Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 25/152.

Þingskjal 1381  —  418. mál.


Þingsályktun

um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.


    Alþingi ályktar að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt.
    Með öldruðu fólki í þessari þingsályktun er átt við fólk sem náð hefur 67 ára aldri, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030:
     1.      Forysta til árangurs.
     2.      Rétt þjónusta á réttum stað.
     3.      Fólkið í forgrunni.
     4.      Virkir notendur.
     5.      Skilvirk þjónustukaup.
     6.      Gæði í fyrirrúmi.
     7.      Hugsað til framtíðar.
    Aðgerðirnar verði grunnur að vinnu verkefnastjórnar um stefnu í þjónustu við eldra fólk sem skipa skal samkvæmt stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem kynntur var 28. nóvember 2021. Svo að framangreind framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu við aldraða verði að veruleika heyri hluti aðgerða undir önnur ráðuneyti eða stjórnvöld en heilbrigðisráðherra.

1. Forysta til árangurs.
    Til að skýra hlutverk og vinna að bættri stjórnun og samhæfingu í heilbrigðiskerfinu verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Löggjöf um réttindi, þátttöku og skipulag við þjónustu við eldra fólk verði endurskoðuð.
     b.      Skipaður verði starfshópur vegna Áratugar heilbrigðrar öldrunar þvert á ráðuneyti og með þátttöku heilbrigðisstétta og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     c.      Þjónusta í hverju sveitarfélagi og heilbrigðisumdæmi verði samræmd.
     d.      Aukið verði við sérstakan stuðning og úrræði við aðstandendur sem sinna umönnun.

2. Rétt þjónusta á réttum stað.
    Til að skapa heildrænt kerfi sem tryggi samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni og gæti að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Þjónusta verði persónumiðuð og samþætt.
     b.      Heilbrigðisþjónusta heim verði einstaklingsmiðuð, þverfagleg þjónusta sem byggist á heildrænu faglegu mati þar sem heilsugæslan er grundvallareining heilbrigðisþjónustunnar.
     c.      Velferðartækni verði notuð í þjónustu við eldra fólk í öllum heilbrigðisumdæmum.
     d.      Mat fyrir þjónustuþörf verði samræmt.
     e.      Kostum og möguleikum eldra fólks til að halda heimili með eða án stuðnings verði fjölgað.

3. Fólkið í forgrunni.
    Til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma og öruggt og gott starfsumhverfi verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Menntun og þjálfun starfsfólks sem veitir öldruðu fólki heilbrigðisþjónustu verði í samræmi við kröfur um gæði þjónustunnar.
     b.      Samráð við heilbrigðisstéttir um úrvinnslu aðgerða verði tryggt.

4. Virkir notendur.
    Til að stuðla að virkri og ábyrgri þátttöku notenda heilbrigðisþjónustu verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Aldrað fólk og aðstandendur þess hafi aðgang að samræmdum heildarupplýsingum um þjónustuframboð á öllum stigum heilbrigðisþjónustu.
     b.      Aldrað fólk hafi aðgang að þjónustu með velferðartækni óháð búsetu.
     c.      Framkvæmdar verði reglubundnar þjónustukannanir.
     d.      Aukin áhersla verði lögð á að vinna gegn einmanaleika, m.a. með auknum forvörnum, aukinni virkni og þátttöku aldraðs fólks.

5. Skilvirk þjónustukaup.
    Til að stuðla að hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu stjórnvalda og þarfir notenda verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Fjármögnunarkerfi vegna dvalar og langtímaumönnunar á hjúkrunarheimili verði endurskoðað.
     b.      Settar verði samræmdar reglur um innihald þjónustu í dagdvalarrýmum sem og forgangsröðun einstaklinga í þjónustuna.
     c.      Viðmið verði sett um fjölda hjúkrunarrýma á hverju svæði.

6. Gæði í fyrirrúmi.
    Til að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Innleidd verði einstaklingsbundin þjónustuáætlun sem byggist á heildrænu öldrunarmati (interRAI HC).
     b.      Aðgengi að samræmdum upplýsingum verði aukið.
     c.      Húsnæði hjúkrunarrýma sem stenst ekki viðmið um aðbúnað og persónulegt rými verði endurbætt, því umbreytt í aðra þjónustu við aldraða eða því lokað.
     d.      Hjúkrunarheimili uppfylli þá gæðavísa sem embætti landlæknis leggur áherslu á hverju sinni.
     e.      Reglulegt gæðaeftirlit verði með öllum hjúkrunarheimilum á Íslandi.

7. Hugsað til framtíðar.
    Til að tryggja að menntun, vísindi og nýsköpun stuðli að áframhaldandi þróun heilbrigðisþjónustunnar verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     a.      Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum verði efld og henni falin verkefni til nýsköpunar, þróunar og rannsókna á sviði öldrunarfræða og öldrunarþjónustu.
     b.      Aukinn verði hlutur velferðartækni í allri þjónustu sem veitt er.
     c.      Áhersla verði lögð á nýsköpun og vísindi í þjónustu við aldrað fólk.

Aðgerðir í framkvæmd.
    Til að hrinda framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega.
    Mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunarinnar fari fram þegar aðgerðaáætlun fer í mótun og málsmeðferð, innan verkefnastjórnar sem skipuð verði samkvæmt fyrrgreindum stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Meta þurfi sérstaklega fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög, sbr. 129 gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2022.