Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 993  —  534. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Helgu Þórðardóttur um úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna í máli nr. M-5/2021 þar sem niðurstaðan var sú að ekki væri lagastoð fyrir því að krefjast rafrænnar undirritunar skuldabréfs vegna útborgunar námsláns eins og gert er í úthlutunarreglum sjóðsins?
    Rafrænni undirritun var komið á í kjölfar laga nr. 60/2020 að stærstum hluta til vegna þess að nú er boðið upp á samtímagreiðslur sem þýðir að þeir námsmenn sem óska eftir samtímagreiðslum þurfa að undirrita skjöl hjá sjóðnum mánaðarlega. Slíkt er illframkvæmanlegt og í sumum tilvikum ómögulegt með öðrum hætti en rafrænum. Rafræn undirritun skuldabréfa er einnig í samræmi við stefnu sjóðsins um stafræna þróun. Í úthlutunarreglum kemur fram sú vinnuregla sem viðhöfð er innan sjóðsins að skuldabréf eru undirrituð með rafrænum hætti. Þrátt fyrir úrskurð málskotsnefndar þykir ekki ástæða til að breyta þeirri vinnureglu. Hins vegar hefur þeim möguleika verið bætt við hjá sjóðnum að ef nemandi getur ekki eða vill ekki skrifa undir með rafrænum hætti þá getur hann óskað eftir að skrifa undir með öðrum hætti.

     2.      Hvers vegna hefur fyrrnefndur úrskurður ekki verið birtur á vef sjóðsins eins og aðrir úrskurðir málskotsnefndar?
    Ekki hefur fundist nákvæm skýring á því hvers vegna umræddan úrskurð var ekki að finna á heimasíðu sjóðsins en svo virðist sem m.a. stór hluti af úrskurðum ársins 2021 hafi dottið út við lagfæringar og uppfærslu á heimasíðunni. Búið er að uppfæra síðuna og núna er þar að finna alla úrskurði málskotsnefndar frá árunum 2000–2022.

     3.      Hvernig er almennt staðið að birtingu úrskurða málskotsnefndar og hversu langur tími líður að jafnaði frá því að úrskurður liggur fyrir þar til hann birtist á vef sjóðsins?
    Þegar úrskurður berst sjóðnum er hann sendur til vinnsluaðila heimasíðunnar sem færir hann í kjölfarið inn á heimasíðuna. Almennt eru úrskurðir birtir innan tíu daga frá uppkvaðningu þeirra.

     4.      Hversu mörgum ákvörðunum stjórnar Menntasjóðs námsmanna, áður Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hefur verið vísað til málskotsnefndar frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2021, sundurliðað eftir árum?
    Meðfylgjandi er yfirlit yfir fjölda ákvarðana stjórnar sem vísað var til málskotsnefndar á árunum 2016–2021. Rétt er að taka fram að ekki eru talin með önnur erindi sem bárust málskotsnefnd og var vísað frá m.a. á grundvelli 5. gr. a laga nr. 21/1992, sbr. 32. gr. laga nr. 60/2020, á þeim grundvelli að mál hefðu ekki verið borin undir stjórn sjóðsins áður.

Ár Fjöldi
2016 24
2017 16
2018 7
2019 11
2020 12
2021 12

     5.      Hver var meðalmálsmeðferðartími umræddra mála, þ.e. frá því að kæra barst og þar til úrskurður lá fyrir, sundurliðað eftir árum, að undanskildum málum sem var vísað frá á þeim grundvelli að kæra barst eftir að kærufrestur rann út?
    Meðalmálsmeðferðartími úrskurða málskotsnefndar, sundurliðað eftir árum, er sem hér segir:

Ár Málsmeð-ferðartími
2016 5,5 mánuðir
2017 6,7 mánuðir
2018 6,3 mánuðir
2019 4,8 mánuðir
2020 4,4 mánuðir
2021 4,6 mánuðir

     6.      Hversu oft hefur Menntasjóður námsmanna eða eftir atvikum Lánasjóður íslenskra námsmanna höfðað dómsmál til að fá úrskurði málskotsnefndar hnekkt, sundurliðað eftir árum?
    Fjöldi tilvika þar sem Lánasjóður íslenskra námsmanna/Menntasjóður námsmanna hefur höfðað mál til að fá úrskurði málskotsnefndar hnekkt, sundurliðað eftir árum, er sem hér segir:

Ár Fjöldi tilvika
2016 3
2017 0
2018 0
2019 0
2020 0
2021 0