Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 215  —  214. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi.


Flm.: Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, þess efnis að foreldrum verði tryggður sameiginlegur réttur til tólf mánaða fæðingarorlofs sem þeir geti skipt með sér á 24 mánaða tímabili.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram í þriðja sinn en var síðast lögð fram á 152. löggjafarþingi (320. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Á 151. þingi voru samþykkt ný lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Samkvæmt lögunum hafa foreldrar mun takmarkaðri möguleika en áður til að taka ákvarðanir um þá tilhögun fæðingarorlofs sem hentar barni þeirra best og með hag þess að leiðarljósi. Með þeim er þrengt verulega að rétti foreldra til að ákveða sjálfir hvernig fæðingarorlofi þeirra með barni sé best háttað.
    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að tryggja jafnan rétt foreldra til sjálfstæðrar ákvörðunartöku um tilhögun fæðingarorlofs, en það er mat flutningsmanna að foreldrar séu jafnan réttu aðilarnir til að meta hvað sé barni þeirra fyrir bestu.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof er tekið fram að tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar sé að rúm 20 ár séu liðin frá því að eldri lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, tóku gildi og því sé rétt að laga fæðingarorlofskerfið að þeirri miklu þróun sem hafi orðið í samfélaginu, þar á meðal í jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Flutningsmenn fá ekki séð hvernig forræðishyggja gagnast jafnréttisbaráttu foreldra. Í lögunum er kveðið á um að hvort foreldri um sig skuli fá greitt sex mánaða fæðingarorlof. Réttur foreldra til að skipta með sér fæðingarorlofi er skertur, úr þremur mánuðum í sex vikur. Flutningsmenn fá ekki séð hvernig sú breyting sem varð við gildistöku nýju laganna kemur til móts við þarfir fólks í nútímasamfélagi þar sem sveigjanleiki er að jafnaði meiri en hann var fyrir 20 árum, við gildistöku eldri laga. Þá er erfitt að sjá hvernig áðurnefndar breytingar gagnast jafnrétti og sérstaklega hvernig þær gagnast stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
    Aðstæður foreldra á vinnumarkaði eru mismunandi og kalla á aukinn sveigjanleika við töku fæðingarorlofs. Flutningsmenn telja að réttindi barns til umgengni við foreldra séu best tryggð með því að fela foreldrum sjálfum að skipa tilhögun fæðingarorlofs síns. Markmið frumvarpsins, sem hér er lagt til að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði falið að leggja fram, verði að tryggja rétt foreldra til að deila með sér tólf mánuðum fæðingarorlofs, án þess að hlutast sé til um nánari skiptingu þeirra á milli með lögum, þannig verði best tryggt að mismunandi fjölskylduaðstæður bitni síður á réttindum barnsins. Með auknum sveigjanleika við töku fæðingarorlofs er jafnframt komið til móts við þá foreldra og þau börn sem ekki fá inni á ungbarnaleikskóla eða hjá dagforeldri.