Ferill 281. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 284  —  281. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022 frá 4. febrúar 2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     a.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB.
     b.      Framselda tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá 10. október 2014 um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn (fskj. I) og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     a.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB (fskj. II).
     b.      Framselda tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá 10. október 2014 um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur (fskj. III).
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir samráði við Alþingi vegna upptöku gerðanna sem lagt er til að verði felldar inn í EES-samninginn með framangreindri ákvörðun. Einnig er fjallað um efni ákvörðunarinnar og gerðanna auk aðlögunar þeirra að EES-samningnum. Ekki er um að ræða breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Jafnframt er skýrt frá lagabreytingum sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar gerðanna og hugsanleg áhrif. Þá er fjallað um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn almennt og um stjórnskipulegan fyrirvara.

2. Samráð við Alþingi vegna upptöku gerðanna í EES-samninginn.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar 2014/40/ESB til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Einnig var haft samráð við nefndina í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og hún kynnt nefndinni sérstaklega. Tilskipun 2014/40/ESB fékk jafnframt efnislega umfjöllun í velferðarnefnd. Nefndirnar gerðu ekki athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.
    Framseld tilskipun 2014/109/ESB kallar ekki á lagabreytingar og var samráð við Alþingi varðandi upptöku hennar í EES-samninginn því ekki nauðsynlegt.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Með ákvörðuninni eru tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB og framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB felldar inn í samninginn. Tilskipun 2014/40/ESB kveður á um reglur um tóbaksvörur. Markmið tilskipunarinnar er meðal annars að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um innihaldsefni og losun tóbaksvara og tengdar kvaðir um skýrslugjöf. Er í tilskipuninni meðal annars kveðið á um hámarksgildi losunar að því er varðar tjöru, nikótín og kolsýring úr vindlingum. Einnig er kveðið á um tiltekna þætti sem varða merkingu og umbúðir tóbaksvara, þ.m.t. viðvörunarmerkingar sem eiga að vera á einingarpökkum sem innihalda tóbaksvörur og allar ytri umbúðir sem og rekjanleika og öryggisþætti sem beitt er varðandi tóbaksvörur til að tryggja að þær uppfylli kröfur tilskipunarinnar. Jafnframt eru í tilskipuninni ákvæði þar sem lagt er bann við því að setja munntóbak á markað, lagt bann við að setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði, veitt heimild til að banna fjarsölu á tóbaksvörum yfir landamæri og sett skylda um að leggja fram tilkynningu um nýjar tóbaksvörur sem eiga að fara á markað og aðrar vörur sem tengjast tóbaksvörum, meðal annars jurtavörur til reykinga.
    Framseld tilskipun 2014/109/ESB kveður á um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB. Í henni er tekið saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur og er til fyllingar síðarnefndri tilskipun.
    Upptaka fyrrgreindra gerða í EES-samninginn og innleiðing þeirra hér á landi kallar bæði á lagabreytingar og reglugerðarbreytingar. Gerðirnar verða innleiddar með breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og verður frumvarp þar að lútandi lagt fram á þessu löggjafarþingi. Þá kallar innleiðingin a.m.k. á breytingu á reglugerð um mynd- og textaviðvaranir á tóbaki og mælingar á hámarki skaðlegra tóbaksefna, nr. 790/2011.
    Innleiðing þessara gerða hefur svipuð áhrif hér á landi og í öðrum Evrópuríkjum sem þegar hafa innleitt gerðirnar, enda eru þær frá árinu 2014. Hún er til þess fallin að samræma stjórnsýslufyrirmæli um ýmsar kvaðir varðandi tóbaksvarnir og tóbaksvörur. Ekki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu eða því að útgjöld ríkisins aukist vegna innleiðingarinnar.

4. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samn-ingnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022 frá 4. febrúar 2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0284-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0284-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Framseld tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/109/ESB frá 10. október 2014 um breytingu á II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB með því að taka saman safn af myndaviðvörunum til að nota á tóbaksvörur.

www.althingi.is/altext/pdf/153/fylgiskjol/s0284-f_III.pdf