Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 712  —  495. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar


um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu.


    Með bréfi, dags. 2. desember 2021, sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis. Í skýrslunni er að finna niðurstöður stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    Nefndin hefur fjallað um skýrsluna á fundum sínum. Fyrir nefndina komu Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir frá Ríkisendurskoðun, Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, og Berglind Bára Sigurjónsdóttir skrifstofustjóri, Guðmundur Bjarni Ragnarsson og Marsilía Dröfn Sigurðardóttir frá dómsmálaráðuneyti.

Meginniðurstöður ríkisendurskoðanda.
    Rekstur sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í járnum allt frá stofnun 2015. Embættið er langstærst sýslumannsembætta og þjónar meiri hluta landsmanna. Hlutfall starfsfólks á hverja 10.000 íbúa er töluvert lægra en hjá öðrum embættum. Biðtími vegna ýmissa mála hafi verið mjög langur ásamt því að gæðamálum hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Embættinu sé jafnframt þröngur stakkur skorinn hvað varðar möguleika á þróun og umbótastarfi. Tækifæri til úrbóta séu því nokkur.
    Á grundvelli úttektarinnar setur ríkisendurskoðandi fram sjö tillögur til úrbóta um málsmeðferð og stjórnsýslu, umbóta- og gæðastarf, innra eftirlit, nettun tekna og launagjalda, geymslufjárreikninga, stefnumótun til framtíðar og stafræna þróun.

Umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
    Fram koma í skýrslunni athugasemdir um óviðunandi biðtíma við málsmeðferð tiltekinna mála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir nefndinni kom fram að mikill árangur náðist á árinu 2021 við að stytta þennan biðtíma. Meðal þess sem fram kom var að biðtími eftir þinglýsingu skjala hafi farið úr fjórtán dögum niður í nokkra daga og að ekki sé lengur sex mánaða bið eftir viðtali á fjölskyldusviði eins og áður var og að biðtími í málum sem vísað hefur verið til sáttameðferðar sé nú fjórir mánuðir en ekki tólf. Nefndin fagnar þessum árangri og hvetur embættið til að vinna áfram með markvissum hætti að því að tryggja skilvirkni í málsmeðferð.
    Þá fjallaði nefndin um rekstur sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Eins og fram kom í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sýslumenn á 149. löggjafarþingi (þskj. 1394, 870. mál) var ekki nægjanlega vel staðið að fjárhagslegum undirbúningi sameiningar sýslumannsembættanna. Kostnaðaráætlanir voru ófullnægjandi, ekki var tekið tillit til ýmiss stofn- og einskiptiskostnaðar og engar rekstraráætlanir lágu fyrir. Þá var embættunum gert að taka á sig neikvæðan stofnefnahag sem þau höfðu ekki reiknað með.
    Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki farið varhluta af þessari ófullnægjandi undirbúningsvinnu sem hefur leitt af sér erfiða rekstrarstöðu fyrir embættið. Grípa hefur þurft til margvíslegra hagræðingaraðgerða til að vinna upp sameiningarkostnaðinn og þær aðgerðir, ásamt fjölgun verkefna, hafa haft áhrif á starfsfólk og verkefnastöðu embættisins. Álag hefur verið mikið og starfsánægja hefur almennt mælst lítil.
    Í upphafi árs 2021 tók nýr sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu til starfa og hefur þegar verið hafin úrbótavinna innan embættisins. Má þar nefna innleiðingu á straumlínustjórnun ásamt því að upplýsingaflæði hefur verið aukið með reglulegum starfsmannafundum. Nefndin lýsir ánægju sinni með þær breytingar sem nýr sýslumaður hefur gripið til.
    Í skýrslunni kom fram að mikið og viðvarandi álag hefur verið á starfsfólki vegna þungrar verkefnastöðu hjá embættinu. Fyrir nefndinni kom fram að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða innan embættisins til að auka skilvirkni og jafna álag. Þá hefur ráðuneytið einnig fært verkefni tímabundið til annarra sýslumannsembætta. Að mati nefndarinnar er það jákvætt að brugðist hafi verið við auknu álagi meðal annars með því að færa verkefni tímabundið til annarra sýslumannsembætta auk þess sem fjárheimildir til málaflokksins hafi verið hækkaðar. Að mati nefndarinnar er þó mikilvægt að ráðist sé í heildarendurskoðun á verkefnum og skyldum sýslumannsembættanna. Við þá endurskoðun þarf að skoða sérstaklega verkefni og skyldur sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í ljósi starfseminnar á landsvísu og skiptingar fjárveitinga milli sýslumannsembætta. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þjónar um 64% landsmanna en fær 39% þeirra fjárveitinga sem markaðar eru sýslumönnum í fjárlögum. Mikilvægt er að skýra kjarnaverkefni embættanna og hvert þjónustustig þeirra eigi að vera. Skýrsla dómsmálaráðuneytisins, Sýslumenn – Framtíðarsýn; umbætur á þjónustu og rekstri, er að mati nefndarinnar gott skref í þá átt.
    Að mati nefndarinnar er mikilvægt að þjónusta embættanna sé skilvirk og vönduð og innt af hendi með þeim hætti sem einstaklingar óska hverju sinni. Meta þarf verkefni sýslumanna meðal annars með það fyrir augum að færa þau yfir í rafræna þjónustu. Fyrir nefndinni var nefnt sem dæmi um vel heppnaða rafræna þjónustu að hægt er að afgreiða umsóknir um skilnaðarleyfi á netinu. Það hefur vakið almenna ánægju þeirra sem hafa sótt þá þjónustu þar sem ekki þarf að mæta á skrifstofu heldur má sinna þessu í gegnum tölvu.
    Fram kom í skýrslunni að við úttekt Ríkisendurskoðunar hafi komið í ljós að dómsmálaráðuneytinu hafi á undanförnum árum fundist skorta nægjanlegar skýringar og svör um skipulag og rekstur sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hafi ráðuneytið ekki talið sig fá fullnægjandi svör um ráðstöfun fjár sem embættinu hefur verið úthlutað. Þá hafi embættið ekki veitt ráðuneytinu fullnægjandi skýringar þegar ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum vegna erinda umboðsmanns Alþingis um málsmeðferðartíma. Nefndin lýsir áhyggjum sínum af því að ráðuneytið, sem hefur yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur gagnvart embættinu, hafi yfir nokkurra ára tímabil talið sig fá ófullnægjandi svör og skýringar frá sinni undirstofnun. Fyrir nefndinni kom fram að ráðuneytið hafi brugðist við þessu með því að láta gera sérstakt mat á skilvirkni starfsemi og verkefnaálagi innan embættisins og afhent nýjum sýslumanni til úrvinnslu. Nefndin telur jákvætt að ráðuneytið hafi brugðist við en bendir á að svo virðist sem samskipti dómsmálaráðuneytis og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafi verið lítil. Samskiptin hafi að jafnaði farið fram þegar sérstakt tilefni var til og lítið hafi verið um reglulega samráðsfundi um fagleg málefni. Nefndin vill því beina því til ráðuneytisins að treysta í sessi virkt samtal og samráð við embættið.
    Fram kom fyrir nefndinni að ráðuneytið hafi undanfarið greint tækifæri til að bæta þjónustu embættanna með því að fela þeim ný og aukin verkefni. Með því að fjölga verkefnunum megi stuðla að því að almenningur hafi betra aðgengi að opinberri þjónustu í heimabyggð. Að mati nefndarinnar er hér um verðugt markmið að ræða en hún leggur áherslu á fjármögnun slíkra verkefna sé tryggð. Eins og áður kom fram sé mikilvægt að farið sé í almenna heildarendurskoðun á stöðu og verkefnum allra sýslumannsembættanna. Horfa þarf á verkefni allra sýslumanna á landinu sem eina heild og færa verkefni á milli einstakra embætta þannig að þau verði enn öflugri stjórnsýslueiningar ríkisins í héraði.
    Nefndin tekur að öðru leyti undir þær ábendingar sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Sigmar Guðmundsson og Friðjón R. Friðjónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 17. mars 2022.

Þórunn Sveinbjarnardóttir,
form., frsm.
Sigmar Guðmundsson. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Eva Dögg Davíðsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.