Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 917  —  379. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um tekjur af losun gróðurhúsalofttegunda.


     1.      Hverjar hafa árlegar tekjur ríkisins verið af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda frá því að Ísland átti fyrst rétt á hlutdeild í þeim samkvæmt EES-samningnum? Hversu hátt hlutfall af uppboðstekjunum rann til loftslagsaðgerða á hverju ári?
    
Árlegar tekjur ríkisins af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda eru í eftirfarandi töflu:
Ár Sala losunarheimilda: Tekjur ársins (millj. kr. )
2019 3.576
2020 6.067
2021 847*
Samtals 10.490
*Tekjur ársins 2021 eru bráðabirgðaupplýsingar frá uppboðshaldara umreiknaðar í íslenskar krónur þar sem notast er við meðalgengi. Endanleg niðurstaða mun koma fram í ríkisreikningi. 1

    Tekjur af sölu losunarheimilda renna beint í ríkissjóð, líkt og aðrar tekjur, án mörkunar til ákveðinna verkefna. Ráðstöfun útgjalda til málefnasviða og málaflokka er ákvörðuð á grunni forgangsröðunar stjórnvalda sem Alþingi afgreiðir í fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs. Í samræmi við þá forgangsröðun hafa framlög til loftslagsmála í formi fjárheimilda og skattalegra ívilnana vegna orkuskipta í samgöngum verið aukin til muna og hafa þau tvöfaldast frá 2017 til 2022. Ætla má að þessi framlög séu yfir 15 milljörðum kr. einungis á árinu 2022, þar af eru skattstyrkir yfir 8 milljörðum kr. og landgræðsla, skógrækt og garðyrkja um 4 milljarðar kr. Með öðrum orðum er áætlað að framlög til loftslagsmála á þessu eina ári verði u.þ.b. 50% hærri en tekjur af sölu losunarheimilda frá upphafi. Auk þessa eru fjölmörg verkefni ríkisins tengd loftlagsmarkmiðum stjórnvalda, svo sem sjálfbær opinber innkaup, græn skref í ríkisrekstri, stuðningur við breyttar ferðavenjur, stafvæðing opinberrar þjónustu og umhverfisvottun nýbygginga.
    Nánari umfjöllun um framlög til loftslagsmála er að finna í rammagrein 11 í fjármálaáætlun 2022–2026, bls. 102.

     2.      Hver eru viðmið Evrópusambandsins um það hversu hátt hlutfall af tekjum vegna uppboðs losunarheimilda skuli renna beint til loftslagsaðgerða? Hver eru sambærileg viðmið íslenskra stjórnvalda?
    Í 3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2003/87/EB segir að nota skuli a.m.k. 50% af tekjum af uppboði á losunarheimildum, eða jafngildi þessara tekna metið til fjár, í eitt eða fleiri verkefni af því tagi sem þar eru talin upp. Um er að ræða loftslagsmál á borð við minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, nýskógrækt, föngun og geymslu koltvísýrings og hvata til notkunar samgangna sem valda lítilli losun.
    Ákvæði 3. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar bættist við með tilskipun 2009/29/EB. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2012 var tilskipun 2009/29/EB tekin inn í EES-samninginn. Líkt og fram kemur í ákvörðuninni gildir hins vegar umrædd 3. mgr. 10. gr. ekki um EFTA-ríkin. Ástæðan er tilgreind í ákvörðuninni og hún er sú að fjárhagsmálefni er einn þeirra þátta sem falla utan EES-samstarfsins, ásamt m.a. landbúnaðarmálum og samvinnu í lögreglu- og dómsmálum. Því felur þátttaka Íslands í sölu losunarheimilda ekki í sér skuldbindingu til þess að ráðstafa ákveðnu hlutfalli af tekjum af sölu losunarheimilda til loftslagsmála.

     3.      Hverjar hafa verið árlegar tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi frá því að innheimta þess hófst? Hversu hátt hlutfall af kolefnisgjaldinu rann til loftslagsaðgerða á hverju ári?
    Árlegar tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi frá því að innheimta hófst er eftirfarandi:

Ár Kolefnisgjald: Tekjur ársins (millj. kr. )
2010 1.914
2011 2.062
2012 3.061
2013 3.013
2014 3.004
2015 3.274
2016 3.464
2017 3.806
2018 5.317
2019 5.353
2020 5.532
2021 5.770*
Samtals 45.570
*Tekjur ársins 2021 eru samkvæmt áætlun fjárlaga 2022 sem gefin voru út í nóvember 2021. Ríkisreikningur ársins er ekki kominn út.

    Tekjur af kolefnisgjöldum renna beint í ríkissjóð, líkt og aðrar tekjur, án mörkunar í ákveðin verkefni. Eins og kemur fram í svari við 1. tölul. er ráðstöfun útgjalda til málefnasviða og málaflokka ákvörðuð á grunni forgangsröðunar stjórnvalda sem Alþingi afgreiðir í fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs og því á sama svar við hér.

     4.      Hverjar hafa tekjur verið annars vegar af uppboði losunarheimilda og hins vegar af kolefnisgjaldi það sem af er þessu ári?
    Tekjur ríkissjóðs af sölu losunarheimilda námu 920 millj. kr. á fyrsta ársfjórðungi og tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi námu 2.147 millj. kr. fyrir sama tímabil.

     5.      Hvernig er áætlað að tekjur þróist annars vegar af uppboði losunarheimilda og hins vegar af kolefnisgjaldi á næstu fimm árum?
    Í forsendum tekjuáætlunar er gert ráð fyrir að verð losunarheimilda hækki um 2–4% árlega á næstu fimm árum en á móti er gert ráð fyrir fækkun losunarheimilda. Í forsendum tekjuáætlunar er gert ráð fyrir að kolefnisgjald hækki í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs, en þó aldrei umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Með fjölgun umhverfisvænna og sparneytinna bifreiða er búist við að gjaldstofn kolefnisgjalds, sem eru lítrar og kílógrömm jarðefnaeldsneytis, fari lækkandi á komandi árum.
1    Ítarlega sundurliðun má sjá hér:
     www.eex.com/en/market-data/environmental-markets/eua-primary-auction-spot-download
    Upplýsingar úr ríkisreikningi, sala losunarkvóta skýring 6, má sjá á bls. 33 hér:
     www.fjs.is/media/rikisreikningur/Rikisreikningur-2020.pdf