Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1123  —  237. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um viðurkenningu sjúkdómsgreininga yfir landamæri.


     1.      Telur ráðherra það vera í samræmi við markmið um afnám landamærahindrana að fólk sem flytur til Íslands frá öðrum Norðurlöndum geti ekki sótt sér lyf eða þjónustu á grundvelli greininga og skírteina sem gefin eru út í viðkomandi ríki, svo sem ADHD-greiningar þar sem biðlistar eftir læknisþjónustu er langir hér á landi?
    Fyrirspurnin lýtur að lyfjum og sjúkdómsgreiningum, sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Leitað var til heilbrigðisráðuneytis vegna fyrirspurnarinnar en samkvæmt ráðuneytinu er unnið markvisst að því að draga úr landamærahindrunum milli Norðurlanda meðal annars með innleiðingu á stafrænni tækni, svo sem rafrænum lyfseðlum sem gilt geta milli landanna. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar 740/2020 eru gildar hér á landi lyfjaávísanir lækna sem hafa starfsleyfi á Íslandi. Um ávísanir lækna sem hafa starfsleyfi í öðrum löndum EES-svæðisins gilda 27. og 28. gr. reglugerðarinnar. Í 27. gr. reglugerðarinnar segir að þótt meginreglan sé sú að lyfjaávísanir lækna, sem hafa starfsleyfi á EES-svæðinu, gildi á Íslandi eigi það ekki við um lyf sem innihalda efni sem tilgreind eru í fylgiskjali 1 við reglugerð 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Flest lyf sem notuð eru við ADHD falla undir ávana- og fíkniefni. Verði fyrirkomulagi varðandi ADHD-lyf breytt, þ.e. lyfjaávísanir annarra ríkja yrðu viðurkenndar hér á landi, yrði Ísland eina landið á EES-svæðinu sem heimilaði slíkt samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu, sem er það ráðuneyti sem fer með lyfjamál.
    Ráðherra norrænna samstarfsmála telur að ef fólk sem flytur til Íslands frá öðrum Norðurlöndum getur sótt sér lyf eða þjónustu á grundvelli greininga og skírteina sem gefin eru út í viðkomandi ríki, má færa rök fyrir því að Norðurlöndin væru samþættari en nú er. Norðurlöndin hafa unnið að því að afnema landamærahindranir milli landanna í anda þess markmiðs að Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims. Hin síðustu ár hefur tekist að afnema nokkrar hindranir milli landanna á hverju ári. Enn standa hindranir eftir sem miserfitt er að leysa og er þeim forgangsraðað.

     2.      Eru greiningar á sjúkdómum, röskunum eða öðrum vanda sem gerðar eru annars staðar á Norðurlöndunum viðurkenndar þvert yfir landamæri?
    Hvað varðar læknisfræðilegar greiningar þá eru þær faglegs eðlis og því mat heilbrigðisstarfsmanns hverju sinni hvort hann veitir meðferð á grundvelli greiningar annars heilbrigðisstarfsmanns eða hvort hann endurmetur greininguna, óháð því hvort hún er yfir landamæri eða ekki.