Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1085  —  323. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.


     1.      Hversu mörgum var sagt upp hjá atvinnurekendum sem þáðu fjárstuðning á grundvelli laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, greint eftir fyrirtækjum?
    Hér er um að ræða úrræði til að tryggja launafólki greiðslur á uppsagnarfresti sem var liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagsástandinu af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í umsóknum frá launagreiðendum sem sóttu um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti komu fram 8.194 launamenn. Á vefsvæði Skattsins má finna lista sem sýnir þá rekstraraðila sem fengið hafa greiddan stuðning vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, fjárhæð stuðningsins og eftir atvikum fjölda launamanna. Af persónuverndarsjónarmiðum er fjöldi launamanna einungis birtur í þeim tilvikum sem þeir eru 20 eða fleiri. Í listanum koma fram upplýsingar um 6.411 launamenn hjá 66 launagreiðendum. Um er að ræða greiðslur vegna launakostnaðar frá maí 2020 til og með febrúar 2021.
    Listann má finna á eftirfarandi vefslóð:
     www.skatturinn.is/einstaklingar/covid/laun-a-uppsagnarfresti/#tab6
     2.      Hve margir starfsmenn fengu starf að nýju hjá hverju fyrirtæki fyrir sig sem nýtti sér úrræðið?
    Í umsóknum frá launagreiðendum sem sóttu um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti komu fram 8.194 launamenn. Umsóknir þessar voru vegna tímabilsins maí 2020 til og með janúar 2021. Af þeim hópi fengu 4.038 einstaklingar greidd laun frá sama launagreiðanda á tímabilinu febrúar til og með júlí 2021, þ.e. á næstu sex mánuðum eftir að úrræðinu lauk.

     3.      Hvernig var fylgst með því að starfsfólk væri endurráðið á sömu kjörum og það var á fyrir uppsögnina?
    Í lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, er ekki lögð sú skylda á stjórnvöld að viðhafa eftirlit með því að réttindum launamanna skv. 12. gr. laganna sé gætt. Ákvæðið lýtur að félagslegum og einstaklingsbundnum réttindum launamanna sem ætla verður að þeir sjálfir gæti að, rétt eins og við á um önnur slík réttindi, eftir atvikum með stuðningi sinna verkalýðsfélaga.

     4.      Eftir hvaða reglum var farið þegar endurráðið var eða uppsagnir afturkallaðar? Tilgreint verði hvort farið var eftir starfsaldursröð eingöngu eða öðrum viðmiðum, greint eftir fyrirtækjum.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um það hvernig staðið var að endurráðningum eða afturköllun uppsagna að öðru leyti en kemur fram í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.
     5.      Hvernig verða eða hafa viðbrögð stjórnvalda verið við því ef endurráðningar eru ekki samkvæmt lögum?
    Samkvæmt 16. gr. laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, skal einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögunum sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brotin teljist minniháttar. Í dæmaskyni er nefnt að svo geti háttað til ef veittar eru rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um stuðning en ljóst er að ákvæðið getur einnig átt við ef brotið er gegn öðrum ákvæðum laganna, þar á meðal 12. gr. um réttindi launamanns. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi fengið til meðferðar mál þar sem endurráðningar launamanna voru ekki í samræmi við 12. gr. laganna. Sjá einnig svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     6.      Hvernig hefur verið fylgst með því af hálfu ríkisins að fyrirtæki fari að skilyrðum fyrir stuðningi samkvæmt fyrrnefndum lögum og hvernig er eftirfylgni með því háttað?
    Skatturinn sá um afgreiðslu umsókna um stuðning samkvæmt lögum um stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020. Skv. 3. mgr. 8. gr. laganna gat Skatturinn farið fram á að atvinnurekandi sýndi með rökstuðningi fram á rétt sinn til stuðnings við afgreiðslu umsókna og við endurskoðun ákvörðunar um umsókn. Hægt var að sækja um stuðning frá og með 10. júlí 2020 og var umsóknum skilað rafrænt í gegnum þjónustuvef Skattsins. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum voru eftirfarandi atriði staðreynd innan þess rekstrarárs sem umsókn um stuðning tók til.
    Upphaf rekstrar og skattskylda: Athugað var með samanburði við skrár Skattsins, þ.m.t. skattgrunnskrá, hvort skilyrði um upphaf rekstrar og ótakmarkaða skattskyldu væru uppfyllt, sem og að ekki væri um að ræða stofnanir ríkis eða sveitarfélaga eða félög í þeirra eigu.
    Upphafsdagur starfssambands milli launamanns og umsækjanda: Einungis var hægt að sækja um stuðning vegna launakostnaðar þeirra launamanna sem voru ráðnir til starfa hjá vinnuveitanda fyrir 1. maí 2020 og var þetta skilyrði athugað með samanburði við staðgreiðsluskil.
    Tekjufall milli ára: Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda frá 1. apríl 2020 og til uppsagnardags þurfti að hafa lækkað um a.m.k. 75% í samanburði við einn af fjórum möguleikum. Umsækjendur þurftu að gefa upp tekjur sundurliðaðar á hvern mánuð á árinu 2019 og til uppsagnardags þess launamanns sem sótt var um til að hægt væri að staðreyna tekjufallið. Á grundvelli þeirra upplýsinga var tekjufallið reiknað og þá miðað við hæsta hlutfallið samkvæmt þeim fjórum leiðum sem um ræddi. Tekjur samkvæmt skattframtali 2020 voru sýndar í umsókninni ef þær lágu fyrir, annars fyllti umsækjandi þær sjálfur út. Ábending eða villa kom fram ef tekjur stemmdu ekki.
    Vanskil: Umsækjandi mátti ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem voru á eindaga fyrir lok ársins 2019 og var það athugað með samanburði við stöðu í tekjubókhaldskerfi ríkisins.
    Skil á skattframtölum og gögnum: Umsækjandi þurfti að hafa staðið skil á skattframtali og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum síðastliðin þrjú ár áður en umsókn um stuðning barst, eða síðan starfsemi hófst ef það var síðar. Þannig mátti ekki vera um að ræða neinar áætlanir skatta eða gjalda á umræddum árum. Þetta var athugað með skoðun á „skilasögu“ viðkomandi.
    Skil á CFC-skýrslum og ársreikningum: Umsækjandi þurfti að hafa staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi og var óskað eftir að hann staðfesti að ekki væri vöntun á slíkri skýrslu. Umsækjandi þurfti eftir því sem við átti að hafa staðið skil á ársreikningum og upplýsingum um raunverulega eigendur og var það borið saman við gögn Skattsins.
    Ef umsækjandi uppfyllti ofangreind skilyrði gat hann haldið áfram með umsóknina á þjónustuvefnum en annars ekki. Fram kom ábending um hvaða skilyrði voru ekki uppfyllt ef svo bar undir. Þessu næst þurfti umsækjandi að skrá ýmsar upplýsingar um þá launamenn sem óskað var eftir stuðningi vegna. Slegin var inn kennitala viðkomandi launamanns og nafn hans sótt í þjóðskrá og samhliða skoðað hvort viðkomandi hefði verið í staðgreiðsluskilum fyrir 1. maí 2020.
    Umsækjandi þurfti einnig að veita ýmsar upplýsingar sem lutu að viðkomandi launamanni og voru forsenda fyrir útreikningi á stuðningi vegna hans, þ.m.t. ráðningardagur, uppsagnardagur, uppsagnarfrestur, dagsetning starfsloka, lok á forgangsrétti til starfs, dagsetning endurráðningar, starfshlutfall, mótframlag umsækjanda í lífeyrissjóð, launagreiðslur, staðgreiðslumánuður uppgjörs á orlofslaunum og fjárhæð orlofs. Eftir þetta var unnt að „stofna umsóknina“ og var skilyrði fyrir því að umsækjandi væri búinn að skila/greiða staðgreiðslu launamanna fyrir það tímabil sem sótt var um. Ef launagreiðandi hafði fengið greiðslufrest á staðgreiðslunni töldust það fullnægjandi skil en alltaf þurfti skilagrein eða sundurliðun að hafa verið skilað. Þeir launamenn sem ekki komu fram í sundurliðun á staðgreiðslu voru ekki teknir með í útreikning á stuðningi. Þetta var skoðað með samanburði við staðgreiðsluskrá.
    Eftir þetta var stuðningsfjárhæð vegna hvers og eins launamanns reiknuð út. Stuðningur takmarkaðist af ráðningarkjörum, launum samkvæmt staðgreiðslu og þeim hámarksfjárhæðum sem ákvarðaðar voru í lögunum. Gerður var samanburður við uppgefnar fjárhæðir í umsókninni og staðgreiðsluskilum til að ákvarða endanlegan stuðning og réð lægri fjárhæðin. Staðfesta þurfti að öll skilyrði fyrir stuðningi væru uppfyllt og einnig skilningur á því að uppgjöf rangra upplýsinga gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar svo sem álag, sekt eða fangelsisvist.
    Til viðbótar þeim skilyrðum sem rakin hafa verið voru sett þau skilyrði í lögunum að umsækjandi hefði ekki eftir 15. mars 2020 ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa, kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðaði öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt var kveðið á um að umsækjandi skuldbyndi sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefði að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur. Þessi skilyrði eru þess eðlis að þau var ekki unnt að staðreyna fyrr en eftir á og því ekki hægt að skoða þetta sérstaklega fyrr en með eftirliti síðar.
    Þá var eins og að framan er rakið að mestu byggt á upplýsingum frá umsækjendum við útreikning á tekjufalli og ekki hægt að staðreyna það fyrr en eftir á, m.a. með fyrirspurnum. Jafnframt verða oft töluverðar breytingar á staðgreiðsluupplýsingum að loknu staðgreiðsluári.
    Á árinu 2021 fóru fram endurákvarðanir á stuðningi hjá 70 rekstraraðilum upp á tæplega 210 millj. kr. og voru öll þau tilvik þannig að tilgreindir höfðu verið eigendur eða aðrir þeir sem áttu að reikna sér endurgjald vegna starfa í þágu rekstrarins og féllu því ekki undir lögin um stuðning vegna uppsagna.
    Gert er ráð fyrir að síðla árs 2022 og á árinu 2023 verði gerðar ýmsar samanburðarkeyrslur hjá Skattinum í því skyni að athuga hvort ákvarðaður stuðningur sýnist réttur, þótt langflest skilyrði hafi verið staðreynd strax við umsókn. Þetta verður ekki gert fyrr en viðeigandi gögn liggja fyrir sem hægt er að byggja á og meta, m.a. vegna arðgreiðslna. Jafnframt þarf að athuga hvort tekjufærsla stuðningsins er með réttum hætti en hún getur spannað fimm rekstrarár. Þessi aðferðafræði kallaði á það að setja þurfti upp nýja reiti í skattframtölum rekstraraðila til að skapa möguleika á því að halda utan um þetta frá ári til árs.