Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1473  —  25. mál.
Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um grunnatvinnuleysisbætur.


     1.      Hvers vegna hækkaði ráðherra grunnatvinnuleysisbætur um 2% með reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, 29. desember 2021 en ekki um 4,6% eins og fram kom á bls. 134 í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 að yrði gert?
    Með reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, voru óskertar grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar um 4,6% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 1296/2020, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, átti sá sem telst að fullu tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar rétt til óskertra grunnatvinnuleysisbóta sem námu 299.933 kr. á mánuði á gildistíma reglugerðarinnar. Í ákvæði til bráðabirgða í sömu reglugerð kom fram að þrátt fyrir 2. gr. reglugerðarinnar skyldi sá sem telst að fullu tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eiga rétt til óskertra grunnatvinnuleysisbóta sem skyldu nema 307.430 kr. á mánuði á tímabilinu 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2021 í ljósi aðstæðna á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Var þannig greitt tímabundið 2,5% viðbótarálag á grunnatvinnuleysisbætur á árinu 2021 í ljósi aðstæðna á vinnumarkaði og í samræmi við tillögu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og félags- og barnamálaráðherra sem samþykkt var á fundi ráðherranefndar um ríkisfjármál 12. nóvember 2020.
    Reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, gildir um fjárhæð atvinnuleysistrygginga sem reiknast frá og með 1. janúar 2022 og síðar en samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar nema óskertar grunnatvinnuleysisbætur 313.729 kr. á mánuði og er sú fjárhæð 4,6% hærri en fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt 2. gr. reglugerðar 1296/2020. Frá og með gildistöku gildandi reglugerðar nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, var felld úr gildi reglugerð nr. 1296/2020 um sama efni.

     2.      Hafði ráðherra samráð við aðra ráðherra í ríkisstjórn þegar hann ákvað að hækka grunnatvinnuleysisbætur minna en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2022?
    Líkt og rakið er í svari við 1. tölul. voru óskertar grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar um 4,6% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga með reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, og voru því hækkaðar í samræmi við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2022.
     3.      Hversu mjög hafa grunnatvinnuleysisbætur rýrnað að raunvirði í ár, sundurliðað eftir mánuðum?
    Vísað er til svars við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.


     4.      Hversu mjög munu grunnatvinnuleysisbætur rýrna að raunvirði til ársloka 2022 ef bæturnar verða ekki hækkaðar, sundurliðað eftir mánuðum?
    Grunnatvinnuleysisbætur hækkuðu um 4,6% 1. janúar 2022, sbr. verðlagsforsendur fjárlaga fyrir árið 2022 (sjá bls. 133–134 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022).
    Í nýjustu verðbólguspá sinni frá 24. ágúst 2022, eins og hún birtist í Peningamálum 2022/3, gerir Seðlabanki Íslands (SÍ) ráð fyrir að verðbólga á árinu 2022 verði að meðaltali 8,8%. Miðað við spá SÍ um verðbólgu á árinu 2022 má áætla að bætur þyrftu að hækka um 4,2% til viðbótar þannig að þær haldi verðgildi sínu í árslok sem jafngildir 13.177 kr. ofan á núverandi bótafjárhæð.
    Í verðbólguspá SÍ er ekki tilgreind áætluð þróun verðlags milli mánaða á árinu og því ekki unnt að leggja mat á raunrýrnun grunnatvinnuleysisbóta sundurliðað eftir mánuðum. Þegar verðbólga innan ársins hefur hins vegar náð 4,6% byrja grunnatvinnuleysisbætur að rýrna að raunvirði; með öðrum orðum hefur verðbólgan þá unnið upp þær verðbætur sem tilgreindar eru í fjárlögum fyrir árið 2022 sem ætlað var að mæta áætluðum verðlagshækkunum á árinu 2022, sbr. framangreint. Hækkun á vísitölu neysluverðs frá janúar til og með maí 2022 var 4,17%, hækkun vísitölunnar frá janúar til og með júní var 5,64%. Því má ætla að kaupmáttur grunnatvinnuleysisbóta hafi byrjað að rýrna að raunvirði í júní 2022. Ef þessum 13.177 kr., sem ætla má að geti vantað upp á verðbætur í árslok, sbr. það sem að framan er sagt, er jafnskipt á síðustu sjö mánuði ársins jafngildir það um 1.882 kr. á mánuði.

     5.      Hvers vegna hækkaði ráðherra ekki grunnatvinnuleysisbætur um sömu prósentutölu og bætur almannatrygginga samhliða mótvægisaðgerðum vegna verðbólgu sem samþykktar voru á Alþingi 24. maí 2022?
    Í ljósi aðstæðna á innlendum vinnumarkaði hafa ekki komið til skoðunar frekari hækkanir á fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta en kveðið var á um með reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, en skráð atvinnuleysi hefur farið lækkandi undanfarna mánuði og eftirspurn eftir starfsfólki verið mikil.

     6.      Telur ráðherra að fólk á grunnatvinnuleysisbótum þoli betur verðhækkanir en hópar sem komið var til móts við með beinum hætti með áðurnefndum lögum?
    Hinn 24. maí 2022 var samþykkt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur. Með frumvarpinu var m.a. lagt til að greiddur yrði sérstakur barnabótaauki og að húsnæðisbætur yrðu hækkaðar í því skyni að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Hvorki barnabætur né húsnæðisbætur koma til frádráttar atvinnuleysisbótum og má því ætla að framangreindar aðgerðir hafi nýst einstaklingum sem fá greiddar grunnatvinnuleysisbætur og uppfylla jafnframt skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta eða barnabóta.