Ferill 518. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1278  —  518. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Hákon Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, dr. Hildi Fjólu Antonsdóttur, Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur frá Stígamótum, Ölmu Ýr Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Margréti Unni Rögnvaldsdóttur og Hrafnhildi Gunnarsdóttur frá ríkissaksóknara.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Aflinu – samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvennaráðgjöfinni, Kvenréttindafélagi Íslands, Öfgum, Rótinni – félagi um velferð og lífsgæði kenna, Samtökum um kvennaathvarf, Stígamótum, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. – samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Ákærendafélagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, héraðssaksóknara, dr. Hildi Fjólu Antonsdóttur, ríkissaksóknara, umboðsmanni barna og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpið felur í sér annars vegar ítarlegar breytingar á lögum um meðferð sakamál, nr. 88/2008, og hins vegar breytingar á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, um miðlun upplýsinga til brotaþola. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um meðferð sakamála eru að meginstefnu þríþættar:
    Í fyrsta lagi er með frumvarpinu leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í því sambandi er m.a. lagt til að aðgangur réttargæslumanns að gögnum á rannsóknarstigi verði í grundvallaratriðum sá sami og aðgangur verjanda, að brotaþola verði heimilt að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hann hefur gefið skýrslu, að réttargæslumanni verði milliliðalaust heimilað að beina spurningum til skýrslugjafa fyrir dómi, að brotaþola verði í ríkara mæli skipaður réttargæslumaður við meðferð áfrýjaðra mála og að unnt verði við meðferð máls á áfrýjunarstigi að krefjast ómerkingar á þeim þætti áfrýjaðs dóms sem lýtur að frávísun bótakröfu brotaþola þegar ákærði hefur verið sýknaður og bótakröfu af þeim sökum vísað frá dómi.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar í því augnamiði að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í þeim efnum er m.a. lagt til að dómari geti ákveðið í vissum tilvikum að skýrsla af fötluðum brotaþola eða vitni verði tekin í sérútbúnu húsnæði sem og að dómari geti kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni. Þá er lagt til að fötluðum sakborningi og vitni verði heimilt að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku, hvort heldur sem er hjá lögreglu eða fyrir dómi.
    Loks er í þriðja lagi stefnt að því með frumvarpinu að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings í þeim tilvikum þegar rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans. Þannig verði aðstandanda heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarpið byggist að hluta á frumvarpi sem samið var af réttarfarsnefnd og lagt var fram af dómsmálaráðherra á 151. löggjafarþingi, sbr. 718. mál, en náði ekki fram að ganga. Það frumvarp fékk ítarlega umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar. Við meðferð frumvarpsins nú horfði nefndin til þess máls auk þeirra erinda og umsagna sem bárust við meðferð þess. Ljóst er að frumvarpið hefur tekið breytingum frá eldra máli og tiltaka umsagnaraðilar m.a. í umsögnum sínum að talsverðar breytingar hafi verið gerðar og góð vinna hafi verið lögð í rökstuðning. Frumvarpinu og markmiðum þess er fagnað í umsögnum. Meiri hlutinn fagnar frumvarpinu jafnframt og fjallar nánar um tiltekna þætti þessi í ljósi umsagna.

Réttarstaða brotaþola.
    Nefndin fjallaði um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og er ætlað að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við undirbúning frumvarpsins voru teknar til athugunar tvær aðferðir til þess að styrkja réttarstöðu brotaþola, þ.e. að veita brotaþola formlega aðild að refsiþætti sakamáls, á svipaðan hátt og í Svíþjóð og Finnlandi, eða gera réttarbætur sem styrkja réttarstöðu brotaþola með því að veita honum aukin réttindi við rannsókn og meðferð sakamáls, sem er sú leið sem farin hefur verið í Noregi. Síðarnefnda leiðin er lögð til grundvallar í frumvarpinu. Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að markmið þess sé að styrkja réttarstöðu og aðkomu brotaþola við meðferð sakamála, bæta upplifun þeirra og viðurkenna enn frekar þá lögmætu hagsmuni og sérstöku stöðu sem þeir eru í þegar til rannsóknar og meðferðar er brot, eða ætlað brot, gegn þeim.
    Þrátt fyrir að þær umsagnir sem bárust nefndinni hafi að meginstefnu til verið jákvæðar þá komu fram sjónarmið um að ganga hefði átt enn lengra í að tryggja réttarstöðu brotaþola og/eða fara þá leið að veita brotaþola formlega aðild að refsiþætti sakamáls. Í sameiginlegri umsögn frá Aflinu – samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvennaráðgjöfinni, Kvenréttindafélagi Íslands, Öfgum, Rótinni – félagi um velferð og lífsgæði kenna, Samtökum um kvennaathvarf, Stígamótum, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. – samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi er m.a. á það bent að mikilvæg skref hafi verið stigin en brotaþola hafi þó ekki verið veitt full aðildarstaða. Bent er á að þolendur kynferðisofbeldis og kynbundins ofbeldis upplifa að vera settir til hliðar í réttarkerfinu og að málsmeðferð komi þeim einfaldlega ekki við. Að vera vitni í máli undirstrikar þessa upplifun brotaþola og mikilvægt sé að brotaþolar fái aðilastöðu í máli, ekki síður á grundvelli hugmyndafræði en lagaréttinda. Þá kemur fram að í frumvarpinu sé vissulega reynt að gefa brotaþolum sterkari stöðu og ýmis skref tekin til að auka þátttöku þeirra í ferlinu sem sé til bóta þegar horft er til núgildandi laga. Dr. Hildur Fjóla Antonsdóttir fagnar þeim endurbótum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá 151. löggjafarþingi í umsögn sinni en tiltekur að skýra þyrfti betur þá lögmætu hagsmuni sem brotaþoli hefur af meðferð máls og hvernig réttarsambandi brotaþola og ríkisins sé háttað. Þá fjallar hún um brotaþola sem aðila auk þess sem fram koma í umsögn hennar atriði sem komu fram á fyrri stigum og afstaða er tekin til í samráðskafla frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er með ítarlegum hætti fjallað um aðildarhugtakið. Þar kemur m.a. fram að þegar rætt er um brotaþola sem aðila að sakamáli megi greina á milli þess sem nefna má fullkomna aðilastöðu brotaþola að sakamáli annars vegar og aðild að hluta hins vegar. Í fullkominni aðilastöðu felst að brotaþoli fær ekki einungis mjög aukin réttindi heldur tekur jafnframt á sig margar af þeim skyldum sem hvíla á ríkisvaldinu, svo sem að ákveða hvort ákæra skuli gefin út eða standa að útgáfu ákæru með ákæruvaldinu, ábyrgð á málflutningsyfirlýsingum, sækja eða láta sækja fyrir sig öll þinghöld í máli, forræði á sakarefni ásamt ákæruvaldinu og bera ábyrgð á málatilbúnaði sakamáls að öðru leyti. Þá yrði brotaþola samkvæmt þessu heimilt að standa að áfrýjun sakamáls, með eða gegn vilja ákæruvaldsins. Í aðild að hluta felst að veita brotaþola formlega aðild að sakamáli með auknum réttindum en án þess að leggja á hann skyldur eða hlutdeild í ákvarðanatöku er varðar rannsókn og meðferð refsiþáttar sakamálsins, svo sem um hvort ákæra sé gefin út, og sakamálið lagt upp að öðru leyti.
    Meiri hlutinn telur þá leið sem farin er í frumvarpinu ákjósanlegt fyrsta skref og ekki tilefni að svo stöddu að ganga lengra eins og að veita brotaþola aðilastöðu eða aðilastöðu að hluta enda ekki ljóst að slíkt myndi bæta réttarstöðu brotaþola í reynd. Meiri hlutinn telur að þegar breytingar eru lagðar til á grónu regluverki þurfi að stíga varlega til jarðar og sýna aðgát svo unnt sé að tryggja að þær breytingar sem ætlað er að styrkja réttarstöðu brotaþola leiði ekki til þess í reynd að þær verði lakari, t.d. rýri trúverðugleika framburðar hans og auki um leið líkur á því að sekur maður komist hjá ábyrgð. Hafa þarf í huga að við rannsókn og meðferð sakamáls ber ávallt að tryggja að sakborningur/ákærði njóti réttlátrar málsmeðferðar og þeirra réttinda sem honum eru tryggð með lögum, stjórnarskrá og mannréttindaskuldbindingum Íslands. Í umfjöllun sinni um frumvarpið tók meiri hlutinn tillit til allra þessara sjónarmiða. Meiri hlutinn telur breytinguna afar mikilvæga og tímabæra og til þess fallna að bæta réttarstöðu brotaþola til muna.

Réttarstaða fatlaðs fólks.
    Nefndin fjallaði um þá breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins á 4. málsl. 9. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þess efnis að dómari geti ákveðið að skýrsla skuli tekin af brotaþola eða vitni með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, í sérútbúnu húsnæði. Í 9. gr. laganna kemur fram sú meginregla að dómþing skulu haldin á föstum þingstöðum. Ef þinghöld eru háð í heyranda hljóði leiðir af eðli máls að þau skulu haldin í dómsölum svo almenningi gefist kostur á að fylgjast með því sem þar fer fram, sbr. 10. gr. laganna. Í 9. gr. laganna eru þó tilteknar undantekningar á framangreindri meginreglu.
    Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands koma m.a. fram sjónarmið um að framangreind breyting á 9. gr. laganna geti leitt til þess að einstaklingum sé mismunað á grundvelli fötlunar og/eða skerðingar. Bent er á að markmið frumvarpsins sé að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála og því geti heimildarákvæði sem þetta ekki náð þeim markmiðum sem að er stefnt. Brýnt sé að einstaklingur með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun geti gengið að því vísu að skýrslutaka fari fram í sérútbúnu húsnæði.
    Umboðsmaður barna bendir á í sinni umsögn að í greinargerð frumvarpsins komi fram að framangreindar skýrslutökur geti farið fram í Barnahúsi eða sérútbúnu herbergi í dómhúsi. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að Barnahús er sérstaklega útbúið börnum og hentar því ekki fyrir skýrslutökur af fullorðnu fólki. Bent er á að ákjósanleg væri að á vegum dómstóla yrði komið upp sérstakri aðstöðu sem hentar þörfum fatlaðs fólks.
    Meiri hlutinn áréttar að um er að ræða undantekningarheimild frá þeirri meginreglu að dómþing skulu haldin á föstum þingstöðum. Meiri hlutinn áréttar einnig að það er meðal hlutverka dómara að skipuleggja og stýra þinghaldi og gæta þess að það sé háð eftir réttum reglum, þ.m.t. að aðilar í sambærilegri stöðu fái sambærilega meðferð. Meiri hlutinn telur ekki rétt að gera það að skyldu að skýrslutaka fari fram í sérútbúnu húsnæði enda ekki ljóst að það þjóni hagsmunum hlutaðeigandi í öllum tilvikum. Meiri hlutinn telur rétt að eftirláta dómara það mat í stað þess að löggjafinn setji fortakslausa reglu án svigrúms til mats, en áréttar þó að við mat dómara hverju sinni, um hvort skýrslutaka eigi að fara fram í sérútbúnu húsnæði, hafi dómari virkt samráð við hlutaðeigandi og þá sem gæta hagsmuna hans og meti hverju sinni hvort húsnæðið taki mið af þörfum hans. Í ljósi umsagnar umboðsmanns barna um Barnahús beinir meiri hlutinn því til ráðherra að taka til sérstakrar skoðunar hvaða aðstaða sé heppilegust þegar fullorðið fatlað fólk á í hlut. Meiri hlutinn telur breytinguna afar mikilvæga og tímabæra og til þess fallna að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks til muna.

Réttarstaða aðstandenda.
    Nefndin hefur fjallað um þau atriði í frumvarpinu er lúta að breytingum á réttarstöðu látinna einstaklinga sem fram koma í 4. og 5. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn Ákærendafélags Íslands er lagt til að fyrirsvarsmaður látins einstaklings eigi möguleika á að fá skipaðan réttargæslumann við meðferð dómsmáls á áfrýjunarstigi á sama hátt og brotaþoli.
    Í umsögn héraðssaksóknara kemur m.a. fram að mikilvægt sé að aðstandendur látinna, þegar orsök andláts eru til rannsóknar, fái aukin réttindi. Til dæmis hafa aðstandendur fólks sem hefur látist í tengslum við aðgerðir lögreglu ekki átt rétt á réttargæslumanni og því þurft að standa sjálfir undir kostnaði við aðstoð lögmanns í þeim tilvikum.
    Í umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands er m.a. fjallað um mikilvægi þess að tryggja stuðning við aðstandendur og eftirfylgni með frumvarpinu verði það að lögum.
    Vegna umsagnar Ákærendafélags Íslands bendir meiri hlutinn á að með b-lið 6. gr. frumvarpsins sé lagt til að brotaþola verði skipaður réttargæslumaður við meðferð máls í Landsrétti, eða eftir atvikum Hæstarétti, enda sé öðru af tveimur skilyrðum fullnægt, að brotaþoli hafi haft uppi einkaréttarkröfu við meðferð málsins í héraði eða nauðsynlegt verði talið að taka skýrslu af brotaþola fyrir Landsrétti. Meiri hlutinn telur þessi sjónarmið ekki eiga við um fyrirsvarsmanns látins einstaklings og bendir á í því sambandi að ætlunin er að réttargæslumaður fyrirsvarsmanns hafi það hlutverk að aðstoða fyrirsvarsmann við að gæta hagsmuna hins látna en ekki gæta hagsmuna aðstandenda sem slíkra, svo sem með því að setja fram einkaréttarkröfu fyrir þeirra hönd.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að aðstandendur fái aukin réttindi og vísar til þess að á grundvelli gildandi laga öðlast aðstandendur ekki formlega stöðu af neinu tagi gagnvart lögreglu og hafa að sama skapi ekki mörg úrræði til að fylgjast með framgangi lögreglurannsóknar. Meiri hlutinn telur því afar mikilvægt að bætt sé úr þessu enda hafa eftirlifandi aðstandendur hagsmuni af því að fá upplýsingar um framvindu rannsóknar. Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu, um að aðstandandi geti komið fram sem fyrirsvarsmaður látins einstaklings gagnvart lögreglu og þá breytingu að heimilt verði að tilnefna fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann ef hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð meðan á rannsókn málsins stendur, afar mikilvæga réttarbót fyrir aðstandendur. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að fylgjast vel með því að framangreindar breytingar nái markmiði sínu um að bæta réttarstöðu aðstandenda.

Spurningar réttargæslumanna fyrir dómi.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um umsögn ríkissaksóknara þar sem talið er að það að heimila réttargæslumanni að leggja spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða annað en einkaréttarkröfu brotaþola feli í sér röskun á grundvallarreglum sakamálaréttarfars um að sönnunarbyrðin um sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Áþekk sjónarmið koma fram í umsögn Ákærendafélags Íslands en eru ekki tekin til umfjöllunar í umsögn héraðssaksóknara.
    Í 2. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins kemur fram að réttargæslumanni verði heimilt að leggja stuttar og gagnorðar spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem varða annað en einkaréttarkröfur skjólstæðings hans og skýrslugjafi hefur ekki verið spurður um áður fyrir dómi. Þetta ákvæði tekur til skýrslutaka, þ.e. bæði vitnaskýrslna og aðilaskýrslna. Þá er í b-lið 7. gr. ákvæði er lýtur að þeirri einkaréttarkröfu sem skjólstæðingur réttargæslumanns, þ.e. brotaþoli, hefur uppi í sakamálinu. Þar kemur fram að réttargæslumanni verður heimilt að leggja fyrir spurningar og tjá sig munnlega fyrir dómi um einkaréttarkröfur skjólstæðings hans en ekki um kröfur ákæruvalds að öðru leyti. Þó má hann tjá sig um réttarfarsatriði ef þau snúa sérstaklega að skjólstæðingnum.
    Ákvæði 2. mgr. a-liðar 7. gr. nær einungis til þess að leggja stuttar og gagnorðar spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi um atriði sem skýrslugjafi hefur ekki verið áður spurður um fyrir dómi. Ætlunin er þannig ekki að um verði að ræða „tvöfalda“ umferð spurninga heldur geti réttargæslumaður nýtt heimildina ef hann telur að ákæruvaldið hafi látið hjá líða að leggja fyrir spurningar sem þýðingu geti haft í refsiþætti sakamáls. Ekki verður séð að með þessu sé raskað reglu 108. gr. laganna um sönnunarbyrði ákæruvaldsins né heldur gengið á réttindi ákærða þannig að hann þurfi í raun að verjast tveimur málsaðilum. Telja verður að heimild réttargæslumanns til milliliðalausra spurninga sé til þess fallin að mál upplýsist fremur í einhverjum tilvikum. Þrátt fyrir að réttargæslumanni verði gert heimilt að spyrja spurninga án milliliða er rétt að árétta að sönnunarfærslan vegna refsiþáttar máls er eftir sem áður í höndum ákæruvalds og ákærða, eftir atvikum með aðkomu dómara að því marki sem hann telur nauðsynlegt til að mál upplýsist eða skýrist. Í því sambandi er bent á að hliðstætt ákvæði er að finna í 291. gr. a norsku sakamálalaganna og í Svíþjóð er gengið lengra þar sem brotaþoli/réttargæslumaður getur gefið út eigið ákæruskjal.
    Meiri hlutinn telur rétt að árétta að sakborningur hefur eftir sem áður aðstoð skipaðs verjanda eða lögmanns síns við meðferð máls fyrir dómi sem gætir að réttarstöðu hans. Framangreint hefur ekki áhrif á réttarstöðu sakbornings í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Dómari framkvæmir sönnunarmatið og sönnunarfærslan er eftir sem áður milliliðalaus, þ.e. öll sönnunargögn eru að jafnaði lögð fyrir dóm í opnu þinghaldi að ákærða viðstöddum og spurningar eru lagðar fyrir hann í þinghaldinu. Hann á því kost á að tjá sig um öll gögn og andmæla þeim og svara spurningum, sbr. 1. mgr. 6. gr., sbr. d-lið 3. mgr. 6. gr. MSE.
    Ákvæði b-liðar 7. gr. frumvarpsins snýr bara að einkaréttarkröfunni en einkaréttarkrafa er krafa um annað en refsingu eða refsikennd viðurlög sem leitað er dóms um í sakamáli samhliða refsikröfu ákæruvaldsins. Ákvæði 2. mgr. a-liðar 7. gr. og b-liðar 7. gr. eru því ólík, þ.e. annað snýr að refsiþætti sakamáls en hitt snýr að kröfu að einkarétti.

Aðgangur réttargæslumanns að gögnum á rannsóknarstigi.
    Í umsögn Ákærendafélagsins eru gerðar athugasemd við framsetningu 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um aðgang réttargæslumanns að gögnum á rannsóknarstigi. Er bent á í því sambandi að orðalagið „brýnir einkahagsmunir“ sé ekki nægilega skýrt og að hugsanlega sé ekki nauðsynlegt að réttargæslumaður fá aðgang að öllum skjölum.
    Í þessu sambandi telur meiri hlutinn rétt að taka fram að við samningu frumvarpsins var ákveðið að gera aðgang réttargæslumanns að rannsóknargögnum lögreglu í öllum aðalatriðum hinn sama og aðgang verjanda. Er 8. gr. frumvarpsins þannig sniðin eftir 37. gr. laga um meðferð sakamála sem fjallar um það atriði og notuð eru sömu hugtök og þar er að finna.

Endurskoðun laga hvað varðar réttargæslumenn.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um ákvæði V. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um brotaþola og réttargæslumann. Reglur um réttargæslumann eru nátengdar þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og kemur m.a. fram í umsögn ríkissaksóknara að það sé nauðsynlegt að samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu setji ráðherra reglur eða reglugerð um hlutverk og skyldur réttargæslumanna.
    Meiri hlutinn telur ljóst að ákvæði laganna um hlutverk og skyldur réttargæslumanna eru ekki ítarleg. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að skoða hvort tilefni sé til að skoða hvort fara eigi fram heildstæð endurskoðun á V. kafla laganna og/eða hvort fyrir hendi séu heimildir í lögunum til handa ráðherra til að setja nánari reglur um hlutverk og skyldur réttargæslumanna. Meiri hlutinn telur rétt að við skoðunina sé m.a. horft til Noregs þar sem reglur um réttargæslumenn eru ítarlegri en hér á landi.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn telur, í ljósi umsagna og annars samráðs, m.a. við dómsmálaráðuneytið, ekki tilefni til að leggja til breytingar á frumvarpinu aðrar en óefnislegar lagatæknilegar breytingar sem ekki er ástæða til að gera sérstaka grein fyrir.

    Meiri hlutinn legur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað vísunar í „199. gr.“ í b-lið 21. gr. komi: þessarar greinar.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda).

    Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Bergþór Ólason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Sigmar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 14. júní 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Birgir Þórarinsson. Jóhann Friðrik Friðriksson.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Hilda Jana Gísladóttir. Kári Gautason.