Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 165  —  164. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (heimilishjálp).

Flm.: Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir.


1. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Útgjöld vegna heimilishjálpar að hámarki 1.800.000 kr.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi (86. mál) og 152. löggjafarþingi (176. mál).
    Með frumvarpi þessu er lögð til heimild til skattalegs frádráttar vegna heimilishjálpar sem felur í sér að draga má fjárhæð að hámarki 1.800.000 kr. á ári frá tekjuskattsstofni einstaklings, þ.e. sem nemur að meðaltali 150.000 kr. á mánuði.
    Frádrættinum er ætlað að ná til starfa sem innt eru af hendi hér á landi á heimili einstaklings og í sumarbústað þar sem einstaklingur dvelur. Sama á við um slík störf í bílskúr og geymslum, afmörkuðum garði og í innkeyrslu umhverfis heimili eða sumarbústað einstaklings. Til slíkra starfa teljast t.d. hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þegar húsfélag fjöleignarhúss annast greiðslu kostnaðar úr sameiginlegum sjóði vegna slíkra starfa á sameign getur einstaklingur dregið sinn hlut í þeim kostnaði frá tekjuskattsstofni sínum. Þá er ákvæðinu jafnframt ætlað að ná til annars konar umönnunar, svo sem umönnunar heimilismanna vegna veikinda eða fötlunar, umönnunar barna, sem felur m.a. í sér aðstoð við heimavinnu og fleira skólatengt, ásamt því að fylgja börnum í og úr leikskóla, skóla og frístundastarfi. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til aðstoðar við einstakling í tengslum við ferðir til og frá heimili, t.d. ferðir á heilsugæslustöð, í banka eða annað sambærilegt.
    Markmiðið með frumvarpi þessu er m.a. að sporna við svartri atvinnustarfsemi auk þess sem hægt verður að auka réttindi þess fólks sem vinnur í dag þau störf sem hér eru talin. Með því er m.a. átt við lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur.
    Flutningsmenn telja að með lögfestingu skattafrádráttar vegna aðkeyptrar heimilishjálpar sé komið til móts við einstaklinga og fjölskyldur, einkum barnafjölskyldur, með margvíslegum hætti. Þá mun breytingin einnig gagnast eldri borgurum sem vilja búa áfram á eigin heimili en þurfa á þjónustu að halda við almenn heimilisþrif og önnur létt heimilisstörf.
    Sambærilegar heimildir til skattalegs frádráttar er m.a. að finna í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi þó að útfærslan sé misjöfn eftir löndum. Árið 2011 gerðu sænsk skattyfirvöld könnun á áhrifum frádráttarins. Hún leiddi í ljós að svört starfsemi, en undir þá skilgreiningu fellur m.a. vinna við heimilishjálp, hefði minnkað um 10% á milli áranna 2005 og 2011. Sambærilega sögu er að segja frá Danmörku en dönsk skattyfirvöld hafa fengið fleiri tilkynningar frá almenningi um svarta atvinnustarfsemi eftir að hægt var að draga frá tekjuskattsstofni á þessum grundvelli.