Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 938  —  584. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (frestun framkvæmdar).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Tryggvadóttur frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og Guðjón Bragason, Maríu Kristjánsdóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði til 1. janúar 2023 framkvæmd ákvæða er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar, sem komið var á með lögum nr. 107/2021. Fyrrgreind lög tóku gildi 1. janúar 2022 en þó áttu ákvæði er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar ekki að koma til framkvæmda fyrr en 28. maí 2022, sbr. 43. gr. laganna.
    Meiri hlutinn bendir á að innleiðing breytinga á barnaverndarþjónustu og umdæmisráðum barnaverndar hefur reynst tímafrekari en gert var ráð fyrir við samþykkt lagabreytinganna á árinu 2021. Það er meðal annars vegna þess að sveitarfélögin hafa til skoðunar mun stærri samstarfssvæði en lögin gera kröfu um og það krefst umfangsmeira samstarfs og undirbúnings en gert var ráð fyrir í upphafi.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að fresta því til 1. janúar 2023 að fyrrnefnd ákvæði komi til framkvæmda. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. efnismgr. 1. gr.
                  a.      Orðin „35. gr.“ falli brott.
                  b.      Á eftir orðunum „36. gr.“ komi: 37. gr.
                  c.      Orðin „48. gr.“ falli brott.
                  d.      Á eftir orðunum „88. gr.“ komi: 89. gr.
     2.      Við bætist ný grein, svohljóðandi:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 27. apríl 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Jódís Skúladóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.