Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1160  —  579. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (samræmd könnunarpróf).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Óskar Þór Ármannsson, Sigríði Láru Ásbergsdóttur, Elísabetu Pétursdóttur og Óskar Hauk Níelsson frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Þórð Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Daníel Þröst Pálsson og Ríkarð Flóka Bjarkason, nemendur í 9. bekk.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagi náms- og starfsráðgjafa og Daníel Þresti Pálssyni og Ríkharði Flóka Bjarkasyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum, til og með 31. desember 2024.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að mennta- og barnamálaráðuneytið muni nýta þann tíma sem lagt er til að fresta eigi skyldu til samræmdra könnunarprófa skv. 39. gr. laganna til að innleiða nýtt samræmt námsmat sem byggist á tillögu skýrslu um framtíðarstefnu um samræmt námsmat frá árinu 2020. Fyrir nefndinni kom fram að ýmis rök væru fyrir því að leggja til að fresta samræmdum prófum, m.a. að útfærsla prófanna eins og þau eru nú hafi runnið sitt skeið, þá hefðu komið upp tæknileg vandamál við framkvæmd þeirra, auk þess sem mikið álag hefði verið á skólakerfinu. Það sé mikilvægt en umfangsmikið verkefni að innleiða nýtt samræmt námsmat og jafnframt að efla ytra mat skóla. Í umsögn um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið styðji eindregið að framkvæmd samræmdra könnunarprófa verði frestað á þeirri forsendu að tíminn verði nýttur til að vinna að hönnun og innleiðingu nýs samræmds námsmats í samstarfi við hagsmunaaðila og með hagsmuni barna að leiðarljósi.
    Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og undirstrikar mikilvægi þess að farið verði í heildarendurskoðun á samræmdu námsmati með hagsmuni og þarfir nemenda að leiðarljósi og það að markmiði að veita skólum, nemendum og foreldrum betri upplýsingar um stöðu nemenda. Jafnframt sé mikilvægt að tryggja gott samráð við hagsmunaaðila við þá vinnu.
Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 3. júní 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
frsm.
Eyjólfur Ármannsson.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Birgir Þórarinsson. Kári Gautason.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Logi Einarsson.