Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1075  —  451. mál.
Leiðréttur texti. Gestir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða o.fl. (veiðar á bláuggatúnfiski).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Eiri Hólmgeirsdóttur og Agnar Braga Bragason frá matvælaráðuneyti, Ernu Jónsdóttur frá Fiskistofu og Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Jón Kristin Sverrisson og Pétur Pálsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fiskistofu og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, auk minnisblaðs frá matvælaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að aðilum sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, til og með 31. desember 2027, verði heimilt að taka á leigu erlent skip til allt að sex mánaða hvert almanaksár til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Í því skyni verði ákvæði til bráðabirgða aukið við lög um stjórn fiskveiða, lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þar sem kveðið er á um þær undanþágur sem veita þarf frá þeim lögum svo að frumvarpið nái markmiði sínu.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tímabundin undantekning frá meginreglu í íslenskum sjávarútvegi.
    Við meðferð málsins í nefndinni var það rætt að frumvarpið felur í sér undantekningu frá grundvallarreglu í íslenskum sjávarútvegi.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að veita þeim eigendum og útgerðum fiskiskipa sem fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, tímabundna heimild til túnfiskveiða með erlendu skipi. Heimildin verði veitt þessum aðilum þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 5. gr. en þar segir m.a. að við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni komi aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Samgöngustofu. Skv. 1. gr. frumvarpsins er því gert ráð fyrir að hægt verði að úthluta tímabundið heimild til veiða til íslensks aðila, t.d. útgerðar sem uppfyllir ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, í stað þess að úthlutun sé á íslenskt fiskiskip sem uppfyllir ákvæði laganna. Skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða lúta að því að íslenskir aðilar, samkvæmt skilgreiningu laganna, geti einir stundað veiðar og vinnslu í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands verði heimilt að veita aðilum sem uppfylla ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða hina tímabundnu heimild til túnfiskveiða með erlendu skipi. Í 1. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands er m.a. í 3. mgr. kveðið á um að til fiskveiða og vinnslu sjávarafla um borð í skipum í fiskveiðilandhelgi Íslands megi aðeins hafa íslensk skip. Það gildi einnig um vinnslu sjávarafla. Þá segir að íslensk skip séu þau skip sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu íslenskra skipa. Í 2. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands er m.a. kveðið á um að erlendum veiðiskipum og vinnsluskipum sé óheimilt að hafast við í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands verði heimilt að veita þeim aðilum sem uppfylla ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða tímabundna heimild til túnfiskveiða með erlendu skipi. Með 3. gr. laga um fiskveiðilandhelgi Íslands eru erlendum skipum bannaðar allar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þá er í 4. gr. laganna kveðið á um að aðeins þeim íslensku skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða sé heimilt að stunda veiðar í fiskveiðilandhelginni.
    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri verði heimilt að veita þeim aðilum sem uppfylla ákvæði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða tímabundna heimild til túnfiskveiða með erlendu skipi. Í 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er m.a. í 1. tölul. kveðið á um að aðeins þeir aðilar sem uppfylla skilyrði ákvæðisins megi stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    Þær tímabundnu heimildir sem lagt er til að veita með frumvarpinu eru undantekning frá þeirri meginreglu að veiðar með íslenskum veiðiheimildum fari fram með íslenskum skipum og áhöfn. Lögum samkvæmt geta eingöngu íslensk skip fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelginni. Verði frumvarpið samþykkt verður íslenskum aðilum hins vegar heimilt, að uppfylltum skilyrðum, að taka á leigu erlend skip með sérhæfðri áhöfn í þeim tilgangi að nýta þau tímabundið til veiða á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Með því að fá einnig sérhæfða áhöfn með hinum sérútbúnu skipum sem þarf til túnfiskveiða sé komið tækifæri fyrir íslenska aðila til að kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á túnfiskveiðum. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt væri að halda veiðireynslu og hlutdeild Íslands hjá Atlantshafstúnfiskveiðiráðinu (ICCAT) en væri veiðiheimildin ekki nýtt til langframa væri hætta á að hún félli niður.
    Í umsögn Fiskistofu til nefndarinnar var lagt til að nefndin kannaði hvort rétt væri að bæta einnig ákvæði til bráðabirgða við lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Nefndin óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins til umsagnarinnar sem taldi ekki þörf á slíkri breytingu, m.a. með vísan til þess að ákvæði laganna hafi ekki þýðingu við úthlutun veiðiheimildanna.

Veiðiheimildir og veiðar með erlendum skipum.
    Verði frumvarpið samþykkt verður íslenskum aðilum, að nánari skilyrðum uppfylltum, heimilt að taka á leigu erlend skip til veiða á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Eftir að hafa fjallað nokkuð um málið í nefndinni, m.a. með hliðsjón af umsögn Fiskistofu, telur nefndin rétt að fara yfir þær heimildir sem ráðherra hefur til úthlutunar þeirra veiðiheimilda sem eru grundvöllur frumvarpsins sem og þær reglur sem taka til slíkra veiða. Gert er ráð fyrir að aflaheimildum verði úthlutað sem sérveiðileyfi á grundvelli laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og að leyfi fyrir tiltekið erlent skip verði veitt samkvæmt lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Með 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er ráðherra veitt heimild til að skipuleggja veiðar úr stofnum sem ekki er stjórnað með skiptingu heildarafla milli einstakra skipa, sbr. lög um stjórn fiskveiða. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa. Jafnframt er almenn reglugerðarheimild í 14. gr. laganna. Gildandi reglugerð nr. 930/2020 um veiðar á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski tekur til veiða með íslenskum skipum. Verði frumvarpið samþykkt þarf því að uppfæra bæði ákvæði reglugerðarinnar og lagastoð hennar til samræmis við að íslenskir aðilar stundi veiðarnar með erlendum skipum.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Undanþága frá meginreglu um veiðar með íslensku skipi.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að aðilum, sem uppfylla skilyrði 2. málsl. 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, verði heimilt að taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða samkvæmt veiðiheimildum Íslands á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Til að samræmis sé gætt telur nefndin rétt að leggja til að sú heimild sem veitt er til undanþágu taki einnig til 1. mgr. 4. gr. laganna en þar er skilyrt að almennt veiðileyfi þurfi til veiða í atvinnuskyni við Ísland.

Tímabundin heimild til túnfiskveiða taki einnig til vinnslu.
    Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er lagt til með vísan til umsagnar Fiskistofu að gerðar verði breytingar á ákvæðum frumvarpsins til bráðabirgða þannig að ljóst sé að sú heimild sem veitt verður á grundvelli þeirra til veiða taki einnig til vinnslu um borð. Nefndin tekur undir það sjónarmið með vísan til skýrleika og leggur til breytingu þess efnis.

Gildistími tímabundinnar heimildar framlengdur um eitt ár.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýsa í umsögn sinni stuðningi við efni frumvarpsins en benda jafnframt á að langt er liðið á fyrsta ár þess tilraunatímabils sem á að standa í sex ár. Þó að frumvarp þetta verði að lögum nú á vorþingi sé ósennilegt að íslenskum aðilum takist að leigja erlend skip til veiðanna á þessu ári. Nefndin tekur undir það sjónarmið og leggur til að heimildin gildi til og með 31. desember 2028 í stað 2027.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan orðunum „1. málsl. 5. gr.“ í 1. gr. komi: 1. mgr. 4. gr. og.
     2.      Í stað orðanna „til veiða“ í 1.–4. gr. komi: til veiða og vinnslu.
     3.      Í stað orðanna „31. desember 2027“ í 1.–4. gr. komi: 31. desember 2028.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og fleiri lögum (bláuggatúnfiskur).

Alþingi, 20. maí 2022.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Eva Sjöfn Helgadóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson.
Haraldur Benediktsson. Helga Þórðardóttir. Helgi Héðinsson.