Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1449  —  614. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um tillögur Skipulagsstofnunar um að synja beri aðalskipulagi.


     1.      Telur ráðherra að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið í samræmi við lög þegar hún gerði tillögu um að synja bæri aðalskipulagi í Dalabyggð vegna vindorkugarða í sveitarfélaginu 13. júlí 2021 án þess að hún rökstyddi tillögu sína með greinargerð eins og áskilið er í 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010?
    Með ákvörðun innviðaráðherra í máli IRN22011084, dags. 5. apríl 2022, synjaði ráðherra staðfestingu breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins Dalabyggðar varðandi vindorkuver í sveitarfélaginu. Byggðist ákvörðun ráðherra á tillögu Skipulagsstofnunar, um að synja bæri áðurnefndum breytingum á aðalskipulagi, sem rökstudd var með greinargerð stofnunarinnar líkt og kveðið er á um í 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga.

     2.      Í hvaða málum hefur Skipulagsstofnun gert tillögu um að synja bæri aðalskipulagi á grundvelli 4. mgr. 32. gr. skipulagslaga frá 1. janúar 2011?
    Ákvæði skipulagslaga um að Skipulagsstofnun annist staðfestingu aðalskipulags og að hún skuli senda tillögu um synjun staðfestingar til ráðherra, ef stofnunin telur að synja beri staðfestingu, komu til við gildistöku skipulagslaga, nr. 123/2010, 1. janúar 2011.
    Skipulagsstofnun hefur frá 1. janúar 2011 gert tillögur um synjun á staðfestingu aðalskipulags í sex skipulagsmálum. Málin eru eftirfarandi:
     1.      Tillaga um synjun á staðfestingu að hluta á aðalskipulagi Mýrdalshrepps 2012–2028 varðandi nýja veglínu Hringvegar um Mýrdal, sbr. erindi til umhverfisráðuneytisins dags. 16. júlí 2012. Ráðherra staðfesti aðalskipulagið þann 5. mars 2013.
     2.      Tillaga um synjun á staðfestingu að hluta á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013– 2030 varðandi nýjar flugbrautir og stefnu um uppbyggingu, sbr. erindi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins dags. 31. janúar 2017. Ráðherra staðfesti aðalskipulagið þann 29. ágúst 2017.
     3.      Tillaga um synjun á staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Mýrdalshrepps varðandi efnistöku í Víkur- og Fagradalsfjöru, sbr. erindi til innviðaráðuneytisins dags. 22. desember 2021. Ráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna þann 12. apríl 2022.
     4.      Tillaga um synjun á staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps varðandi vindorkuver í landi Garpsdals, sbr. erindi til innviðaráðuneytisins dags. 10. desember 2021. Ráðherra synjaði staðfestingu á aðalskipulagsbreytingunni þann 5. apríl 2022.
     5.      Tillaga um synjun á staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar varðandi vindorkuver að Hróðnýjarstöðum, sbr. erindi til innviðaráðuneytisins dags. 28. desember 2021. Ráðherra synjaði staðfestingu á aðalskipulagsbreytingunni þann 5. apríl 2022.
     6.      Tillaga um synjun á staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar varðandi vindorkuver að Sólheimum, sbr. erindi til innviðaráðuneytisins dags. 28. desember 2021. Ráðherra synjaði staðfestingu á aðalskipulagsbreytingunni þann 5. apríl 2022.