Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 718  —  501. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn annars vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2160 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2162 frá 27. nóvember 2019 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2014/59/ESB.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022 frá 18. mars 2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I) og til að fella inn í samninginn annars vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2160 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa (sbr. fskj. II) og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2162 frá 27. nóvember 2019 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2014/59/ESB (sbr. fskj. III).
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni fyrrnefndra gerða. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Einnig er fjallað um þær lagabreytingar sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar þeirra og hugsanleg áhrif. Þá er gerð grein fyrir samráði sem hefur átt sér stað við Alþingi á fyrri stigum vegna upptöku gerðanna í samninginn auk almennrar umfjöllunar um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.

2. Efni þeirra gerða sem lagt er til að felldar verði inn í EES-samninginn og aðlaganir í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Reglugerð (ESB) 2019/2160 og tilskipun (ESB) 2019/2162 varða sértryggð skuldabréf sem eru skuldaviðurkenningar sem bankar og aðrar lánastofnanir gefa út sem eru ekki tryggðar með hefðbundnum veðum heldur með söfnum traustra eigna sem uppfylla tiltekin lögákveðin skilyrði, þar á meðal um hámarksveðhlutföll.
    Tilskipun (ESB) 2019/2162 hefur að geyma almenn ákvæði um sértryggð skuldabréf. Mælt er fyrir um hvaða eignir geti myndað tryggingasöfn sértryggðra skuldabréfa, en það eru aðeins traustar eignir á borð við ríkisskuldabréf og fasteignaveðlán, og upplýsingagjöf útgefenda til fjárfesta. Útgáfa skuldabréfanna skal háð leyfi frá lögbæru yfirvaldi og sæta opinberu eftirliti.
    Reglugerð (ESB) 2019/2160 breytir ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Síðarnefnda reglugerðin hefur að geyma eiginfjárkröfur til lánastofnana sem ráðast m.a. af þeirri áhættu sem talin er fylgja einstökum eignaflokkum. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar eru fjárfestingar lánastofnana í sértryggðum skuldabréfum metnar áhættulitlar við ákvörðun eiginfjárkrafna að tilgreindum skilyrðum fullnægðum. Reglugerð (ESB) 2019/2160 breytir þeim skilyrðum þannig að þau vísi til tilskipunar (ESB) 2019/2162 auk þess að bæta við fyrirmælum um veðhlutföll og eignir sem geti komið í stað annarra eigna í tryggingasafni. Þá eru felld brott sérákvæði um tiltekna gerninga sem gefnir eru út í Frakklandi.
    Í framangreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er mælt fyrir um aðlögun til janúar 2023 til að innleiða gerðirnar í landsrétt þar sem ekki er talið að unnt verði að innleiða gerðirnar fyrir 8. júlí 2022, þegar gert er ráð fyrir að þær taki gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins (með fyrirvara um afléttingu stjórnskipulegra fyrirvara).

3. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Upptaka fyrrgreindra gerða í EES-samninginn og innleiðing þeirra hér á landi kallar á lagabreytingar. Gerðirnar verða líklega innleiddar með breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008, og verður frumvarp þar að lútandi lagt fram á 153. löggjafarþingi.
    Innleiðing þeirra hefur minni áhrif hér á landi en í sumum öðrum Evrópuríkjum því hér er þegar til staðar lagarammi um sértryggð skuldabréf í fyrrgreindum lögum nr. 11/2008. Hún er þó til þess fallin að greiða fyrir útgáfu og viðskiptum með sértryggð skuldabréf þvert á landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til útgáfu sértryggða skuldabréfa samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra. Ráðgert er að svo verði áfram. Ekki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu eða því að útgjöld ríkisins aukist vegna innleiðingarinnar.

4. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Gerðirnar voru sendar Alþingi til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá utanríkismálanefnd Alþingis, dags. 27. maí 2020, kemur fram að nefndin hafi fjallað um reglugerð (ESB) 2019/2160 og geri ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn. Í bréf frá nefndinni, dags. 20. október 2020, kemur fram að nefndin hafi fjallað um tilskipun (ESB) 2019/2162 og geri ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.

5. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkir. Í nýlegu svari utanríkisráðherra til Alþingis kemur þannig fram að frá árinu 1994 til og með árinu 2020 hafi Ísland tekið upp um 14,5% þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér á landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið, að samningurinn horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.


Fylgiskjal I.



Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0718-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2160 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0718-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2162 frá 27. nóvember 2019 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2014/59/ESB.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0718-f_III.pdf