Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1318 — 450. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018 (nikótínvörur).
Frá meiri hluta velferðarnefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásthildi Knútsdóttur, Guðlín Steinsdóttur og Kristínu Ninju Guðmundsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Hafstein Viðar Jensson og Sveinbjörn Kristjánsson frá embætti landlæknis, Skarphéðin Grétarsson og Ragnhildi Sif Hafstein frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sindra Kristjánsson frá Lyfjastofnun, Katrínu Guðjónsdóttur frá Matvælastofnun, Þórunni Önnu Árnadóttur og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu, Frigg Thorlacius og Ísak Sigurjón Bragason frá Umhverfisstofnun, Guðlaugu Þorsteinsdóttur, Jón Steinar Jónsson og Sigríði Dóru Magnúsdóttur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Guðlaugu B. Guðjónsdóttur frá Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins og Lilju Sigrúnu Jónsdóttur heimilislækni.
Þá bárust nefndinni umsagnir frá Barnaheillum, British American Tobacco Denmark (A/S), Duflandi ehf., embætti landlæknis, Fjölmiðlanefnd, FRÆ – Fræðslu og forvörnum, Hagsmunahópi lausasölufyrirtækja innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins, Lilju Sigrúnu Jónsdóttur heimilislækni, Neytendastofu, rafrettuhópi Félags atvinnurekenda, Sven ehf., Viðskiptaráði Íslands og Æskunni – barnahreyfingu IOGT. Þá barst jafnframt minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu um ýmis atriði varðandi nikótínpúða.
Efni frumvarpsins.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur nr. 87/2018, þannig að nikótínvörum verði bætt inn í ákvæði laganna sem hafi í för með sér að þær lúti að mestu leyti sömu reglum og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Markmiðið er að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum með því að fella þær undir sömu reglur og gilda samkvæmt lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
Nikótínpúðar eru nýleg nikótínvara og aðeins eru rúm tvö ár síðan varan kom í einhverjum mæli á markað á Íslandi eða um áramótin 2019–2020. Neysla vörunnar hefur vaxið hratt hér á landi og rannsóknir sýna að nú neytir allt að þriðjungur framhaldskólanema á aldrinum 16–18 ára púðanna.
Meiri hlutinn bendir á að umsagnaraðilar eru almennt sammála um mikilvægi þess að koma á reglum um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar nikótínvara, en þó komu fram athugasemdir við efni frumvarpsins. Í umsögnum og umfjöllun kom fram töluverður ágreiningur um efni frumvarpsins, ýmist um að frumvarpið gengi of langt eða að ganga þyrfti lengra við að takmarka sýnileika og aðgengi að nikótínvörum. Meiri hlutinn lagði í umfjöllun sinni áherslu á að skoða hvernig mætti draga úr áhrifum vörunnar á börn og ungmenni.
Bann við hvers konar auglýsingum á nikótínvörum (11. gr.).
Í 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 11. gr. laganna þar sem lagt er bann við hvers konar auglýsingum á nikótínvörum. Bann af þessum toga þjónar vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar auglýsingar eiga eftir að berast Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit. Að því sögðu beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að ráðist verði í heildarendurskoðun á reglum um auglýsingar er snerta nikótín-, tóbaks- og áfengisvörur hér á landi svo að heildarumgjörð og markmið laga sem um slík bönn gilda nái tilgangi sínum.
Breytingartillögur.
Bann við nikótínvörum sem innihalda bragðefni.
Nefndinni bárust nokkrar umsagnir þar sem bann við notkun bragðefna í nikótínvörum eða hið svokallaða „bragðbann“ er gagnrýnt. Þá eru rannsóknir á áhrifum bragðefna í nikótínvörum af skornum skammti. Í umsögnum og umfjöllun um málið í nefndinni hafa komið fram mjög skiptar skoðanir um bann við notkun bragðefna í nikótínvörum. Innan nefndarinnar eru jafnframt uppi ólík sjónarmið varðandi bragðbann. Þrátt fyrir að bann við notkun bragðefna kunni að skila árangri til að draga úr neyslu barna og ungmenna á níkótínvörum er það niðurstaða meiri hlutans að frekari vinnu þurfi við að greina áhrif slíkra aðgerða og mögulegar leiðir við að framfylgja slíku banni. Að mati meiri hlutans er því ljóst að meiri tíma þarf til að útfæra slíkt bann og skjóta undir það traustari stoðum. Bannið sé með öðrum orðum ekki nægilega vel undirbyggt eins og það er sett fram í þessu frumvarpi. Meiri hlutinn hvetur til þess að heilbrigðisráðuneytið og eftirlitsaðilar haldi áfram að fylgjast með alþjóðlegum rannsóknum og stefnumótun varðandi áhrif bragðefna á neyslu nikótíns og leiðum til að draga úr því.
Meiri hlutinn leggur því til í ljósi þessara sjónarmiða að b-liður 9. gr. frumvarpsins um breytingu á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/2018, sem hefur í för með sér bann við innflutningi, framleiðslu og sölu á nikótínvörum sem innihaldi bragðefni, verði felldur á brott.
Bann við notkun nikótínvara á stöðum þar sem börn og ungmenni safnast saman.
Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að ný málsgrein bætist við 12. gr. laganna þar sem bann er lagt við notkun nikótínvara í skólum, öðrum menntastofnunum og á öðrum stöðum þar sem börn og ungmenni safnist saman. Fyrir nefndinni kom fram að orðalag greinarinnar kunni að valda misskilningi og að bannið megi túlka þannig að það nái til allra menntastofnana óháð aldri fólks sem þar stundar nám, sbr. orðalagið „öðrum menntastofnunum“. Einnig var bent á að skerpa mætti á gildissviðinu gagnvart starfi fyrir börn. Meiri hlutinn tekur undir þetta og er því sammála um að orðalag þessarar greinar þurfi að skýra. Meiri hlutinn leggur því til að orðalagi 12. gr. verði breytt svo að allur vafi verði þar tekinn af um að notkun nikótínpúða sé óheimil alls staðar þar sem börn og ungmenni koma saman í dagvistun, sem og í skipulögðu skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi, hvort sem það á sér stað innan dyra eða utan. Ekki er um tæmandi talningu að ræða í lagaákvæðinu.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. B-liður 9. gr. falli brott.
2. Efnismálsgrein a-liðar 12. gr. orðist svo:
Notkun nikótínvara er óheimil þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi á meðan starfsemi fer fram fyrir börn yngri en 18 ára.
Alþingi, 15. júní 2022.
Líneik Anna Sævarsdóttir, form., frsm. |
Björgvin Jóhannesson. | Guðný Birna Guðmundsdóttir. | |
Guðmundur Ingi Kristinsson. | Guðrún Hafsteinsdóttir. | Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. | |
Orri Páll Jóhannsson. | Óli Björn Kárason. |