Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1048  —  422. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um flutning hergagna til Úkraínu.


     1.      Hversu háa upphæð greiddi íslenska ríkið fyrir flutning á hergögnum til notkunar í Úkraínu?
    Um miðjan maí 2022 hafði íslenska ríkið greitt rúmlega 125 millj. kr. fyrir flutning á búnaði, fyrst og fremst hergögnum, til notkunar í Úkraínu.

     2.      Hvers konar hergögn voru flutt og hversu stórt var hlutfall hergagna af sendingunni?

    Mikill meiri hluti sendinganna er hergögn. Fyrst og fremst er um að ræða skotfæri en einnig annan búnað. Nákvæmar upplýsingar um farminn eru trúnaðarmál og vísast í því samhengi til 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem heimilar stjórnvöldum að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Upplýsingar um farminn liggja þó fyrir í ráðuneytinu og hægt er að kynna þær utanríkismálanefnd Alþingis í trúnaði.

     3.      Hvers konar búnaður annar var með í flutningnum?
    Utanríkisráðuneytið vísar til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Er áætlað að fara í meiri og fleiri flutninga á hergögnum og búnaði til Úkraínu?
    Íslensk stjórnvöld hafa upplýst bandalagsríki sín um vilja til þess að halda áfram sínum framlögum með því að styðja og annast flutninga búnaðar og hergagna vegna átakanna í Úkraínu. Ákvarðanir um frekari flutninga ráðast af framvindu stríðsins og beiðnum bandalagsríkja.

    Ein og hálf vinnustund fóru í að taka svarið saman.