Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 909  —  111. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skiptastjóra.


     1.      Hvað hafa mörg erindi um aðfinnslur við störf skiptastjóra borist héraðsdómstólunum sl. 10 ár? Óskað er sundurliðunar á fjölda erinda eftir dómstólum, árum og tegund búa, t.d. þrotabúa, dánarbúa, búa til fjárslita hjóna o.s.frv.
    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni er ekki unnt að kalla fram umbeðnar upplýsingar úr málaskrárkerfi héraðsdómstólanna þar sem erindi um aðfinnslur eru ekki skráð með samræmdum hætti.

     2.      Hvað hafa mörg erindi borist héraðsdómstólunum sl. 10 ár þar sem krafist er úrskurðar um að skiptastjóra verði vikið frá sökum vanhæfis? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul.
    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni voru þess háttar kröfur settar fram í 22 skipti hjá héraðsdómstólunum frá árinu 2012 til og með ársins 2021, en í öllum tilvikum er að ræða þrotabú.
    Slíkar kröfur bárust tvívegis á árinu 2012, annars vegar til Héraðsdóms Norðurlands vestra og hins vegar til Héraðsdóms Reykjaness. Árin 2013 og 2014 barst ein krafa hvort ár, fyrra árið til Héraðsdóms Reykjavíkur, en síðara árið til Héraðsdóms Reykjaness. Næsta ár þar á eftir var þessa þrívegis krafist, þar af einu sinni hjá Héraðsdómi Reykjaness, en tvisvar sinnum hjá Héraðsdómi Suðurlands. Ein krafa af þessu tagi barst árið 2016 og var hún gerð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Árið 2017 voru kröfurnar þrjár, í öllum tilvikum hjá Héraðsdómi Reykjaness. Árið 2018 voru þessar kröfur þrjár talsins, ein hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra og tvær hjá Héraðsdómi Reykjaness. Árið 2019 voru kröfurnar fimm talsins. Ein þeirra var gerð fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, ein fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra, tvær fyrir Héraðsdómi Reykjaness og ein fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Árið 2020 var þessa einu sinni krafist, í því tilviki fyrir Héraðsdómi Reykjaness, og á síðasta ári voru kröfurnar tvær, báðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

     3.      Hvað líður að meðaltali langur tími frá því að erindi berst héraðsdómstól og þangað til málinu lýkur? Óskað er sömu sundurliðunar og áður.
    Eftirfarandi tafla sýnir meðalfjölda daga frá móttöku erinda fram að lyktum mála er snúa að brottvikningu skiptastjóra. Meðaldagafjöldi í töflunni er skráður við það ár sem málið/málin voru móttekin. Í töflunni merkir talan 0 það að máli hafi lokið samdægurs.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ekki reyndist unnt að afla umbeðinna upplýsinga um meðalfjölda daga vegna erinda um aðfinnslur við störf skiptastjóra þar sem þess háttar erindi eru ekki skráð með samræmdum hætti hjá héraðsdómstólum landsins, sbr. svar við fyrsta lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hve mörgum aðfinnslumálum hefur verið vísað frá sl. 10 ár, hve mörg dregin til baka og hve mörgum lokið með kröfu dómara um úrbætur eða með úrskurði? Hvernig hefur málum sem lokið hefur verið með kröfu um úrbætur verið fylgt eftir af dómstólum? Óskað er sömu sundurliðunar og áður.
    Sem fyrr segir eru erindi um aðfinnslu við störf skiptastjóra ekki skráð með samræmdum hætti hjá héraðsdómstólum landsins og er því ekki unnt afla umbeðinna upplýsinga. Um aðfinnslur við störf skiptastjóra vísast að öðru leyti til 76. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

     5.      Hvernig er úthlutun þessara mála háttað hjá hverjum héraðsdómstól? Fara dómstjórar með þau, dómarar og/eða aðstoðarmenn dómara? Ef aðstoðarmönnum er falin meðferð þessara mála, samkvæmt hvaða heimild er það þá?
    Um skipun skiptastjóra hjá héraðsdómstólunum fer samkvæmt leiðbeinandi reglum dómstólasýslunnar nr. 2/2019, um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningum. Reglurnar eru aðgengilegar á vef Dómstólasýslunnar. 1
    Samkvæmt 2. gr. reglnanna skal hver héraðsdómstóll halda lista yfir þá lögmenn sem óska eftir að verða skipaðir skiptastjórar eða umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum og skal listinn uppfærður reglulega. Í 3. gr. sömu reglna er í stafliðum a til f fjallað um þau atriði sem líta skal til við skipun skiptastjóra eða umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum.
    Þá má í eftirfarandi töflu sem aflað var hjá dómstólasýslunni sjá hverjir fara með þessi mál hjá hverjum héraðsdómstól:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Um heimild aðstoðarmanna dómara til meðferðar mála fyrir héraðsdómstólunum fer skv. 32. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægi skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna. Þeir skuli ráðnir til fimm ára í senn. Í 2. mgr. sömu laga segir enn fremur að dómstjóri geti falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Þá ber dómstjóri ábyrgð á störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.
    Vegna starfa aðstoðarmanna héraðsdómara er þess sérstaklega að geta að ef upp kemur ágreiningur um skipan skiptastjóra þá er það dómara að ráða honum til lykta.

     6.      Hvað eru margir lögmenn skráðir á lista sem mögulegir skiptastjórar hjá hverjum héraðsdómstól? Hvernig eru lögmenn valdir á þennan lista? Hafa verið settar skriflegar reglur um það og lögmönnum kynnt hvernig þeir geta komist á þennan lista? Hve margir af þeim hafa fengið úthlutun búa og hve oft hver þeirra sl. 10 ár? Hve margir á viðkomandi listum hafa ekki fengið úthlutað búum? Hver eru kynjahlutföllin?
    
Eftirfarandi tafla sýnir fjölda lögmanna sem eru á lista héraðsdómstólanna yfir skiptastjóra samkvæmt svari dómstólasýslunnar til dómsmálaráðuneytisins 15. mars 2022. Umræddir listar eru reglulega uppfærðir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Til að komast á þess háttar lista hafa lögmenn samband við viðkomandi héraðsdómstól og óska eftir að vera settir á lista yfir þá sem taka að sér opinber skipti, sbr. framangreinda 2. gr. reglna nr. 2/2019, um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum. Líkt og að framan er vísað til eru þær reglur aðgengilegar á heimasíðu dómstólasýslunnar. Við gerð reglnanna var meðal annars höfð hliðsjón af því verklagi sem mótast hafði fram að setningu þeirra. Allir sjálfstætt starfandi lögmenn geta verið á lista yfir skiptastjóra hjá dómstólunum en héraðsdómstólarnir hafa ekki kynnt lögmönnum sérstaklega hvernig þeir komast á listann.
    Um þann hluta fyrirspurnarinnar sem lýtur að því hve margir af þeim lögmönnum sem eru á slíkum listum hafi fengið úthlutað búum og hve oft hver þeirra sl. 10 ár verður vegna umfangs þess svars að vísa í töflu þar um sem merkt er sem fylgiskjal I með svari þessu.
    Málaskrárkerfi dómstólanna býður á hinn bóginn ekki upp á að unnt sé að afla upplýsinga um hversu margir á viðkomandi listum hafi ekki fengið úthlutað búum og hver kynjahlutföll séu.

     7.      Hve langur tími líður að meðaltali frá skipun skiptastjóra og þar til skiptum lýkur?
    Málsmeðferðartími þessara mála er mjög mismunandi og fer eftir stærð búa. Á árunum 2012–2021 var þessi tími að meðaltali 207 dagar.

     8.      Hvernig er almennu eftirliti dómstóla með skiptastjórum háttað, þ.m.t. með því að þeir ljúki störfum innan hæfilegs frests?
    Samkvæmt upplýsingum sem dómstólasýslan aflaði frá dómstjórum héraðsdómstólanna eru almennt einu sinni á ári sendar formlegar fyrirspurnir til skiptastjóra sem ekki hafa skilað af sér búum. Þar eru skiptastjórar beðnir um að gera grein fyrir stöðu skipta og eftir atvikum drætti á skiptalokum. Ef skipti hafa dregist úr hófi og skiptum er enn ólokið eru skiptastjórar boðaðir til fundar við dómstjóra. Þegar dráttur er orðinn verulegur getur komið til þess að bú séu tekin af skiptastjórum en hvort það sé gert er háð mati hverju sinni.

     9.      Hverjir skipa skiptastjóra hjá héraðsdómstólum? Eru það dómstjórar, dómarar eða aðstoðarmenn? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul. og einnig eftir kyni þeirra sem skipa skiptastjóra.
    Hér er vísast til svars við 5. tölul. þessarar fyrirspurnar.

     10.      Hafa verið settir formlegir, samræmdir og skriflegir verkferlar hjá héraðsdómstólunum um úthlutun framangreindra mála og meðferð þeirra, svo sem um val á skiptastjórum, mat á störfum þeirra og meðferð aðfinnslumála? Hafa sl. 10 ár verið gerðar úttektir hjá héraðsdómstólunum um meðferð þessara mála og hvort farið er að verklagsreglum eða öðrum viðmiðunum?
    Sem fyrr segir eru í gildi téðar reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2019, um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum. Frá því að reglur dómstólasýslunnar voru settar hefur ekki verið gerð úttekt af hálfu dómstólasýslunnar um meðferð þessara mála.

     11.      Hver er fjöldi riftunar- og ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta sl. 10 ár? Óskað er sömu sundurliðunar og í 1. tölul.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda riftunarmála þrotabúa sl.10 ár. Ef nafn héraðsdómstóls er ekki að finna í töflunni er það vegna þess að riftunarmál hefur ekki borist þeim dómstól sl.10 ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vegna umfangs svars um fjölda ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta sl. 10 ár er nauðsynlegt að vísa til þeirra upplýsinga sem fram koma í sérstöku fylgiskjali, sem er merkt fylgiskjal II, með svari þessu.


Fylgiskjal I.


Lögmenn á listum sem hefur verið úthlutað búum sl. 10 ár.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0909-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta sl. 10 ár.
www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0909-f_II.pdf


1     domstolasyslan.is/domstolasyslan/reglur/reglur-um-skipun-skiptastjora-og-umsjonarmanns-med -naudasamningsumleitunum-nr.-2-2019/