Ferill 697. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1450  —  697. mál.
Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Þorgrími Sigmundssyni um byggð í Nýja-Skerjafirði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra hindra áform Reykjavíkurborgar um byggð í Nýja-Skerjafirði eins og þarf til að verja Reykjavíkurflugvöll?

    Þann 28. nóvember 2019 undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík Samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Samkvæmt því hefur Reykjavíkurborg skuldbundið sig til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur.
    Þetta er í samræmi við gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 þar sem segir að miða skuli við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt á meðan annar jafn góður eða betri kostur er ekki fyrir hendi.
    Fyrir liggur að mati Isavia að hin nýja byggð sem fyrirhuguð er í Skerjafirði mun að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á vindafar og ókyrrð í lofti við Reykjavíkurflugvöll. Ljóst má vera að mótvægisaðgerðir yrðu íþyngjandi og aðeins leiða til takmarkana á nýtingu Reykjavíkurflugvallar frá því sem nú er. Ný byggð í Skerjafirði mun því að óbreyttu draga úr rekstraröryggi flugvallarins sem er í beinni andstöðu við framangreint samkomulag.
    Þá liggur jafnframt fyrir mat frá Samgöngustofu um að framkvæmdir og áhrif þeirra á öryggissvæði og flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli geta valdið frekari rekstrartakmörkunum í starfsleyfi hans og jafnvel kallað á lokun hans að hluta. Slíkt myndi augljóslega ganga gegn framangreindu samkomulagi en einnig stofna flugöryggi og rekstraröryggi flugvallarins sem innanlands- og sjúkra- og varaflugvallar í hættu.
    Ekki er unnt að fallast á áætlanir Reykjavíkurborgar um fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu og óásættanlegt er að farið sé í slíkar framkvæmdir án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti verði tryggt að þær hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Ráðherra mun því hvorki geta fallist á að farið verði í umræddar framkvæmdir í Skerjafirði né aðrar slíkar framkvæmdir í næsta nágrenni við flugvöllinn nema sýnt hafi verið með óyggjandi hætti fram á að flugöryggi og rekstraröryggi sé ekki stefnt í hættu.
    Reykjavíkurborg ber því að sjá til þess að ekki séu hafnar framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll nema tryggt sé að þær valdi hvorki skerðingu á flugöryggi né rekstraröryggi flugvallarins að mati bæði Isavia, rekstraraðila flugvallarins og Samgöngustofu, sem fer með eftirlit með öryggi hans.