Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1453  —  26. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um endurskipulagningu fjármálakerfisins.


     1.      Hvaða skref hefur ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins tekið í átt að endurskipulagningu fjármálakerfisins?
    Hlutverk ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal þeirra verkefna sem nefndin fjallar um er framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Nefndin er auk þess stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins og uppbyggingu fjármálakerfisins. Þá er henni jafnframt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi.
    Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra eiga fast sæti í nefndinni.
    Ráðherranefndin fundaði 60 sinnum á síðasta kjörtímabili og sex fundir hafa verið haldnir í nefndinni það sem af er þessu kjörtímabili. Strax á fyrsta fundi nefndarinnar þann 11. desember 2017 var hafinn undirbúningur að gerð hvítbókar um fjármálakerfið. Hvítbókin kom út í árslok 2018 og var kynnt fyrir Alþingi. Reglulega er fjallað um endurskipulagningu fjármálakerfisins á fundum nefndarinnar. Hvítbókin var á dagskrá á sjö fundum ráðherranefndar, sala Arion banka á 15 fundum og sala Íslandsbanka á 14 fundum. Einnig hefur töluvert verið fjallað um endurskoðun á ramma peningastefnu, lög um Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið og sameiningu þessara stofnana.
    Bankasýsla ríkisins hefur farið með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og hefur heimildir til að leggja þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimilda í fjárlögum. Bankasýslu ríkisins er í starfsemi sinni ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.
    Það er jafnframt hlutverk Bankasýslu ríkisins að meta og setja skilyrði um endurskipulagningu og sameiningu fjármálafyrirtækja með hliðsjón af hlutverki og markmiðum stofnunarinnar og eigendastefnu ríkisins, og gera tillögur til ráðherra um hvort og hvenær tilteknir eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum verða boðnir til sölu á almennum markaði með hliðsjón af markmiðum stofnunarinnar og í samræmi við gildandi lög og markmið um dreifða eignaraðild.

     2.      Við hverja hyggst ráðherranefndin leita samráðs um framtíðarskipulag fjármálakerfisins og framtíðarfyrirkomulag peningamála?
    Í mars árið 2017 var skipaður sérstakur starfshópur um endurmat á ramma peningastefnunnar og skilaði hann skýrslu sinni í júní 2018. Starfshópurinn lagði til 11 tillögur um umgjörð varúðartækja, endurbætt verðbólgumarkmið, markvissari beitingu stjórntækja Seðlabankans og ákvörðunarferli peningastefnunnar. Lögð var sérstök áhersla á að fjármálastöðugleiki hafi forgang á verðstöðugleika sé hætta talin á að stöðugleika fjármálakerfisins verði raskað. Þá var lögð áhersla á að ábyrgð Seðlabanka Íslands yrði aukin og að hann bæri einn ábyrgð á þjóðhagsvarúð og eindavarúð í stað þess að ábyrgðin skiptist á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Að mati starfshópsins er ekkert sem bendir til annars en að verðbólgumarkmið geti gengið upp hérlendis með sambærilegum hætti og hefur tekist á Norðurlöndum. Í kjölfarið voru breytingar gerðar á lögum um Seðlabanka Íslands og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinuð í eina stofnun.
    Um endurskipulagningu fjármálakerfisins er fyrst og fremst leitað samráðs við Bankasýslu ríkisins, sbr. það sem að framan greinir.
    Um þessar mundir er teymi sérfræðinga að leggja mat á árangur bankans við að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits, sbr. 36. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019. Einnig er að störfum starfshópur sem hefur það markmið að vinna tillögur að breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands sem taka mið af tillögum úttektarnefndar sem lagði mat á reynsluna af því nefndarkerfi sem tekið var upp árið 2020 í kjölfar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þá hefur verið leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um úttekt á virkni fjármálaeftirlits- og stöðugleika.
    Í skýrslu forsætisráðherra til Alþingis um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóð og viðbrögð við þeim, sem flutt var á 151. löggjafarþingi, er auk þess fjallað um fjölþættar og umfangsmiklar umbætur sem gerðar hafa verið á íslensku stjórnkerfi og fjármálakerfi í kjölfar fjármálakreppunnar. Þar er m.a. bent á að með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í ársbyrjun 2020 hafi smiðshöggið verið rekið varðandi sameiningu yfirsýnar og tækja til að stuðla að fjármálastöðugleika á einn stað. Um leið voru skapaðar mun betri forsendur fyrir samþættingu eindar- og þjóðhagsvarúðar annars vegar og, eftir því sem við á, peningastefnu og fjármálastöðugleikastefnu hins vegar.

     3.      Hvenær má búast við því að ráðist verði í endurskipulagningu fjármálakerfisins?
    Líkt og rakið er að framan hefur vinna við endurskipulagningu fjármálakerfisins staðið yfir síðustu ár sem hefur m.a. byggst á hvítbók um fjármálakerfið og sölu á hlut ríkisins í bönkunum.

     4.      Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um skipulag fjármálakerfisins?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar 2017 var sett það markmið að fjármálakerfið skuli vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Leita átti leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum en stefna þó að því að ríkissjóður verði áfram leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun. Þessi markmið hafa ekki breyst.
    Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið var lögð fyrir Alþingi árið 2018. Leiðarljósin í þeirri vinnu voru aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleiki. Þrjár meginstoðir um framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis eru gott regluverk og öflugt eftirlit, hagkvæmni í bankarekstri og traust eignarhald fjármálafyrirtækja. Lögð var áhersla á lægri vexti og betri kjör. Einnig að draga úr víðtæku eignarhaldi ríkisins til að draga úr áhættu, fórnarkostnaði og neikvæðum samkeppnisáhrifum.

    Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að ríkissjóður muni halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða.

     5.      Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um fyrirkomulag peningamála?
    Sjálfstæð peningastefna með verðbólgumarkmiði sem studd er þjóðhagsvarúðartækjum og öflugu fjármálaeftirliti ásamt ábyrgri stjórn opinberra fjármála hefur reynst Íslendingum vel undanfarinn rúman áratug. Slíkt fyrirkomulag peningamála er líklegast til að ná því markmiði að hagkerfið einkennist af vexti og velsæld, sem eru leiðarljós ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin leggur af þeim sökum áherslu á að samspil peningastefnu, ríkisfjármála og vinnumarkaðar verði undirstaða þess að unnt sé að tryggja stöðugleika verðlags og vaxta. Þótt verðbólga hafi hækkað að undanförnu, og sé vel yfir markmiði, er mikilvægt að líta til þess að núverandi fyrirkomulag efnahagsmála hefur átt ríkan þátt í því að verðbólga er hér á landi næst lægst allra Evrópuríkja, að Sviss undanskildu, ef verðbólga er metin á samræmdan evrópskan mælikvarða (samræmda vísitölu neysluverðs, HICP).
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar 2021 kemur fram að gerð verði úttekt á starfsemi Seðlabanka Íslands og mat lagt á hvernig tekist hefur til við að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fármálaeftirlits auk þess sem litið verður til reynslunnar af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem og skipulagi, verkaskiptingu og valdsviði nýrrar stofnunar. Þessar úttektir standa nú yfir.