Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 920  —  359. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um endurskoðun skattmatsreglna.


     1.      Með hvaða hætti verða skattmatsreglur endurskoðaðar á kjörtímabilinu, sbr. fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir orðrétt: „Skattmatsreglur verða endurskoðaðar og komið í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga.“ Hér er bæði átt við skattmat á hlunnindum og reglur um reiknað endurgjald sem geta falið í sér hvata sem stríða gegn meginmarkmiðum um einfalda og skilvirka skattframkvæmd og sanngirni í skattlagningu. Annars vegar hefur borið á því að þeim sem reikna sér endurgjald þyki reglurnar vera flóknar og erfiðar í framkvæmd. Hins vegar er brýnt að tryggja jafnræði í álagningu skatta og koma í veg fyrir undanskot.
    Einstaklingar sem starfa við eigin atvinnurekstur, við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum, eða við atvinnurekstur lögaðila þar sem þeir eru ráðandi aðilar vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, eiga samkvæmt tekjuskattslögum að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu. Með þessi laun fer á sama hátt og almennar launagreiðslur til launþega, þ.e. reikna þarf af þeim staðgreiðslu opinberra gjalda, greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila.
    Ríkisskattstjóri setur árlega reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf, að viðbættum hvers konar hlunnindum, og eru reglurnar birtar árlega í Stjórnartíðindum. Viðmiðunarreglunum er skipt upp eftir starfaflokkum og eru fjárhæðirnar lágmarksviðmið og taka mið af almennum taxtalaunum. Framtalið reiknað endurgjald á að jafnaði ekki að vera lægra en viðeigandi viðmiðunarfjárhæð en getur verið hærra eða lægra eftir því sem tilefni er til með hliðsjón af raunverulega greiddum launum fyrir sambærileg störf hjá óskyldum eða ótengdum aðila, umfangi og eðli starfseminnar og starfsins, taxta fyrir útselda vinnu í starfsgreininni, afkomu rekstrarins og fé sem bundið var í rekstrinum í ársbyrjun. Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald hafa tekið ýmsum breytingum í gegnum árin sem ætlað er að endurspegla þá þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi.
    Gætt hefur tilhneigingar til þess að þeir sem telja fram launatekjur á grundvelli reiknaðs endurgjalds gangi út frá lægstu viðmiðunum sem reglurnar heimila og greiði sér í ríkari mæli út hagnað eða arð af rekstri. Af því leiðir að þeir sem telja fram lægra reiknað endurgjald en rétt mætti telja að séu tekjur þeirra í reynd greiða lægri tekjuskatt til ríkissjóðs en þeir sem starfa hjá ótengdum vinnuveitendum. Lægri reiknuð laun þýða enn fremur að greitt er lægra tryggingagjald og iðgjald til lífeyrissjóðs en ella væri.
    Í skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum, sem kom út í febrúar 2019, er í 7. kafla að finna umfjöllun og skoðun á skattlagningu á reiknuðu endurgjaldi og hagnaði og arði í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri. Vísast til þeirrar umfjöllunar til nánari skýringar en að öðru leyti vísast til svars við spurningu 4.

     2.      Hvaða „óeðlilegu og óheilbrigðu hvatar til stofnunar einkahlutafélaga“ eru í íslensku lagaumhverfi, sbr. umfjöllun í stjórnarsáttmála?
    Vísað er til svars við spurningu 1 að framan. Reiknuðu endurgjaldi er ætlað að mynda stofn til skattlagningar og til útreiknings á trygginga- og lífeyrisiðgjöldum sem er fyllilega sambærilegur við meðferð tekna almennra launþega. Í þeim tilvikum þegar talið er fram reiknað endurgjald sem er lægra en vera skyldi verður heildarskattlagning launatekna, hagnaðar og arðs lægri en ella. Fyrir vikið verða skil á tryggingagjaldi og lífeyrisiðgjaldi einnig lægri, sem getur aftur haft áhrif á afleidd réttindi. Hæsta skattþrepið í almennum tekjuskatti er 46,25%, en samanlagður skattur á hagnað og arðgreiðslur er talsvert lægri eða 37,6%. Í því getur falist hvati til að stofna félag utan um atvinnurekstur svo hagnaður skattleggist í lægra hlutfalli en efsta þrepinu. Þessu til viðbótar er hætta á að því að lögaðilar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur gjaldfæri útgjöld á rekstur sem rétt væri að þeir beri persónulega af launatekjum sínum. Í því felst ígildi hlunninda eða tekna sem hvorki er greiddur tekjuskattur af í ríkissjóð né launatengd gjöld. Einnig að virðisaukaskattur af einkakostnaði sé talinn fram sem innskattur þannig að skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð verði lægri sem því nemur.

     3.      Hvers vegna hefur ekki verið gripið til aðgerða fyrr til að sporna gegn þessum hvötum?
    Löggjöf og reglur á sviði skattamála eru ávallt í endurskoðun til að endurspegla áherslur og mæta áskorunum og breytingum í þjóðfélaginu sem og stefnumótun á sviði alþjóðlegs skattaréttar hverju sinni. Í öðrum löndum hafa verið farnar ýmsar aðrar leiðir en hér á landi til að reyna að samræma skattlagningu á tekjur af mismunandi uppruna en ljóst er að það getur verið vandasamt í framkvæmd. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er nú gert ráð fyrir því að reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri verði endurskoðaðar á kjörtímabilinu og leitað nýrra leiða til að varna mismunun í skattlagningu.

     4.      Hvernig hyggst ríkisstjórnin „koma í veg fyrir“ þessa hvata, sbr. fyrirheit í stjórnarsáttmála?
    Stofnaður verður sérstakur starfshópur um verkefnið og verður erindi hans nánar skilgreint í skipunarbréfi. Þar verður m.a. kveðið á um endurskoðun og einföldun reglna um reiknað endurgjald í eigin atvinnurekstri og samspil við skattlagningu á hagnað og arð sem og skattmat vegna hlunninda og úttekta eigenda úr félögum.

     5.      Hvernig hyggst ríkisstjórnin „tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar“, sbr. fyrirheit í stjórnarsáttmála?
    Sjá svar við spurningu 4.