Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1430  —  305. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um fjölda félagslegra íbúða.


     1.      Hver er heildarfjöldi íbúða í hverju sveitarfélagi?
    Heildarfjöldi íbúða er sóttur úr fasteignaskrá en íbúðir eru skráðar í hana þegar þær ná matsstigi 7 samkvæmt skilgreiningu Þjóðskrár Íslands. Hér er einungis miðað við íbúðarhúsnæði. Vísað er í fylgiskjal með svari þessu.

     2.      Hver er fjöldi félagslegra íbúða í hverju sveitarfélagi?
    Upplýsingar um fjölda félagslegra íbúða eru sóttar í húsnæðisáætlun sveitarfélaga sem skilað er til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í einhverjum tilvikum liggja ekki fyrir upplýsingar. Það getur helgast af því að viðkomandi sveitarfélag er ekki með félagslegt húsnæði eða hefur ekki skilað húsnæðisáætlun á stafrænu formi.
    Með félagslegum íbúðum í svari þessu er átt við íbúðir sem úthlutað er skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélaga, hvort sem þær eru í eigu sveitarfélagsins sjálfs, félags á þess vegum eða í eigu þriðja aðila en sveitarfélagið framleigir í því skyni. Meðtalin eru sértæk búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og íbúðir fyrir eldra fólk.
    Þá eru í fylgiskjali einnig tilgreindar svokallaðar almennar íbúðir en það eru hagkvæmar leiguíbúðir samkvæmt lögum nr. 52/2016, um almennar íbúðir, enda er markmið laganna að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Að því leyti sem þær íbúðir falla ekki undir félagsþjónustu sveitarfélaga eru þær ekki skilgreindar sem félagslegar íbúðir heldur hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði (e. affordable housing). Þess ber þó að geta að íbúðir sem eru ekki innan almenna íbúðakerfisins eða eru ekki í eigu sveitarfélaga falla ekki undir þessa upptalningu líkt og allar íbúðir Félagsstofnunar stúdenta og hluti íbúða Byggingarfélags námsmanna, hluti íbúða Brynju – Hússjóðs ÖBÍ, íbúðir Leigufélagsins Bríetar og fleiri.

     3.      Hvert er hlutfall félagslegra íbúða af heildaríbúðafjölda hvers sveitarfélags?
    Vísað er í dálk I í fylgiskjali.

     4.      Hversu margar félagslegar íbúðir eru áætlaðar á hverju ári næstu fimm árin í hverju sveitarfélagi?
    Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir í endanlegu formi. Stafrænar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga voru teknar í notkun um áramótin 2021–2022 og í þeim er gert ráð fyrir að sveitarfélög greini þörf fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vinnur nú að því með sveitarfélögum að samræma þarfagreiningu og skilgreiningar þannig að greining verði markvissari og áreiðanlegri.


Fylgiskjal.



www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1430-f_I.pdf