Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 29  —  29. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006 (bein framlög frá lögaðilum).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Valgerður Árnadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    1.–3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka á móti beinum framlögum frá lögaðilum. Allir afslættir lögaðila af vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði skulu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar sem inna af hendi einhvers konar framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, í formi afslátta eða hvers konar efnislegra gæða, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum og gera Ríkisendurskoðun sérstaklega grein fyrir þeim afslætti. Telja skal saman framlög tengdra aðila. Afslættir mega ekki vera umfram það sem öðrum viðskiptavinum stendur almennt til boða.
    Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá einstaklingum umfram þetta, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 400.000 kr. á ári.
    Stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, mega að hámarki nema sem svarar til tvöföldu hámarksframlagi skv. 1. málsl. 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi taka strax gildi.

Greinargerð.

    Markmið laga nr. 162/2006 er skv. 1. gr. „að auka traust á stjórnmálastarfsemi, tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála“. Fram kemur í greinargerð frumvarps til þeirra laga að markmiðið sé jafnframt að berjast gegn spillingu. Núverandi löggjöf stuðlar að ójafnræði borgaranna þegar kemur að styrkjum til stjórnmálasamtaka. Kveðið er á um hámarksfjárhæðir sem stjórnmálasamtök mega taka á móti frá einstaklingum annars vegar og lögaðilum hins vegar í 7. gr. laganna. Tilgangur með hámarksfjárhæðum er sá að enginn einn aðili geti í krafti fjárhagsstöðu sinnar styrkt stjórnmálasamtök um það háar fjárhæðir að hætta skapist á spillingu. Hætt er við að stjórnmálasamtök eða stjórnmálafólk freistist til að gæta frekar hagsmuna styrktaraðila umfram hagsmuni almennings þegar svo stendur á. Því er mikilvægt að borgararnir njóti jafnræðis þegar kemur að styrkveitingum.
    Þeir einstaklingar sem eiga fyrirtæki geta ekki aðeins styrkt stjórnmálasamtök persónulega heldur einnig í krafti fyrirtækja sinna. Þetta fyrirkomulag er ólíðandi í lýðræðissamfélagi og fer í raun þvert á markmið laganna um að tryggja gagnsæi, jafnræði og að berjast gegn spillingu. Því er lagt til í frumvarpi þessu að fella brott heimild lögaðila til að styrkja stjórnmálasamtök og stjórnmálafólk með beinum hætti.
    Fyrirtæki geta einnig styrkt stjórnmálasamtök óbeint. Það er ekki óalgengt að fyrirtæki gefi jafnvel þjónustu sína eða veiti meiri afslátt en gengur og gerist gagnvart öðrum viðskiptavinum. Því er nauðsynlegt að það sé greint frá því á gagnsæjan hátt til þess að aðrir viðskiptavinir geti notið sömu kjara.