Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 689  —  333. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (menntun og eftirlit).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttir, Trausta Ágúst Hermannsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Frigg Thorlacius og Höllu Einarsdóttur frá Umhverfisstofnun og Árnýju Sigurðardóttur og Guðjón Inga Eggertsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þónokkrar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, m.a. að heimildir ráðherra til að kveða í reglugerð á um að lágmarkskröfur um menntun, þjálfun og námskeið fyrir þau sem þurfa að hafa þekkingu og hæfni á sviði sóttvarna, skyndihjálpar og öryggisþátta verði styrktar og að bætt verði við heimild til að beita stjórnvaldssektum og auka skilvirkni við skil umhverfisupplýsinga.

Umfjöllun nefndarinnar.
Þjálfun, námskeið og próf.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar var m.a. gerð athugasemd við d-lið 5. gr. frumvarpsins en samkvæmt ákvæðinu er Umhverfisstofnun heimilt að fela aðilum sem stofnunin metur hæfa á grundvelli þekkingar og reynslu að hafa umsjón með þjálfun, námskeiðum, endurmenntun og hæfnisprófum sem verður fjallað um í nýjum II. kafla A laganna Sérákvæði um hollustuhætti, verði frumvarpið að lögum. Bent var á að miðað við orðalag ákvæðisins virtist gert ráð fyrir því að stofnunin ætti almennt að hafa yfirumsjón með þeim námskeiðum sem fjallað væri um í kaflanum auk þess sem álykta mætti að ef stofnunin notaði ekki heimild sína til að fela hæfum aðilum að hafa umsjón með námskeiðum ætti stofnunin að halda slík námskeið sjálf, m.a. með vísan til 7. gr. frumvarpsins um heimild Umhverfisstofnunar til að taka gjald fyrir námskeið. Nefndin telur nýja grein skýra hvað varðar hlutverk stofnunarinnar að hafa yfirumsjón með þeim námskeiðum sem fjallað er um í kaflanum. Stofnuninni sjálfri er ekki falið að standa fyrir þjálfun, námskeiðum og prófum en henni ber að fela aðilum sem stofnunin metur hæfa til þess að standa fyrir þjálfun, námskeiðum og prófum. Nefndin telur afar mikilvægt að Umhverfisstofnun fari með þetta hlutverk svo ekki komi til þess að lagaákvæði nýs kafla komi ekki til framkvæmdar að hluta eða heild. Á fundi nefndarinnar með ráðuneytinu og Umhverfisstofnun féll stofnunin frá tillögu sinni um að greinin yrði felld brott úr frumvarpinu en lagði áherslu á að við útfærslu ákvæðisins yrði viðhaft gott samráð við Umhverfisstofnun til að tryggja að ákvæðið geti komið til framkvæmda. Nefndin tekur undir það og leggur áherslu á mikilvægi samráðs í hvívetna.

Stjórnvaldssektir.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að við 1. mgr. 67. gr. laganna bætist heimild fyrir Umhverfisstofnun til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem virða ekki ákvæði starfsleyfa um mengunarvarnir, hvíld svæðis, skýrsluskil eða mælingar. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kom fram almenn ánægja með ákvæðið en á það bent að eðlilegt væri að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hefðu sömu heimildir til að beita stjórnvaldssektum og Umhverfisstofnun. Heilbrigðisnefndirnar vanti heimild sem þessa til þess að bregðast við málum þar sem beiting dagsekta kemur ekki til greina. Á hinn bóginn kom fram á fundi nefndarinnar að mikilvægt væri að heimild til beitingar stjórnvaldssekta, sem eðli málsins samkvæmt er beitt í tilvikum þar sem annarra úrræða hefur áður verið leitað, væri með samræmdum hætti og því einungis á hendi Umhverfisstofnunar að beita þeim en beiðnin um að grípa til þess úrræðis gæti komið frá hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd, sbr. 55. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitssvæðin séu níu talsins, misstór og því ekki hægt að tryggja beitingu stjórnvaldssekta með samræmdum hætti og tryggja þá málsmeðferð og réttarvernd sem gerð er krafa um að stjórnsýslurétti. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og áréttar að mikilvægt er að beiting stjórnvaldssekta sé samræmd um allt land en það að beiting stjórnvaldssekta sé á hendi eins stjórnvalds er til þess fallið að tryggja þá samræmingu. Þá telur nefndin brýnt að Umhverfisstofnun vinni í nánu samstarfi við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir þegar til beitingar þessa ákvæðis kemur.

Heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var mælt með samþykkt frumvarpsins með þeim fyrirvara að staðfest yrði að vinna væri að hefjast við heildarendurskoðun laganna og að þeirri vinnu yrði settur tímarammi. Fram kom á fundi nefndarinnar að heildarendurskoðun laganna væri hafin í ráðuneytinu og fagnar nefndin því löngu tímabæra verkefni. Nefndin bendir á að orðalag frumvarpsins tekur mið af sjónarmiðum um kynhlutleysi með þeim hætti að notað er „þau sem“ í stað „þeir sem“ í 5. gr. Frumvarpið er breyting á gildandi lögum þar sem málfræðilegt karlkyn er hins vegar ráðandi. Nefndin leggur áherslu á að við heildarendurskoðun laganna verði gætt samræmis um orðanotkun að þessu leyti.
    Nefndin leggur til smávægilegar breytingar tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      A-liður 1. gr. orðist svo: Í stað orðanna „sem fellur“ í 1. tölul. kemur: og annarri starfsemi eða athöfnum sem falla.
     2.      Í stað orðanna „er fjallað um“ í d-lið 5. gr. komi: kveðið er á um.
     3.      Við 7. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: Í stað orðsins „Útgáfu“ í 1. tölul. kemur: Námskeið, útgáfu.
                  b.      Á undan orðinu „svohljóðandi“ í b-lið komi: sem verður 2. tölul.

    Bjarni Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttur voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan álitinu.

Alþingi, 17. mars 2022.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Orri Páll Jóhannsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórunn Sveinbjarnardóttir.