Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 951  —  647. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um valdaframsal til Bankasýslu ríkisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Á hvaða grundvelli taldi ráðherra sér heimilt, við sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022, að framselja það vald sem 2. mgr. 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum felur honum og þá ábyrgð sem því fylgir til Bankasýslu ríkisins, en í ákvæðinu segir: „Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“?

    Lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012, kveða á um hlutverk og ábyrgð ráðherra og Bankasýslu ríkisins þegar kemur að sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lagaákvæðunum ætlað að tryggja betur en ella að sala eignarhluta fari fram með hlutlægum hætti, enda sérstakri og sérhæfðri ríkisstofnun á sviði banka- og fjármála falið að annast söluna í stað þess að sá aðili sem á endanum afsalar eignarhlutum annist sjálfur sölu þeirra. Í lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, er í ákvæði um hæfisskilyrði á sama hátt gert ráð fyrir að stjórnarmenn og forstjóri hafi haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum. Helstu þættir söluferlisins samkvæmt lögunum eru sem hér segir:
     *      Sölumeðferð skal byggja á greinargerð ráðherra um fyrirkomulag og markmið sölunnar sem borin hefur verið undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Að fengnum athugasemdum nefndanna getur ráðherra gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð.
     *      Að loknu samráði við þingnefndirnar skal ráðherra taka ákvörðun um hvort sölumeðferð verði hafin í samræmi við greinargerðina.
     *      Ráðherra ber að fela Bankasýslu ríkisins að annast framkvæmd sölunnar. Í því felst m.a. að leita tilboða, meta þau og annast samningagerð. Bankasýslu ríkisins er þannig falið með lögum að stýra söluferlinu.
     *      Lögin kveða ekki á um frekari aðkomu ráðherra að sölumeðferðinni og gera ekki ráð fyrir frekari afskiptum af henni fyrr en kemur að samþykki sölu og eftir atvikum undirritun samninga. Þetta skal gert með því að Bankasýsla ríkisins skili til ráðherra rökstuddu mati á tilboðum, sem ráðherra tekur afstöðu til.
     *      Við mat á því hvort tilboðum skuli tekið eða þeim hafnað ber ráðherra að leggja mat á hvort söluferlið hafi samræmst forsendum sem lagt var upp með samkvæmt lögum og greinargerð.
     *      Að fengnu samþykki ráðherra gerir framangreind umgjörð ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang.
    Framangreind lög eru sett af Alþingi og ferlinu sem lögin lýsa var fylgt í frumútboði í júní 2021 sem og í útboði í mars 2022. Samkvæmt bréfi ráðherra til Bankasýslunnar frá 22. mars 2022 tók ráðherra ákvörðun um magn hlutabréfa, verð og viðmið um skiptingu milli lykilflokka bjóðenda, með vísan í rökstutt mat Bankasýslunnar sem borist hafði sama dag. Þessi gögn voru birt á vef ráðuneytisins 8. apríl 2022.
    Það leiðir af eðli útboða á borð við þau sem fram fóru í júní 2021 og mars 2022 að frágangur á viðskiptum við einstaka áskrifendur fer ekki fram með undirritun. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 155/2012 er sala hluta með útboði frábrugðin beinni sölu og er til að mynda ekki um að ræða mat á einstaka tilboðum í slíku ferli. Að sama skapi felst ekki í 2. mgr. 4. gr. laganna að undirritun eigi sér stað vegna hverrar og einnar áskriftar enda getur sá áskilnaður ekki átt við um útboð þar sem ákvörðun ráðherra um sölu tekur til talsverðs fjölda tilboða á sama verði.
    Samkvæmt framansögðu var ekki um að ræða framsal á ábyrgð eða skyldum af hálfu ráðherra til Bankasýslunnar þegar hann fól stofnuninni að annast frágang í tengslum við sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka á grundvelli ákvörðunar ráðherra 22. mars 2022.