Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 742  —  275. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um línuívilnanir til fiskiskipa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvert var magn línuívilnunar til fiskiskipa skv. 8. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sundurliðað eftir fiskveiðiárum tímabilið 2018/2019–2020/2021? Óskað er eftir að í svarinu komi fram skráningarnúmer skips, nafn þess og einkennisstafir, eigandi, heimahöfn, stærð og útgerðarflokkur, úthlutað aflamark, aflamark sem flutt hefur verið frá skipinu, afli skips, magn línuívilnunar eftir beitningaraðferð, nafn byggðarlags þar sem var landað, magn afla sem þar var landað og nafn byggðarlags þar sem línan var beitt eða stokkuð upp. Aflatölur og aflamark taki til eftirtalinna tegunda: þorsks, ýsu, ufsa, steinbíts, gullkarfa, keilu og löngu. Allar tölur miðist við óslægt.


    Magn línuívilnunar fyrir hvert fiskveiðiár er ákvarðað á grundvelli ráðstöfunar sem fram kemur í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni með nánari sundurliðun á ráðstöfun línuívilnunar eftir tímabilum og magni sem tilgreint er í reglugerð um línuívilnun. Nánar má sjá ráðstöfun í óslægðu magni í tonnum vegna viðkomandi fiskveiðiárs og tegund í töflunni hér á eftir.

Ráðstöfun línuívilnunar vegna fiskveiðiáranna 2018/2019–2019/2020.

Ráðstöfun í óslægðu magn (t) Þorskur Ýsa Steinbítur Langa Keila Gullkarfi
Sundurliðun samkvæmt reglugerð nr. 681/2018 vegna fiskveiðiársins 2018/2019 3.000 1.000 700 100 25 30
Sundurliðun samkvæmt reglugerð nr. 677/2019 vegna fiskveiðiársins 2019/2020 2.000 850 500 20 15 60
Sundurliðun samkvæmt reglugerð nr. 729/2020 vegna fiskveiðiársins 2020/2021 1.386 700 250 15 14 50

    Framangreint magn er það magn sem mögulegt er að nýta á hverju fiskveiðiári í tilgreindum tegundum. Tekið skal sérstaklega fram að ekki er um ráðstöfun línuívilnunar að ræða í ufsa fyrir framangreint tímabil.
    Ekki eru fyrirliggjandi gögn um í hvaða byggðarlagi lína er beitt eða stokkuð upp þar sem Fiskistofa heldur ekki sérstaklega utan um hvar beitning eða stokkun fer fram enda eru ekki gerðar kröfur um að slíkum upplýsingum sé skilað. Þannig er ekki unnt að svara því í hvaða byggðarlagi lína er beitt eða stokkuð upp. Dæmi eru um að handbeitning og stokkun línu fari fram í öðru byggðarlagi en því byggðarlagi sem viðkomandi bátur er gerður út frá.
    Varðandi þau atriði sem fyrirspurnin varðar þá leitaði ráðuneytið til Fiskistofu varðandi þau tölulegu gögn sem óskað er eftir í fyrirspurninni. Vegna þess hversu umfangsmikil gögn liggja að baki þeim upplýsingum sem beðið er um í fyrirspurninni hefur ráðuneytið leitast við að auka skýrleika upplýsinga með því aðlaga framsetningu svars. Svarinu hefur því verið skipt í fjóra flokka með hliðsjón af efnisatriðum fyrirspurnarinnar. Þannig er upplýsingar um úthlutun aflamarks skipa sem nýta línuívilnun að finna í fylgiskjali 1, í fylgiskjali 2 er að finna upplýsingar um millifærslur á framangreindum fiskveiðiárum, í fylgiskjali 3 er að finna upplýsingar um afla skipa sem nýta línuívilnun og í fylgiskjali 4 er að finna upplýsingar um nýtingu línuívilnunar fyrir framangreind fiskveiðiár.
    Tekið skal fram að aflatölur tilgreina heildarafla viðkomandi skips og ekki aðeins þann afla sem reiknast til línuívilnunar. Línuívilnun er reiknuð á þann hátt að frá afla er fyrst dreginn undirmálsafli og síðan er línuívilnun reiknuð út frá þeim afla sem síðan er það magn sem reiknast til kvóta viðkomandi skips.
    Allar magntölur í svarinu eru tilgreindar sem óslægt magn í kg. Þó er magn vegna millifærslna tilgreint í þorskígildum.


Fylgiskjöl.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0742-f_I.pdf