Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1468  —  27. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um endurskoðun neysluviðmiða.


     1.      Hver er staðan á endurskoðun opinberra neysluviðmiða sem hófst á síðasta kjörtímabili?
    Neysluviðmið voru fyrst birt árið 2011 og hafa síðan þá verið uppfærð átta sinnum, síðast í október árið 2019. Neysluviðmið byggjast á útgjaldarannsókn heimilanna, sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands, en megintilgangur hennar er að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs. Viðmiðin hafa frá upphafi verið reiknuð út frá nýjustu gögnum yfir þriggja ára tímabil og þess á milli uppfærð með breytingu undirvísitalna vísitölu neysluverðs hafi ný gögn ekki legið fyrir.
    Neysluviðmið sem birt voru í október 2019 voru unnin á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á árunum 2013 til 2016, líkt og neysluviðmið sem birt voru árið 2018 þrátt fyrir að nýjasta gagnasettið væri frá árunum 2014 til 2017. Nýrri gögnin yfir útgjöld buðu hins vegar ekki upp á nauðsynlega sundurliðun útgjalda, sem útreikningar neysluviðmiða krefjast. Af þeim sökum voru viðmið ársins 2018 framlengd með undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern útgjaldaflokk fyrir sig. Uppfærslur neysluviðmiða árin 2018 og 2019 voru unnar af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið.
    Sem fyrr segir byggjast neysluviðmið á útgjaldarannsókn heimilanna, sem framkvæmd er af Hagstofu Íslands, og uppfyllir hún það hlutverk sem henni er ætlað, þ.e. að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs, en ljóst er að rannsóknin er ekki framkvæmd í þeim tilgangi að nýta skuli hana við útreikning neysluviðmiða. Sérfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa bent á að gagnasettin úr rannsókninni séu ekki lengur fullnægjandi til þess að nýta við útreikning neysluviðmiða í þeirri mynd sem þau hafa verið gefin út. Í ljósi framangreinds var talið nauðsynlegt að skoða hvort breyta þyrfti aðferðafræðilegri nálgun við útreikning neysluviðmiða.
    Í kjölfarið skipaði félags- og barnamálaráðherra starfshóp um neysluviðmið í janúar 2020 en verkefni starfshópsins var að yfirfara og endurskoða þá aðferðafræði sem notuð er við útreikninga neysluviðmiða sem ráðuneytið birtir. Eins var það verkefni starfshópsins að skoða hvort rétt sé að færa útgáfu neysluviðmiða frá ráðuneytinu til þess að staðfesta enn frekar hlutleysi útreikninganna. Í starfshópnum um neysluviðmið voru fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og umboðsmanni skuldara en fulltrúi ráðuneytisins starfaði með hópnum. Hagstofa Íslands kaus að tilnefna ekki fulltrúa.
    Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum haustið 2020 en helstu niðurstöður voru að ýmsir annmarkar væru á samspili gagna sem notuð eru sem undirlag í útreikningum neysluviðmiða og þeirrar aðferðafræði sem notuð er. Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að það hvernig neysluviðmið eru nýtt í dag færi ekki saman við upprunaleg markmið um notkun þeirra. Starfshópurinn taldi því að endurskoða þyrfti þá aðferðafræði sem beitt hefur verið við útreikning neysluviðmiða hér á landi. Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að það væri óraunhæft að svo ítarleg viðmið, sem lagt var upp með í fyrstu útgáfunni árið 2011 (Jón Þór Sturluson, Guðný Björk Eydal og Andrés Júlíus Ólafsson. (2011). Íslensk neysluviðmið. Reykjavík: Velferðarráðuneytið.), geti byggst á núverandi útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands. Því bæri að endurskoða íslensk neysluviðmið í heild. Taka þurfi ákvörðun um nýja nálgun á reikniaðferð með hliðsjón af endanlegri notkun viðmiðanna og fyrirliggjandi gögnum.
    Í ljósi framangreinds fer nú fram í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu heildarendurskoðun á allri umgjörð neysluviðmiða með það að markmiði að finna lausn til framtíðar.

     2.      Hvenær má búast við því að endurskoðuð neysluviðmið líti dagsins ljós?
    Líkt og fram hefur komið er nú unnið að heildarendurskoðun á allri umgjörð neysluviðmiða í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Ekki liggur ljóst fyrir á þessum tímapunkti hvenær endurskoðuð neysluviðmið líti dagsins ljós en markmiðið með heildarendurskoðuninni er að finna lausn til framtíðar og unnið er að því að það geti gerst sem fyrst.