Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1414  —  673. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um samþættingu og aðkomu stjórnvalda að endurgerð Maríu Júlíu BA-36.


     1.      Telur ráðherra fýsilegt að veita verkefni Hollvinasamtaka um Maríu Júlíu BA-36, sem lýtur að endurgerð og nýju hlutverki skipsins, brautargengi í samstarfi við þau ráðuneyti og/eða undirstofnanir þeirra sem verkefninu tengjast á einn eða annan hátt?
     2.      Sér ráðherra, í ljósi þess að verkefnið tengist fjölda ráðuneyta og undirstofnunum þeirra, möguleika á því að samþætta verkstjórn undir einu ráðuneyti og/eða hafa með því yfirumsjón?


    Málefni skipsins hefur áður komið á borð forsætisráðuneytisins, nú síðast með erindi frá Hollvinasamtökum um Maríu Júlíu BA-36, dags. 1. apríl sl., um mögulega aðkomu stjórnvalda að endurgerð skipsins. Í erindinu er þess m.a. farið á leit við stjórnvöld að þau styrki fyrirhugaðan flutning skipsins í slipp á Húsavík og ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum 22. júní sl. að styrkja þann hluta verkefnisins um 15 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu, að tillögu forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem forsætisráðuneytið hefur er skipið friðað og telst til menningarminja, nánar tiltekið til fornminja og forngrips, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012.
    Málefni menningarminja heyra undir ábyrgðarsvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sbr. 3. tölul. 11. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, fer ráðherrann með yfirstjórn verndunar og vörslu menningarminja í landinu og annast Minjastofnun, sem er sérstök ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra, framkvæmd hennar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.
    Á grundvelli fagþekkingar sinnar gerir Minjastofnun tillögu til ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja í samráði við höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum, svo og önnur söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2012. Það kemur því í hlut umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds í málaflokknum að móta stefnu um málefni menningarminja og taka afstöðu til einstakra mála í samráði við sína undirstofnun, svo sem hvort og þá að hversu miklu leyti ríkið styðji við einstök verkefni.
    Þá er starfræktur sérstakur fornminjasjóður á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga nr. 80/2012, sem hefur það hlutverk að varðveita og rannsaka fornminjar. Sjóðurinn veitir styrki til rannsókna á fornminjum, þar á meðal til fornleifaskráningar, miðlunar upplýsinga um þær og til varðveislu og viðhalds á fornminjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja. Um úthlutun úr sjóðnum gilda reglur nr. 578/2014, sbr. 2. mgr. 42. gr. laganna.
    Samkvæmt framangreindu hvílir ábyrgð á stjórnarmálefninu og stefnumótun á málefnasviðinu, þ.m.t. ákvörðun um forgangsröðun fjármuna, á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hefur löggjafinn markað þessum málum ákveðinn farveg í lögum og er það mat forsætisráðuneytisins að ekki sé þörf á sérstakri verkstjórn eða samhæfingu af hálfu forsætisráðherra að svo stöddu. Þá er auk þess lögð sú skylda á ráðherra að þeir leitist við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið þeirra skarast, sbr. 2. málsl. 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.
    Óski fyrirspyrjandi eftir nánari upplýsingum um málefnið ber að beina fyrirspurn þar að lútandi til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.