Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 104  —  104. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.


Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristrún Frostadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar og felur heilbrigðisráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis eigi síðar en í maí 2023.

Greinargerð.

    Tillaga sama efnis var lögð fram á 152. löggjafarþingi (58. mál). Áður hafði Ágúst Ólafur Ágústsson verið fyrsti flutningsmaður samhljóða tillögu á 151. löggjafarþingi (816. mál).
    Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi álykti að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar og að heilbrigðisráðherra verði falið að leggja fram frumvarp þess efnis eigi síðar en í maí 2023. Tannréttingar barna heyra undir heilbrigðismál barna og telja flutningsmenn óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra og leggja því til að tannréttingar barna verði gerðar gjaldfrjálsar eins og tannlækningar barna sem voru gerðar að fullu gjaldfrjálsar árið 2018. Kostnaður við tannréttingameðferð barns getur hæglega farið yfir eina milljón króna og meðferðin tekur að meðaltali þrjú ár. Foreldrar bera nú kostnaðinn og efnaminni foreldrar veigra sér við að ráðast í tannréttingar barna sinna.
    Tann- og bitskekkjur erfast gjarnan innan fjölskyldna og því getur töluverður kostnaður lagst á þær þegar fleiri en einn fjölskyldumeðlimur getur þurft á tannréttingum að halda.
    Þessi staða er ólíðandi og því er mikilvægt að Alþingi gefi út viljayfirlýsingu um að börnum verði ekki mismunað þegar kemur að tannréttingum.

Tannréttingar eru út undan.
    Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013 með undirritun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Samningurinn var innleiddur í áföngum þar sem markmiðið var að tannlækningar fyrir börn 17 ára og yngri yrðu þeim að kostnaðarlausu að undanskildu árlegu komugjaldi. Til að byrja með tók samningurinn til barna 15, 16 og 17 ára og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt tímasettri áætlun þar til hann náði til allra barna þegar innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar 2018. Samkvæmt samningnum greiða SÍ núna að fullu fyrir tannlækningar barna, 17 ára og yngri, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald. Árið 2021 er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði 2,6 milljarðar kr.
    Um 30% af hverjum árgangi nýta sér nú þjónustu tannréttingalækna. Áætla má að kostnaður við gjaldfrjálsar tannréttingar barna geti numið um 1,5 milljörðum kr. sem er langtum lægri en kostnaðurinn við allar tannlækningar barna.

Núverandi kerfi mismunar eftir efnahag.
    Markmið samningsins um tannlækningar barna er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Að mati flutningsmanna á slíkt markmið einnig við þegar kemur að tannréttingum barna.
    Núverandi kerfi mismunar börnum eftir efnahag foreldra enda geta tannréttingar fyrir börn verið mjög kostnaðarsamar og dæmi eru um að meðferðir hafi kostað á aðra milljón króna. Efnaminni foreldrar hafa því augljóslega ekki sömu möguleika og þeir sem meira hafa á milli handanna til að tryggja börnum sínum nauðsynlegar tannréttingar. Að mati bæði núverandi og þáverandi formanns Tannréttingafélags Íslands er nokkuð algengt að foreldrar sjái sér ekki fært að láta rétta tennur barna sinna vegna mikils kostnaðar.
    Það er því alveg ljóst að félitlar fjölskyldur hafa ekki efni á að senda börn sín í tannréttingar, hvað þá ef mörg börn innan sömu fjölskyldu þurfa á tannréttingum að halda. Í þeim tilfellum þar sem nauðsynlegt þykir að barn undirgangist tannréttingameðferð er langoftast um að ræða bit- eða tannskekkju sem er meðfæddur galli og því ekki hægt að koma í veg fyrir. Benda má á að hið opinbera greiðir að fullu fyrir aðgerðir til að bæta úr meðfæddum göllum hjá börnum annars staðar í líkamanum en í tyggingarfærum.

Núverandi styrkjaumhverfi: Ekki breyst í 20 ár.
    Fram til ársins 1992 var í gildi samningur á milli tannréttingasérfræðinga og Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu á tannréttingum. Samningurinn náði til flestra tryggðra sjúklinga með bit- og tannskekkjur og var verulegur hluti af tannréttingakostnaði endurgreiddur. Í ársbyrjun 1992 voru hins vegar sett lög sem bundu enda á allar endurgreiðslur vegna venjulegra tannréttinga. Það þýddi að þeir sjúklingar sem þurftu á tannréttingum að halda fengu um tíma ekkert endurgreitt.
    Nú greiða SÍ hins vegar hluta kostnaðar vegna nauðsynlegra tannréttinga samkvæmt ákvæðum IV. og V. kafla reglugerðar nr. 451/2013. Skilyrði er að tannréttingasérfræðingur veiti þjónustuna. SÍ veita 100.000 kr. styrk vegna tannréttingameðferðar með föstum spöngum á a.m.k. 10 fullorðinstennur annars gómsins en 150.000 kr. styrk vegna meðferðar á báðum gómum. Þessi styrkupphæð hefur ekki breyst í 20 ár og ekki einu sinni haldið í við verðlagsþróun. Hefði styrkurinn verið vísitölutengdur og fylgt eðlilegu verðlagi væri hann nú um 370.000 kr.
    Flutningsmenn telja því ljóst að þessir styrkir dugi oft skammt og í mörgum tilvikum alls ekki enda er algengur kostnaður við tannréttingar barna um 0,8–1,2 millj. kr.
    Skilyrði fyrir því að fá slíkan styrk frá SÍ er að meðferð með föstum tækjum hefjist fyrir 21 árs aldur og að viðkomandi hafi ekki áður fengið styrk vegna tannréttinga.
    SÍ hafa greitt um 220 millj. kr. í slíka styrki til um 1.840 barna og dugir það of skammt.
    Ef um alvarlegri tilvik er að ræða greiða SÍ 95% af þeim kostnaði sem hlýst af meðferð hjá tannréttingasérfræðingi. Þetta á t.d. við um meðferð vegna klofins góms, meðfæddrar vöntunar á a.m.k. fjórum fullorðinstönnum eða í ákveðnum tilvikum þegar skurðaðgerð þarf til leiðréttingar á biti. Ekki er samningur um slíka þjónustu heldur er greitt eftir gjaldskrá viðkomandi sérfræðings.
    SÍ hafa árlega niðurgreitt um 420 meðferðir vegna alvarlegra tilvika hjá börnum fyrir um tæplega 200 millj. kr. á ári.
    Enn fremur eru styrkir veittir fyrir tveimur ferðum vegna tannréttinga á ári. Skilyrði er að viðkomandi njóti styrks vegna tannréttinga. Þá er greiddur styrkur vegna ítrekaðra ferða sökum alvarlegustu tilvikanna. Í öllum tilvikum þarf að sækja fyrir fram um greiðsluþátttöku SÍ, bæði vegna tannréttinga og ferðastyrkja.

Ekki einungis læknisfræðileg nauðsyn að baki.
    Hér er lagt til að auk nauðsynlegra tannréttinga sem gerðar eru af læknisfræðilegum ástæðum verði aðrar tannréttingar sem tannlæknir metur að bæti lífsgæði barns einnig gerðar gjaldfrjálsar. Ekki er þó gert ráð fyrir að allar hugsanlegar tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar, svo sem þær sem út frá læknisfræðilegu sjónarmiði teljast minni háttar. Að því sögðu leggja flutningsmenn áherslu á að hið opinbera setji ekki of þröng skilyrði fyrir greiðsluþátttöku því oft geta tannréttingar bætt sjálfsmynd og heilsu barns með ýmsum hætti. Flutningsmenn leggja því til að tannréttingasérfræðingar og tannlæknar í samráði við heilbrigðisráðuneytið komi sér saman um þau skilyrði sem skuli gilda um hvaða tilvik skuli vera gjaldfrjáls og hver ekki. Lögð er áhersla á að heilbrigðisráðuneytið hafi samráð við tannlækna og tannréttingasérfræðinga við samningu frumvarpsins.
    Þá leggja flutningsmenn áherslu á að gjaldfrelsið taki gildi sem fyrst og eðlilegt markmið væri næsta fjárlagaár. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en í maí 2023.

Mun meiri styrkir í Noregi.
    Annars staðar á Norðurlöndunum eru tannréttingar barna styrktar mun meira en á Íslandi. Í Noregi hefur t.d. lengi verið við lýði umfangsmikið endurgreiðslukerfi þar sem kostnaður við tannréttingameðferð er endurgreiddur í samræmi við umfang bit- eða tannskekkju annars vegar og fjölda systkina sem þurfa tannréttingu hins vegar. Þar eru þrír endurgreiðsluhópar skilgreindir eftir umfangi skekkjunnar. Í fyrsta hópnum eru þeir sem þurfa mest á tannréttingu að halda og fá þeir allan kostnað endurgreiddan. Þeir sem eru í hópi tvö fá 75% kostnaðar endurgreiddan og þriðji hópurinn fær 40% endurgreiðslu.
    Fyrsti hópurinn, sem fær fulla endurgreiðslu, er sambærilegur þeim hópi sem fær nú 95% endurgreiðslu á Íslandi. Meðferðir við eftirfarandi skekkjum eru greiddar að fullu:
     1.      Klofin vör og gómur.
     2.      Meðfæddir höfuðbeinagallar.
     3.      Bitskekkjur er krefjast kjálkaskurðaðgerða til leiðréttingar.
    Annar hópurinn fær 75% endurgreiðslu en undir hann falla eftirfarandi alvarlegar bitskekkjur:
     1.      Lárétt yfirbit, níu millimetrar og meira.
     2.      Unilateralt þvingað kross- eða saxbit á þremur eða fleiri tönnum.
     3.      Opið bit með bitsnertingum, einungis á jöxlum.
     4.      Retineraðar framtennur, augntennur eða forjaxlar.
     5.      Undirbit og kant-í-kant bit á framtönnum, með eða án þvingunar.
     6.      Meðfædd tannvöntun eða tap á framtönnum. Einnig framtennur sem ekki eruptera með eðlilegum hætti.
     7.      Djúpt bit með gómsnertingu palatinalt eða buccal á mótlægum tönnum á tveimur eða fleiri tönnum; einnig Cl. II div. 2 ef gómbit er fyrirsjáanlegt.
     8.      Saxbit í báðum hliðum á tveimur eða fleiri tönnum í hvorri hlið.
     9.      Meðfædd tannvöntun á tveimur eða fleiri tönnum í sama fjórðungi.
     10.      Meðfædd vöntun á stakri tönn þar sem loka á bilum og/eða þar sem hypoplastískur jaxl er til staðar.
    Sá hópur sem minnsta endurgreiðslu fær (40%) er með minnstu skekkjuna. Þar má nefna:
     1.      Lárétt yfirbit, sex til níu millimetrar.
     2.      Þrengsli á framtannasvæði, fjórir millimetrar eða meira; verður að vera minnst tveir millimetrar á einum kontakt.
     3.      Inverteringar á framtannasvæðinu (fram- og augntennur).
     4.      Diastema medialis 3 mm eða meira eða gróf gleiðstaða.
     5.      Opið bit.
    Í Noregi aukast endurgreiðslur ef fleiri en eitt systkini þurfa á tannréttingameðferð að halda. Þegar fyrsta systkinið hefur farið í tannréttingu eykst endurgreiðsla fyrir næsta systkini um 15–20 prósentustig. Þannig fæst 60% endurgreiðsla í stað 40% fyrir systkini í þriðja flokki og 90% endurgreiðsla í stað 75% fyrir systkini í öðrum flokki.