Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 970  —  671. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um einkarekna heilsugæslu á Suðurnesjum.


Flm.: Guðrún Hafsteinsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Vilhjálmur Árnason, Hildur Sverrisdóttir, Haraldur Benediktsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir.


    Alþingi ályktar að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum.

Greinargerð.

    Með því að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar er tryggt að heimilislæknum standi einnig til boða að reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa kost á. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Suðurnesjum, en oft og tíðum hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræðinnar eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er.
    Þá hefur reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum verið góð og njóta þær almennt meira trausts en aðrar heilsugæslustöðvar, sbr. þjónustukönnun Maskínu fyrir allar 19 heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019. Þar kom fram að allar fjórar einkareknu heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu voru ofarlega á lista yfir þær heilsugæslustöðvar sem nutu mests trausts, en þær voru allar meðal þeirra sjö heilsugæslustöðva sem voru efstar í könnuninni. Í sömu könnun var spurt um ánægju viðskiptavina með þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar buðu upp á og var niðurstaðan aftur afgerandi, en einkareknu heilsugæslustöðvarnar fjórar röðuðu sér í fjögur efstu sætin.
    Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra.
    Því má halda til haga að fyrir rúmu ári óskuðu bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ, sem samanstendur af byggðakjörnunum Sandgerði og Garði, eftir því við heilbrigðisráðuneytið að fá heilsugæslustöð í bæjarfélagið. Mörg ár eru síðan heilsugæslustöðvum þar var lokað og þurfa íbúar að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Reykjanesbæ. Um tæplega 3.700 manna sveitarfélag er að ræða, engin þjónusta er veitt á staðnum og bætast verkefnin því við það sem heilsugæslan í Reykjanesbæ þarf að sinna. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur skorað á heilbrigðisráðherra að leysa bráðan vanda sem fyrst með því að opna nýja heilsugæslustöð á svæðinu.
    Nú eru tæplega 30.000 íbúar á þjónustusvæði HSS og um er að ræða fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Almennt er miðað við að að baki hverri heilsugæslustöð séu um 12.000 íbúar. Þannig ættu í raun að vera þrjár heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum. Nú er þar ein bráðamóttaka og ein heilsugæslustöð á Suðurnesjunum öllum. Það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og gríðarlegt álag, en í slíkum aðstæðum er hætt við að orðspor stofnana bíði hnekki. Húsnæðismálin hafa verið í miklum ólestri auk þess sem undirfjármögnun hefur verið ríkjandi og mönnunarvandi sömuleiðis. Það ástand sem nú er uppi hefur haft það í för með sér að Suðurnesjamenn bera minnst traust til heilsugæslunnar samkvæmt þjónustukönnun sem Maskína gerði fyrir Sjúkratryggingar Íslands og birt var um miðjan febrúar í fyrra. Hún leiddi í ljós að 25,4 prósent aðspurðra, eða rúmur fjórðungur, bera fremur eða mjög lítið traust til heilsugæslunnar. Það er óviðunandi staða og að mati flutningsmanna er mikilvægt að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái aukið rými til að sinna sinni lögbundnu þjónustu.
    Vert er að benda á að nú eru ríflega 4.000 einstaklingar búsettir á Suðurnesjum skráðir á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins eru einnig undir miklu álagi og því ekki eðlilegt að íbúar sveitarfélaga þurfi að sækja þangað vegna skorts á þjónustu í sínu nærumhverfi.
    Þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ákvað síðastliðið sumar að hefja framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík. Húsnæði stöðvarinnar verður um 1.350 fermetrar. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina. Vandinn er að hún verður ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2024. Það er ekki hægt að láta íbúa Suðurnesja búa við óöryggi og skerta heilbrigðisþjónustu í tvö ár. Leysa þarf þennan bráðavanda hratt og örugglega. Eins og áður hefur komið fram hefur reynslan sýnt að gæði þjónustu og ánægja sjúklinga er meiri þegar um einkareknar heilsugæslustöðvar er að ræða og því mikilvægt að fjölga slíkum stöðvum, sérstaklega á þeim stöðum þar sem traust til heilsugæslunnar mælist lítið. Að mati flutningsmanna getum við leyst þann vanda sem fyrir höndum er með góðri samvinnu einkareksturs og opinbers reksturs.