Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1134  —  719. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um beiðni ráðherra um úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.

Frá Jóhanni Páli Jóhannssyni og Kristrúnu Frostadóttur.


     1.      Hvers vegna óskaði ráðherra eftir því 7. apríl 2022 að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka?
     2.      Á hvaða lagagrundvelli er beiðni ráðherra til Ríkisendurskoðunar reist?
     3.      Leitaði ráðherra álits ráðuneytis síns, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, áður en beiðnin var lögð fram? Ef svo er, hvers efnis var ráðgjöfin?
     4.      Hefur ráðherra áður óskað eftir úttektum frá eftirlitsstofnunum Alþingis á tilteknum málum? Ef svo er, í hvaða tilvikum og af hvaða ástæðum?
     5.      Hvernig verður gjaldtöku háttað vegna úttektarinnar, sbr. tilvísun Ríkisendurskoðunar til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2016 í svarbréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytis 7. apríl 2022?
     6.      Telur ráðherra það falla undir starfssvið Ríkisendurskoðunar að meta lögfræðileg atriði sem varpað geta ljósi á það hvort ráðherra hafi sjálfur rækt starfsskyldur sínar samkvæmt lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, við sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka?
                  a.      Ef svarið er nei, hafði þetta þýðingu fyrir þá ákvörðun ráðherra að beita sér fyrir því að málið yrði rannsakað af Ríkisendurskoðun en ekki af eftirlitsaðila sem að lögum er bær til þess að fjalla um hvort ráðherra hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar?
                  b.      Ef svarið er já, telur ráðherra að lögbundnar skyldur hans sem ráðherra samkvæmt téðum lögum hafi einskorðast við fjárreiður, sbr. 43. gr. stjórnarskrárinnar, en ekki falið í sér framkvæmd stjórnarmálefna að öðru leyti?


Skriflegt svar óskast.