Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1407  —  634. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um geðheilbrigðisþjónustu við fanga.


     1.      Hver er staða þeirra aðgerða sem ráðist var í til að bregðast við bráðum áfengis- og vímuefnavanda í fangelsum landsins líkt og bent er á í úttekt Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu frá maí 2019?
    Gripið var til þeirrar aðgerðar að koma á geðheilsuteymi fangelsanna sem tók til starfa í janúar 2020. Teymið var svo fest í sessi með varanlegri fjármögnun í upphafi árs 2022. Teymið er rekið af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sinnir þjónustu á landsvísu. Teymið er þverfaglegt, vinnur eftir batahugmyndafræði og veitir einstaklingsmiðaða geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal meðferð við fíknivanda. Þjónusta teymisins er ætluð föngum í afplánun eða gæsluvarðhaldi en þjónusta teymisins hefur þróast á þann veg að það sinnir í vaxandi mæli einnig eftirfylgd fanga á reynslulausn. Þjónusta teymisins er aðgengileg öllum föngum og biðtími skammur. Geðheilsuteymið er ekki skilgreint sem bráðateymi en bregst hratt við þegar þörf er á. Viðtal getur fengist samdægurs alla virka daga eða innan fárra daga, allt eftir þjónustuþörf einstakra skjólstæðinga, sem metin er hverju sinni.
    Fíknivandi er afar algengur hjá þessum skjólstæðingahópi sem og aðrar fylgiraskanir. Nálgun geðheilsuteymisins byggist meðal annars á skaðaminnkandi hugmyndafræði og nýtir áhugahvetjandi samtöl, stuðningsmeðferð, meðferð við fylgiröskunum, lyfjameðferð og/eða viðtöl í samráði við það sem skjólstæðingur hefur þörf á að vinna með og viðhaldsmeðferð við fíknivanda þegar það á við.
    Geðheilsuteymið á í góðu samstarfi við meðferðarsvið Fangelsismálastofnunar um innleiðingu meðferðar í fangelsum og er þegar farið af stað með geðfræðslunámskeið fyrir hópa. Þessari innleiðingu hefur miðað allvel og fyrirhuguð er áframhaldandi samvinna varðandi þetta.

     2.      Hvernig hefur gengið að efla geðheilsuteymi innan fangelsa og ganga tillögur í skýrslu stýrihóps um málefni fanga og um fjölda starfsfólks nægilega langt að mati ráðherra?
    Vel hefur gengið að efla og þróa geðheilsuteymi fangelsanna. Á árinu 2021 var aukið um eitt stöðugildi í teyminu líkt og lagt var til í tillögum skýrslu stýrihóps um málefni fanga og eru starfsmenn nú fimm talsins í 4,4 stöðugildum.

     3.      Telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónusta við fanga sé nægilega tryggð hér á landi?
    Starfsemi geðheilsuteymis fangelsanna hefur verið tryggður rekstrargrundvöllur á föstum fjárlögum. Hins vegar skortir sértæk meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem koma til vistunar í fangelsum sem glíma við þungar geð- og fíkniraskanir.

     4.      Hver er fjöldi fíknifræðinga og geðheilbrigðisstarfsfólks sem starfar innan fangelsa hér á landi og hvernig skiptist hópurinn?
    Geðheilsuteymi fangelsanna er skipað heilbrigðisstarfsmönnum sem eru með starfsleyfi frá embætti landlæknis. Teymið er skipað einum geðhjúkrunarfræðingi, einum hjúkrunarfræðingi, tveimur sálfræðingum og einum geðlækni sem er jafnframt sérfræðingur í fíknilækningum og heimilislækningum. Samtals eru 4,4 stöðugildi í teyminu.
    Fangelsismálastofnun hefur einnig meðferðaraðila á sínum snærum.