Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 719  —  502. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason.


    Alþingi ályktar að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að setja upp að nýju skjaldarmerki sem prýddu framhlið Alþingishússins á vígsludegi þess 1. júlí 1881.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að skjaldarmerkin sem prýddu Alþingishúsið á vígsludegi þess árið 1881 verði sett upp að nýju. Um er að ræða tvö skjaldarmerki, annars vegar hinn krýnda þorsk Íslands og hins vegar hin krýndu ljón Danmerkur. Markmiðið með tillögunni er að færa framhlið hússins í upprunalegt horf og halda í heiðri eigin sögu, sem mikilvægt er og skylt að varðveita.
    Endurbætur á Alþingishúsinu á umliðnum árum hafa miðast að því að húsinu verði komið í því sem næst upphaflegt horf. Þessi tillaga miðar að sama marki. Komandi kynslóðir eiga rétt á því að þekkja söguna og þau mannvirki og kennileiti sem bera henni vitni, þar á meðal Alþingishúsið í upphaflegri mynd. Á meðfylgjandi teikningu af húsinu má sjá umrædd skjaldarmerki hvort sínum megin við svalagluggann.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.