Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1119  —  718. mál.




Álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar


um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnanir ríkisins.


    Með bréfi 14. desember 2021 sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnanir ríkisins til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis. Í skýrslunni er að finna niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar á stærðarhagkvæmni stofnana sem heyra undir ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands.
    Nefndin hefur fjallað um skýrsluna á fundum sínum og fengið á sinn fund Guðmund Björgvin Helgason, starfandi ríkisendurskoðanda, Jarþrúði H. Jóhannsdóttur, Elísabetu Stefánsdóttur, Magnús Lyngdal Magnússon og Gest Pál Reynisson frá Ríkisendurskoðun.

Meginniðurstöður skýrslunnar.
    Íslensk stjórnvöld hafa undanfarna áratugi unnið að ýmsum umbótum á sviði opinbers rekstrar. Þrátt fyrir það hefur sú vinna ekki verið nægilega markviss. Stjórnkerfið einkennist af fjölda smárra stofnana sem ætla má að séu óhagkvæmar í rekstrarlegu og faglegu tilliti. Á undanförnum misserum hafa sum ráðuneyti ráðist í nokkra vinnu sem lýtur að samstarfi stofnana eða sameiningu þeirra. Sú vinna hefur þó ekki alltaf leitt af sér aukna samvinnu eða sameiningu með skipulögðum hætti. Tilefni er til að horfa til frekari sameiningar eða aukins samstarfs stofnana en mikilvægt er að undirbúa hverja sameiningu vel.
    Af ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands skar mennta- og menningarmálaráðuneyti sig úr að því er varðar fjölda undirstofnana. Voru þær 53 og um helmingur þeirra framhaldsskólar sem eru misjafnir að stærð og umfangi. Ráðuneytið átti jafnframt í samningssambandi við 100 sjálfseignarstofnanir og félög og greiddi ríkissjóður um 25 milljarða kr. árið 2021 á grundvelli samninganna. Þessi mikli fjöldi stofnana og samninga kallaði á umfangsmikið eftirlit af hálfu ráðuneytisins.
    Á grundvelli úttektarinnar setur Ríkisendurskoðun fram fjórar tillögur til úrbóta. Fjalla þær um að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf og jafnvel sameiningu stofnana; að fækka þurfi undirstofnunum mennta- og menningarmálaráðuneytis; að skoða þurfi möguleika á aukinni samvinnu; og að tryggja þurfi gott eftirlit þegar undirstofnanir og viðföng eru fleiri.

Umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
    Starfsemi hins opinbera gegnir veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og hefur áhrif á daglegt líf allra Íslendinga. Það er því mikilvægt að sú starfsemi sé skilvirk og að leitað sé leiða til að gera hana betri, hagkvæmari og sveigjanlegri. Markmiðið með því er að hið opinbera þjóni sem best íbúum landsins með hliðsjón af þeim verkefnum sem því er ætlað að leysa á hverjum tíma.
    Á ráðuneytum hvílir sú skylda að hafa eftirlit með þeim stofnunum sem undir þau heyra. Fjöldi stofnana sem heyrir undir ráðuneyti hefur óhjákvæmilega áhrif á virkni eftirlitsins ef ráðuneytið er ekki í stakk búið til að sinna því. Eins og áður sagði beindi Ríkisendurskoðun einkum sjónum sínum að fjölda stofnana og samninga sem heyrðu undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Eftir útgáfu skýrslunnar voru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins. Meðal breytinganna var að mennta- og menningarmálaráðuneyti var lagt niður og málefni þess flutt til mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis. Eftir þessar breytingar heyra nú færri stofnanir undir ráðuneyti menntamála. Eftirlit ráðuneytisins er því ekki jafnyfirgripsmikið og áður. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðuneyti sinni yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki sínu af kostgæfni og að tryggt sé að þau séu vel í stakk búin til að sinna því.
    Nefndin ræddi jafnframt sameiningu og samstarf stofnana. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sameining stofnana þarfnast góðs undirbúnings og að huga þarf að mörgum þáttum svo að hver og ein sameining skili árangri. Þá verður einnig að hafa í huga að mörg verkefni eru þess eðlis að þau krefjast nálægðar við borgarana og þess að gætt sé að byggðasjónarmiðum. Meiri hlutinn tekur undir þá tillögu Ríkisendurskoðunar að líta megi til sóknarfæra sem felast í aukinni samvinnu og samráði milli stofnana annars vegar og milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands hins vegar.
    Meiri hlutinn hvetur að öðru leyti ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands til að hafa skýrsluna til hliðsjónar í umbótastarfi sínu.

Alþingi, 25. maí 2022.

Þórunn Sveinbjarnardóttir,
form., frsm.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Sigmar Guðmundsson.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.