaðna COP26 var að aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna staðfestu öll mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C. Jafnframt voru aðildarríki beðin um að skila metnaðarfyllri markmiðum í samræmi við markmið Parísarsáttmálans fyrir árslok 2022 í stað 2025 eins og upprunalega var kveðið á um. Þá var farið fram á að þróuð ríki tvöfölduðu fjárframlög sín til þróunarríkja til að standa straum af aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga.
    Lokaútkoman var nokkuð umdeild en í fyrstu drögum samkomulagsins hafði verið kveðið á um metnaðarfyllri aðgerðir. Sú breyting sem var umdeildust var ákvæði um kolanotkun en í fyrstu drögum voru aðildarríki hvött til að hætta notkun kola og stöðva niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Reyndist ákvæðið of þungbært fyrir stórþjóðir á borð við Kína, Indland, Sádi-Arabíu og Suður-Afríku sem reiða sig að miklu leyti á kol sem orkugjafa. Eftir breytingar á ákvæðinu voru samþykktar aðgerðir til að draga úr notkun kola og niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.
    Í norræna skálanum fór fram dagskrá um áskoranir og lausnir í loftslagsmálum og norrænt samstarf. Þar tóku Bryndís Haraldsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Andrés Ingi Jónsson þátt í pallborðsumræðum sem bar yfirskriftina Meðvitund án aðgerða er einskis virði – stjórnmálalegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Þar ræddu þau m.a. hvernig Norðurlönd geta verið í fararbroddi að því er snertir grænar lausnir og orkuskipti. Einnig dró Kristrún Frostadóttir saman helstu atriði í umræðu um hlutverk landnýtingar og landbúnaðar. Þar ræddi hún um leiðir fyrir bændur svo að þeir gætu verið í fararbroddi í grænum umskiptum og hvernig nýta mætti fjármagn í landbúnaði til að styrkja loftslagsmál.

Fylgiskjal V.


FRÁSÖGN
af 143. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og tengdum fundum í Madríd 26.–30. nóvember 2021.


    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna á internetinu, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir og hvernig megi endurhugsa og skipuleggja nálgun friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Jafnframt fór fram almenn umræða um áskoranir samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum. Þá var utandagskrárumræða um hvernig nýta mætti alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við COVID-19 og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. Um 1.000 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 600 þingmenn (234 þingkonur eða 39%) frá 117 ríkjum og 44 þingforsetar. Þá var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 25% þátttakenda.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, en auk þess voru valdir fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í stýrihópum og framkvæmdastjórn IPU, með sænsku þingkonuna Ceciliu Widegren í fararbroddi, kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Hópur norrænna þingmanna hittist jafnframt í tengslum við þingið og tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrir hönd Íslandsdeildar, við formennsku í norræna hópnum fyrir árið 2022. Hann bauð norrænu landsdeildirnar velkomnar til fundar í Reykjavík í mars og lagði áherslu á mikilvægi norræns samstarfs í ljósi sameiginlegra landfræðilegra hagsmuna og hugmyndafræðilegrar sýnar ríkjanna.
    Enn fremur var haldinn kvennafundur 26. desember í tengslum við þingið þar sem vakin var athygli á metþátttöku þingkvenna, sem var 39%, og var sú þátttaka talin sýna árangur af áherslu IPU í störfum sínum undanfarna áratugi á jafnrétti kynjanna. Þá fór fram pallborðsumræða um stefnumótun fyrir kynbundna lagasetningu í aðildarríkjum IPU. Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur hún út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin fjallaði um mál tuga þingmanna, flestra frá Afganistan og Mjanmar en einnig frá öðrum löndum. Fimm tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Með hliðsjón af tilkomu ómíkronafbrigðis kórónuveiru og lokunar landamæra studdu þingmenn IPU einróma tillögu landahóps Afríku um að nýta alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við COVID-19. Í ályktun þingsins var lögð áhersla á nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið tryggði tímanlegan, sanngjarnan og hagkvæman aðgang að öruggum og viðurkenndum bóluefnum. Þá var áréttað að umfangsmikil bólusetning gegn COVID-19 stuðlaði að almannaheill á heimsvísu. Í umræðum var enn fremur bent á skýran mun milli Afríku og umheimsins í alþjóðlegri dreifingu bóluefna. Að sögn Alþjóðabankans og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafa minna en 2% íbúa í lágtekjuríkjum Afríku verið fullbólusett en meira en 60% íbúa í þróuðum hagkerfum.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að áskorunum samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum. Við lok umræðunnar samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Forseti IPU, Duarte Pacheco, sagði í umræðu um yfirlýsinguna að undanfarin tvö ár hefðu einkennst af hættulegri afturför varðandi sameiginlegar skuldbindingar alþjóðasamfélagsins gagnvart mannréttindum og lýðræði. Hann sagði: „Við höfum orðið vitni að faraldri valdarána og beinna árása á stofnanir þjóðþinga í Súdan, Malí, Mjanmar, Afganistan og Gíneu. Við verðum að standa saman og krefjast þess að horft verði til stjórnskipulegra reglna.“ Þá lagði hann áherslu á mikilvægt starf IPU að því að verja lýðræðið og því að aðstoða aðildarríki IPU við að virða lýðræðislega stjórnarhætti.
    Enn fremur var samþykkt ný stefna IPU fyrir árin 2022–2026. Í stefnunni eru tilgreind eftirfarandi sex áhersluatriði: Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti kynjanna og þátttaka ungs fólks, friður og öryggi og sjálfbær þróun. Martin Chungong, framkvæmdastjóri IPU, kynnti stefnuna fyrir þingmönnum og sagði hana sniðna að því að IPU næði að vinna að markmiðum sínum og stæðist þær alþjóðlegu áskoranir sem fram undan væru. Hann sagði stefnuna aðgerðamiðaða og að hún gerði þingum kleift að stuðla að mikilvægum breytingum undir forystu þingmanna aðildarríkjanna. Sérstök áhersla væri lögð á loftslagsbreytingar og stuðning við innleiðingu Parísarsamkomulagsins. Þá væri áfram lögð áhersla á jafnrétti kynjanna og þátttöku ungs fólks og á það að styrkja lýðræðið á heimsvísu.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrirframákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um frið og öryggismál, voru umræður um hvernig megi endurhugsa og skipuleggja friðarferli með það fyrir augum að stuðla að varanlegum friði. Fyrirhugað er að afgreiða ályktunina um efnið á vorþingi IPU í mars 2022. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, fór fram pallborðsumræða um áhrif loftslagsbreytinga á náttúruauðlindir. Í umræðunum var lögð áhersla á hvernig og hvort þjóðþing geti tryggt aðgang íbúa að vatni. Þá fór enn fremur fram umræða um þema næstu ályktunar nefndarinnar um nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni við menntun, ekki síður á tímum heimsfaraldurs. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, fór fram umræða og afgreiðsla ályktunar um alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun barna á internetinu. Ályktunin var enn fremur samþykkt samhljóða á lokadegi þingfundar IPU.
    Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna hittist á tveimur fundum og beindi sjónum sínum að heimsmarkmiðum samtakanna og að áhrifum alþjóðalaga og sáttmála með hliðsjón af ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þá fóru fram pallborðsumræður í nefndinni um alheimsbólusetningu og hvernig binda mætti enda á heimsfaraldur kórónuveiru með hliðsjón af lærdómi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU voru 178 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 auk þess sem yfirlit um skipulagða fundi var kynnt. Næsta þing IPU verður haldið í Nusa Dua á eyjunni Balí í Indónesíu 20.–24. mars 2022.


Fylgiskjal VI.


Ályktanir og yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2021.


    Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Um alþjóðlega löggjöf til að berjast gegn kynferðislegri misnotkun á börnum á internetinu.
     *      Um að nýta alþjóðlegan stuðning þjóðþinga til að jafna dreifingu bóluefna í baráttunni við COVID-19.
     *      Um áskoranir samtímans fyrir lýðræði og leiðir til að sigrast á sundrungu í samfélögum.
     *      Um stefnumótun þjóðþinga til að efla frið og öryggi með áherslu á loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.
     *      Um aðlögun stafrænnar tækni að hringrásarhagkerfinu svo að ná mætti þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
     *      Um hlutverk þjóðþinga við að sigrast á heimsfaraldri og tryggja örugga framtíð.

    Yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Um aðgerðir þjóðþinga til að uppræta ríkisfangsleysi.
     *      Um ástandið í Jemen.
     *      Í tilefni af aðalfundi Sameinuðu þjóðanna 2021 um HIV og alnæmi.