Ferill 651. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1106  —  651. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafa lagaheimildir til að rannsaka starfsemi Bankasýslu ríkisins og embættisfærslu fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með málefni Fjármálaeftirlitsins, sbr. 15. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019? Ef svo er, hverjar eru þær heimildir?

    Óskað var eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og byggist svar þetta m.a. á upplýsingum sem bárust frá bankanum.
    Með lögum nr. 92/2019 var Fjármálaeftirlitið sameinað Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laganna fer Seðlabankinn með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og er Fjármálaeftirlitið hluti af Seðlabankanum. Skal bankinn m.a. fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með þeim eftirlitsskyldu aðilum sem tilgreindir eru í 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Þá hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með annarri starfsemi sem því er falið samkvæmt sérlögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
    Líkt og ráða má af upptalningu á aðilum í 2. gr. framangreindra laga og lögum nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, fer Seðlabankinn ekki með eftirlit með Bankasýslu ríkisins og hið sama á við um embættisfærslur fjármála- og efnahagsráðherra. Þá hefur Seðlabankinn ekki eftirlit með framkvæmd laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012.
    Við framkvæmd eftirlits kunna þó einstök lögbundin verkefni Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands að varða einstaklinga og lögaðila sem ekki teljast eftirlitsskyldir, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998. Sem dæmi um slík verkefni má nefna mat á hæfi virkra eigenda. Það var mat Fjármálaeftirlitsins að ríkissjóður Íslands, þ.e. Bankasýsla ríkisins sem fer með eignarhlut ríkisins, væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka á árinu 2016. Þá getur Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands einnig tekið til athugunar tiltekna þætti er tengjast verðbréfaviðskiptum og falla undir lögbundið eftirlitshlutverk bankans. Snúi slík verkefni að fjármála- og efnahagsráðuneyti eða Bankasýslu ríkisins er rétt að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, er bankinn sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Í því felst að Seðlabankinn er sjálfstætt stjórnvald og lýtur þeim almennu reglum sem gilda um meðferð stjórnsýsluvalds og starfsemi stjórnvalda. Vísan til sjálfstæðis bankans í greininni er mikilvægur þáttur í stöðu bankans.
    Vegna sjálfstæðis síns lýtur Seðlabankinn ekki almennum yfirstjórnarheimildum ráðherra og getur ráðherra á grundvelli stöðu sinnar sem handhafi framkvæmdarvalds ekki gefið bein fyrirmæli um hvernig meðferð einstakra mála skuli háttað eða farið skuli með þau. Ráðherra hefur á hinn bóginn almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum sjálfstæðra stjórnvalda eins og Seðlabankans, sbr. lög nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.
    Þótt Seðlabankinn njóti víðtæks lögbundins sjálfstæðis ræðst það af mati hverju sinni á samspili þeirra laga og reglna sem gilda um starfsemi bankans hvar nákvæmlega sjálfstæði bankans kunna að vera settar skorður. Sjálfstæði bankans til þess að sinna meginviðfangsefnum sínum á sviði peningamála, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits er þó mjög afdráttarlaust í gildandi Seðlabankalögum.
    Seðlabankinn heyrir stjórnarfarslega undir málefnasvið forsætisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 1. gr. úrskurðar nr. 7/2022. Aðkoma fjármála- og efnahagsráðherra tengist á hinn bóginn ábyrgð hans á tilteknum stjórnarmálefnum á þessu sviði. Eru á vegum Alþingis starfandi tvær stofnanir sem gegna veigamiklu eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum, þar á meðal embættisfærslum fjármála- og efnahagsráðherra, þ.e. annars vegar Ríkisendurskoðun og hins vegar embætti umboðsmanns Alþingis.