Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 905  —  388. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um vopnaburð lögreglu.


     1.      Hvaða verkferlum þarf lögreglumaður á vettvangi að fylgja til að mega grípa til skotvopns?
    Lögreglustjórar geta gefið fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast skotvopnum skv. 30. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Þá geta hæstráðandi lögreglumenn gefið fyrirmæli um að lögreglumenn vopnist í neyðartilvikum.
    Ef aðstæður skapast þar sem lífi borgara og eða lögreglumanna er ógnað með eggvopni, skotvopni eða hótun um að beita vopni getur vakthafandi yfirmaður ákveðið að lögreglumenn skuli vopnast skotvopnum, sbr. reglurnar. Fer það eftir lögregluembættum hvaða yfirmenn hafa heimild lögreglustjóra til þess að geta gefið lögreglumönnum þau fyrirmæli.
    Til þess að mögulegt sé að vopna lögreglumann á vettvangi verða eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt:
          Að lögreglumenn séu fullmenntaðir.
          Að þeir hafi hlotið þjálfun á skotvopn lögreglu og staðist skotpróf.
          Að þeir séu með gild skotvopnaréttindi.
          Að þeir hafi aðgang að vopnum á lögreglustöð eða í lögreglubifreiðinni.
          Að tveir eða fleiri vopnbærir lögreglumenn séu saman. Í neyðartilvikum getur þó einn lögreglumaður vopnast samkvæmt reglunum.

     2.      Hversu langan tíma tekur lögreglumann að grípa til skotvopns þegar þess þarf?
    Það ræðst af aðstæðum hjá hverju umdæmi fyrir sig og þeim aðstæðum sem eru á vettvangi. Lögreglumenn geta t.d. verið á lögreglustöð þegar þeir fá fyrirmæli um að vopnast eða í lögreglubifreið þar sem geymdar eru skammbyssur. Þá geta þeir vopnast á vettvangi með skammbyssum.
    Þegar lögreglumenn vopnast setja þeir aukaskotvörn inn í skotvestið sem þeir eru klæddir og eru með skotskýlingarhjálm á höfði. Einnig eru flestar ef ekki allar lögreglubifreiðar með skotskýlingarskjöld. Það getur því verið mismunandi eftir embættum og þjálfun lögreglumanna hversu langan tíma það tekur að vopnast.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að styttur verði sá tími sem tekur lögreglumann að grípa til skotvopns?
    Ríkislögreglustjóri er með í undirbúningi greiningu á viðbragðsgetu einstakra lögregluliða. Slík greining kann að leiða í ljós atriði sem þarfnist úrbóta. Ráðherra telur mikilvægt að samræma sem mest framkvæmd lögregluliðanna hvað varðar vopn og annan sérbúnað enda mikilvægt að sama fyrirkomulag sé viðhaft hjá umdæmunum eftir því sem eðlilegt getur talist.

     4.      Hyggst ráðherra sjá lögreglunni fyrir rafvopnum? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Með reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá árinu 1999, sem eru byggðar á 3. gr. vopnalaga, nr. 16 frá 25. mars 2003, er settur rammi um valdbeitingu og vopnaburð lögreglu og kveðið á um heimildir hennar til að beita tilteknum vopnum, hverjar séu takmarkanir á þeim og hvernig öryggi vopna skuli tryggt. Í reglunum felst stefnumörkun ráðuneytisins um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar.
    Í 1. mgr. 7. gr. reglnanna segir að ríkislögreglustjóri ákveði notkun vopna og eru heimiluð vopn í kjölfarið skilgreind í sömu málsgrein. Skv. 3. mgr. 8. gr. reglnanna getur ríkislögreglustjóri svo í sérstökum tilfellum heimilað notkun annarra vopna en talin eru upp í 7. gr., svo sem rafmagnsvopn o.fl.
    Samkvæmt gildandi lögum og reglum er það því ríkislögreglustjóri sem falið er að taka ákvörðun um notkun lögreglu á rafmagnsvopnum.
    Ráðherra hefur hins vegar umræddar reglur til endurskoðunar og verður hluti af þeirri endurskoðun að meta þörfina á því að heimila notkun slíkra vopna í meira mæli en nú er gert ráð fyrir. Fer endurskoðun þessi fram í nánu samráði við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti, eftir atvikum.