Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 717  —  500. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda er varða greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að almennum greiðslureikningum.
     2.      Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 frá 28. september 2017 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um staðlaða hugtakanotkun Sambandsins yfir dæmigerðustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum.
     3.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/33 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlitið og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB.
     4.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/34 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarsnið fyrir gjaldskrána og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (sbr. fskj. I) og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda er varða greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að almennum greiðslureikningum (sbr. fskj. II).
     2.      Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 frá 28. september 2017 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um staðlaða hugtakanotkun Sambandsins yfir dæmigerðustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum (sbr. fskj. III).
     3.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/33 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlitið og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB (sbr. fskj. IV).
     4.      Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/34 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarsnið fyrir gjaldskrána og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB (sbr. fskj. V).
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni fyrrnefndra gerða eins og þær hafa verið aðlagaðar að EES-samningnum með ákvörðuninni. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Einnig er fjallað um þær lagabreytingar sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB og hugsanleg áhrif. Þá er gerð grein fyrir samráði sem hefur átt sér stað við Alþingi á fyrri stigum vegna upptöku gerðanna í samninginn auk almennrar umfjöllunar um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.

2. Efni þeirra gerða sem lagt er til að felldar verði inn í EES-samninginn.
    Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB er mælt fyrir um reglur um gagnsæi og samanburð á gjöldum sem neytendur þurfa að greiða fyrir greiðslureikninga sína, reglur um skipti á greiðslureikningum innan aðildarríkis og reglur til að greiða fyrir að neytendur stofni reikninga vegna greiðslna yfir landamæri. Samkvæmt tilskipuninni skulu greiðsluþjónustuveitendur láta neytendur fá gjaldskrá þar sem fram koma stöðluð hugtök yfir algengustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningi og tilsvarandi gjöld fyrir hverja þjónustu sem greiðsluþjónustuveitandi býður. Jafnframt skulu greiðsluþjónustuveitendur veita svokallaða skiptiþjónustu sem felst í því að neytandi á rétt á aðstoð greiðsluþjónustuveitanda við að skipta um greiðslureikning. Þá skulu lánastofnanir veita neytendum aðgengi að almennum greiðslureikningi og er óheimilt að mismuna neytendum að því leyti. Tilskipunin kveður á um lágmarkssamræmingu og gefur aðildarríkjum nokkuð svigrúm við innleiðingu, svo sem að láta lögin gilda um fleiri tegundir innlánsreikninga en greiðslureikninga með grunneiginleika.
    Hinar þrjár gerðirnar, reglugerðir (ESB) 2018/32, 2018/33 og 2018/34 eru allar afleiddar af fyrrnefndri tilskipun 2014/92/ESB. Sú fyrstnefnda varðar stöðluð hugtök fyrir helstu tegundir þjónustu sem tengdar eru greiðslureikningi, sú næsta varðar staðlaða framsetningu á gjöldum og táknum tengdum greiðslureikningi og sú síðastnefnda varðar eyðublöð fyrir gjaldayfirlit og sameiginleg tákn tengd greiðslureikningi.
    Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem mælir fyrir um upptöku gerðanna í EES-samninginn eru tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB og framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 aðlagaðar að tveggja stoða kerfi samningsins. Þær aðlaganir eru í fullu samræmi við þá nálgun sem unnið hefur verið eftir vegna fyrri gerða á sviði eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði.

3. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB krefst þess að setja þarf sérstaka löggjöf um greiðslureikninga. Frumvarp þess efnis verður lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Hinar þrjár gerðirnar sem teknar eru upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 eru afleiddar gerðir af tilskipun 2014/92/ESB og verða innleiddar á grundvelli þeirra löggjafar sem innleiðir þá gerð.

4. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB var send til nefndarinnar til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá nefndinni, dagsettu 18. janúar 2021, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og geri ekki athugasemd við upptöku hennar í EES-samninginn.

5. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkir. Í nýlegu svari þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til Alþingis kemur fram að frá árinu 1994 til og með árinu 2020 hafi Ísland tekið upp um 14,5% þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 frá 11. júní 2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0717-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB frá 23. júlí 2014 um samanburð gjalda er varða greiðslureikninga, skipti á greiðslureikningum og aðgengi að almennum greiðslureikningum.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0717-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/32 frá 28. september 2017 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um staðlaða hugtakanotkun Sambandsins yfir dæmigerðustu tegundir þjónustu sem tengjast greiðslureikningum.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0717-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/33 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarform fyrir gjaldayfirlitið og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0717-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/34 frá 28. september 2017 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlað framsetningarsnið fyrir gjaldskrána og sameiginlegt tákn þess samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/92/ESB.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0717-f_V.pdf