Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 44  —  44. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (skerðing á lífeyri vegna búsetu).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal takmarka réttindi samkvæmt lögum þessum vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hlutaðeigandi nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (71. mál) og er nú lagt fram með þeirri breytingu að orðalag 1. gr. hefur verið gert hlutlaust gagnvart ríkisfangi, samkvæmt ábendingum í umsögnum um málið á fyrri stigum.
    Réttur til almannatrygginga á Íslandi er skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru í dag framkvæmdar óháð því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar.
    Undanfarin ár hafa verið miklar deilur milli stjórnvalda og lífeyrisþega vegna búsetuskerðinga. Sú aðferð sem Tryggingastofnun hefur beitt við ákvörðun búsetuhlutfalls var borin undir umboðsmann Alþingis og taldi hann að aðferðin væri ólögleg. Þar að auki komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluaðstoð þar sem ákvæði í reglugerð ráðherra skorti lagastoð.
    Eftir mikla baráttu eldri borgara samþykkti Alþingi í vor lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þau lög veita öldruðum rétt á framfærslustuðningi sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þessi viðbótarstuðningur er ætlaður þeim sem vegna búsetu sinnar erlendis eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri. Þrátt fyrir að stuðningurinn veiti kærkomna aðstoð eru skilyrðin fyrir aðstoðinni ströng. Þar er til að mynda aftur komið á „krónu á móti krónu“-skerðingu.
    Vegna baráttu lífeyrisþega gegn stjórnvöldum er nú búið að leiðrétta hlut margra sem liðu ólöglegar skerðingar árum saman. Eftir stendur þó að í fjölmörgum tilvikum viðgangast umfangsmiklar skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna búsetu lífeyrisþega erlendis. Auk þess fá þeir ellilífeyrisþegar sem fá greiddan viðbótarstuðning aðeins 90% af réttindum sínum. Til þess að réttlætið nái fram að ganga þarf að breyta lögunum.
    Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um hvaða áhrif búseta lífeyrisþega hafi á rétt hans til ellilífeyris. Í öðrum réttindaflokkum laganna er vísað í þær reglur sem koma fram í 17. gr. og er því miðað við sömu reglur til að reikna út örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu.
    Sú reikniregla sem kemur fram í 1. mgr. 17. gr. laganna leggur til grundvallar að full réttindi til ellilífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Hafi viðkomandi búið hér á landi skemur en 40 ár á umræddu tímabili skerðast réttindi hans hlutfallslega í samræmi við það. Þessar búsetuskerðingar eru framkvæmdar óháð því hvort búseta viðkomandi erlendis veiti honum sams konar fjárhagsleg réttindi.
    Í 68. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um að heimilt sé að semja á milli ríkja um hvernig skuli ákvarða réttindi fólks út frá búsetutíma. Ísland hefur gert slíka samninga við nokkur ríki og á milli EES-ríkjanna gildir sérstakur samningur sem kveður á um að réttindi glatist ekki vegna flutnings til annars EES-ríkis. Eftir stendur að fjöldi ríkja hefur ekki gert slíka samninga við Ísland. Sem dæmi getur það skert rétt til örorku ef viðkomandi hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um árabil, þó svo að viðkomandi hafi fyrst verið metinn öryrki eftir að hafa flust aftur til Íslands. Í slíku tilviki á viðkomandi engan rétt á sambærilegum greiðslum erlendis frá og þeim sem hann missir. Þetta er ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu og fer á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er eitt að lífeyrir skerðist vegna lífeyrisgreiðslna erlendis frá, en þegar lífeyrir er skertur vegna þess eins að einstaklingur hefur um tíma verið búsettur í öðru landi þá er það ekkert nema mismunun.
    Til að koma í veg fyrir slíka mismunun er lagt til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar. Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegar áður búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.