Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 740  —  517. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014 (EURES-netið).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 27. september 2012, bls. 299–310, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 52/2012 frá 30. mars 2012, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 43 frá 2. ágúst 2012, bls. 39, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest, með breytingum samkvæmt 39. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 12. mars 2020, bls. 145-172.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr.:
                  1.      1. málsl. fellur brott.
                  2.      Í stað orðsins „reglugerðarinnar“ í 2. málsl. kemur: reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins.

2. gr.

    Fylgiskjal með lögunum fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 frá 13. desember 2019 var meðal annars tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest
    Með reglugerð á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, er gert ráð fyrir að innleidd verði hér á landi fyrrnefnd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013. Þar sem 39. gr. framangreindrar reglugerðar (ESB) 2016/589 mælir fyrir um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins kallar innleiðing reglugerðar (ESB) 2016/589 hér á landi á tilteknar breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, en með lögunum hefur ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 verið veitt lagagildi hér á landi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Efni reglugerðar (ESB) 2016/589 lýtur að EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu (e. European Employment Services), aðgangi launafólks að þjónustu vinnumiðlunarinnar vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða. Efni framangreindrar reglugerðar lýtur einnig að gagnagrunni með upplýsingum um laus störf og atvinnuleitendur innan svæðisins. EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, hefur verið starfrækt síðan 1994. Síðan þá hefur vinnumiðlunin verið samstarfsverkefni um opinbera vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, rekið af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í því skyni að veita ráðgjöf, upplýsingar og annast ráðningar og/eða atvinnumiðlun í þágu launafólks og vinnuveitenda sem og ríkisborgara aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem vilja nýta sér meginregluna um frjálsa för launafólks, með tengslaneti svæðisins og með þjónustuleiðum á netinu sem eru aðgengilegar á evrópsku vefgáttinni fyrir hreyfanleika á vinnumarkaði (EURES-vefgáttin). Með reglugerð (ESB) 2016/589 er ætlunin að styðja frekar við EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, og tryggja samræmda afgreiðslu, stuðningsþjónustu og upplýsingaskipti í tengslum við hreyfanleika vinnuafls innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Tilefni þessa frumvarps er innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013. Framangreind reglugerð (ESB) 2016/589 var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 frá 13. desember 2019 og gert er ráð fyrir að efni hennar verði innleitt með reglugerð sem sett verði á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.
    Þar sem 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589 mælir fyrir um breytingar á reglugerð (ESB) nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins sem veitt hefur verið lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, þykir nauðsynlegt að gera tilteknar breytingar á framangreindum lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins þannig að unnt verði með reglugerð á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir að innleiða hér á landi reglugerð (ESB) 2016/589.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Ákvæði um EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa fram til þessa verið í reglugerð (ESB) nr. 492/2011, sem veitt hefur verið lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.
    Með 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589 eru ákvæði 11.–20. gr. og 38. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins felld brott úr þeirri reglugerð og þess í stað tekin upp í reglugerð (ESB) 2016/589. Gert er ráð fyrir að efni reglugerðar (ESB) 2016/589 verði innleitt hér á landi með reglugerð sem sett verði á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Í ljósi þess er í frumvarpi þessu lagt til að í 1. gr. laganna verði kveðið á um að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, með þeim breytingum sem leiða af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, skuli hafa lagagildi hér á landi.
    Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að fylgiskjal með lögunum, þar sem reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins er birt í heild sinni, verði fellt brott úr lögunum í samræmi við hefðbundna lagasetningu í tengslum við innleiðingu reglugerða sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er því gert ráð fyrir breytingum hvað varðar gildi reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 hér á landi, með þeim breytingum sem leiða af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, heldur er eingöngu um að ræða hefðbundna framsetningu við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins með lögum hér á landi. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir efnislegum breytingum hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár.
    Frumvarpinu er ætlað að lögfesta þær breytingar sem 39. gr reglugerðar (ESB) 2016/589 mælir fyrir um á ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, sem veitt hefur verið lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014. Reglugerð (ESB) 2016/589 er hluti af löggjöf sem ætlað er að gilda á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins og er hún því hluti af alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins sem aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í samráði við Vinnumálastofnun sem fer með framkvæmd EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi. Þar sem frumvarpið var samið í samráði við Vinnumálstofnun sem og í ljósi þess að frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi þótti ekki ástæða til að kynna frumvarpið sérstaklega í samráðsgátt stjórnvalda.
    Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt á fundi ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta í samræmi við verklag hvað varðar innra samráð Stjórnarráðsins.

6. Mat á áhrifum.
    Hvorki verður séð að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér muni hafa mismunandi áhrif á konur og karla né á stöðu kynjanna á vinnumarkaði, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þar sem frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar frá því sem nú er hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi.
    Í ljósi þess að efni frumvarpsins hefur ekki í för með sér efnislegar breytingar á löggjöf hér á landi þykir fyrirséð að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs, svo sem rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning ríkisins, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

Um a-lið.
    Í 1. mgr. 1. gr. laganna er kveðið á um að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, eins og henni var breytt með ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skuli hafa lagagildi hér á landi. Hér er gert ráð fyrir að ákvæðinu verði breytt þannig að kveðið verði á um að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, með þeim breytingum sem leiða af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013, skuli hafa lagagildi hér á landi.

Um b-lið.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna er kveðið á um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011, um frjálsa för launafólks innan Sambandsins, sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Hér er gert ráð fyrir að framangreindur 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna verði felldur brott til samræmis við þær breytingar sem gert er ráð fyrir í 2. gr. frumvarpsins. Auk þess er gert ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að verið sé að vísa til reglugerðar (ESB) nr. 492/2011.

Um 2. gr.

    Hér er lagt er til að fylgiskjal með lögunum verði fellt brott úr lögunum. Er það lagt til í samræmi við hefðbundna lagasetningu í tengslum við innleiðingu reglugerða sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er því gert ráð fyrir breytingum hvað varðar gildi reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 hér á landi, með þeim breytingum sem leiða af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, heldur er eingöngu um að ræða hefðbundna framsetningu við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins með lögum hér á landi. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir efnislegum breytingum hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.