Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um tóbaksvarnir

2002 nr. 6 31. janúar


Upphaflega l. 74/1984. Tóku gildi 1. janúar 1985. Breytt með: L. 7/1996 (tóku gildi 1. okt. 1996). L. 101/1996 (tóku gildi skv. fyrirmælum í 10. gr.). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 95/2001 (tóku gildi 1. ágúst 2001).
Endurútgefin, sbr. 17. gr. l. 95/2001, sem l. 6/2002. Tóku gildi 20. febrúar 2002. Breytt með: L. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003). L. 18/2003 (tóku gildi 1. júlí 2003). L. 24/2003 (tóku gildi 3. apríl 2003; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 4. gr.; EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 2001/37/EB). L. 83/2006 (tóku gildi 30. júní 2006; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 6. gr.). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 33/2009 (tóku gildi 8. apríl 2009). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 28/2011 (tóku gildi 1. maí 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 131/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012). L. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013). L. 47/2018 (tóku gildi 26. maí 2018). L. 80/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022 nema b-liður 2. mgr. 170. gr., b-liður 1. mgr. 171. gr. hvað varðar samevrópska u-rýmisþjónustu og c-liður 1. mgr. 171. gr. sem taka gildi 26. jan. 2023 og d-liður 258. gr. sem tekur gildi 1. jan. 2023; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 2027/97, 889/2002, tilskipun 2000/79/EB, 2009/12/EB).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við heilbrigðisráðherra eða heilbrigðisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið, gildissvið og stjórn.
1. gr.
Markmið laga þessara er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
Þeir sem bera ábyrgð á barni skulu stuðla að því að það njóti réttar skv. 2. mgr., einnig þar sem reykingar eru ekki bannaðar skv. III. kafla þessara laga.
2. gr.
Með tóbaki er í lögum þessum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn að öllu eða einhverju leyti úr þeim til neyslu, svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.
Með reykfærum er í lögum þessum átt við áhöld og búnað tengdan tóbaksreykingum, svo sem sígarettupappír, reykjarpípur og tæki til að vefja sígarettur, svo og annan slíkan varning.
Með munntóbaki er í lögum þessum átt við allar vörur, unnar að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í munn, að undanskildum þeim sem eru ætlaðar til reykinga.
Með skrotóbaki er í lögum þessum átt við munntóbak í bitum eða ræmum, einkum ætlað til að tyggja.
Með neftóbaki er í lögum þessum átt við duft eða mylsnu, gerða að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í nef.
[Með tjöru er í lögum þessum átt við hráa þéttingu tóbaksreyks, vatnsfirrta og nikótínlausa.
Með nikótíni er í lögum þessum átt við nikótínbeiskjuefni.
Með kolsýringi er í lögum þessum átt við kolmónoxíð (CO).
Með innihaldsefnum er í lögum þessum átt við öll efni eða efnisþætti, nema tóbakslauf og aðra náttúrulega eða óunna hluta tóbaksplöntunnar, sem eru notaðir við framleiðslu eða tilreiðslu á tóbaki og er enn að finna í fullunnu vörunni, jafnvel þótt í breyttu formi sé, þ.m.t. pappír, síur, blek og lím.] 1)
[Með þjónusturými er í lögum þessum átt við öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þ.m.t. áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl.] 2)
    1)L. 24/2003, 1. gr. 2)L. 83/2006, 1. gr.
3. gr.
Lög þessi gilda ekki um tóbak sem notað er sem lyf samkvæmt lyfjalögum eða sem eiturefni samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni.
4. gr.
Yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum er í höndum [ráðherra er fer með málefni lýðheilsu og forvarna]. 1)
    1)L. 126/2011, 338. gr.
5. gr.1)
    1)L. 18/2003, 10. gr.

II. kafli. Sala og auglýsingar.
6. gr.
Tóbak má því aðeins hafa til sölu eða dreifingar að skráðar séu viðvaranir um skaðsemi vörunnar á umbúðir hennar.
Sígarettupakka skal merkja sérstaklega með upplýsingum um [tjöru-, nikótín- og kolsýringsinnihald]. 1)
[Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um merkingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal um viðvörunartexta og viðvörunarmyndir, stærð þeirra og letur og annað sem máli kann að skipta, í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og ákvarðana sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur á grundvelli þeirrar tilskipunar.] 3)
3) [Óheimilt er með öllu að hafa á umbúðum tóbaks texta, heiti, vörumerki, myndir og myndræn eða annars konar tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak.] 1)
Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við merkingar samkvæmt þessari grein.
    1)L. 24/2003, 2. gr. 2)Rg. 790/2011, sbr. 1250/2011. 3)L. 33/2009, 1. gr.
7. gr.
Hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum eru bannaðar hér á landi. [Þetta nær þó ekki til upplýsinga um tóbaksvöru sem miðlað er til þeirra sem selja tóbak í heildsölu eða smásölu enda sé þess gætt að upplýsingarnar séu ekki aðgengilegar neytendum eða öðrum. Sama á við um auglýsingar í ritum sem prentuð eru og gefin út utan Evrópska efnahagssvæðisins enda séu þau fyrst og fremst ætluð til dreifingar utan svæðisins og megintilgangur þeirra ekki að auglýsa tóbaksvörur. Þá er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., að gefa út og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.] 1)
Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi. [Bannað er jafnframt að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum.] 1)
Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
    1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal vörukynningar, útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,
    2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,
    3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra,
    4. dreifingu vörusýna til neytenda.
Óheimilt er að setja á markað hér á landi tóbak undir vörumerkjum sem eru þekkt sem eða notuð sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu.
Hvers kyns framlög til viðburða eða starfsemi sem miða að því eða hafa þau beinu eða óbeinu áhrif að kynna tóbak eru bönnuð.
Tóbaki og vörumerkjum tóbaks skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum. [Sérverslunum með tóbak, þ.e. verslunum sem einkum hafa tóbak og reykfæri á boðstólum, er þó heimilt að koma tóbaki og vörumerkjum tóbaks þannig fyrir innan verslunar að það sé sýnilegt viðskiptavinum þegar inn í verslunina er komið.] 2)
    1)L. 33/2009, 2. gr. 2)L. 83/2006, 2. gr.
8. gr.
Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.
1)
Bannað er að selja tóbak úr sjálfsölum.
Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna magni en heilum 20 stykkja pökkum.
Bannað er að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og allt munntóbak, að undanskildu skrotóbaki.
Ekki má selja tóbak í skólum, stofnunum fyrir börn og unglinga eða á heilbrigðisstofnunum.
Þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak. Heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði getur veitt tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði um aldurstakmark. [Ráðherra] 2) setur í reglugerð 3) að fenginni umsögn Vinnueftirlits ríkisins nánari ákvæði um undanþágur um aldurstakmark.
[Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks gefi upplýsingar um innihald vörunnar. Ráðherra setur í reglugerð 4) nánari ákvæði um framkvæmdina.
Heilbrigðisyfirvöld geta krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks leggi fram sýnishorn af vörunni eða geri prófanir sem eru nauðsynlegar til þess að meta eiginleika og áhrif hennar. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmdina.] 5)
[Ráðherra] 2) ákveður í reglugerð, … 6) í samræmi við gildandi tilskipanir Evrópusambandsins, hver skuli vera hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk og hvernig háttað skuli mælingum og eftirliti með því að þessi mörk séu virt. [Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við mælingar og prófanir samkvæmt þessari málsgrein, svo og við upplýsingar og prófanir skv. 8. og 9. mgr.] 5)
[Til að selja tóbak í smásölu þarf sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Til reksturs sérverslunar með tóbak þarf jafnframt sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Auðkenna skal sérverslun með tóbak sérstaklega. Leyfi samkvæmt þessari grein skulu veitt til fjögurra ára í senn og verða einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu. Heimilt er sveitarfélögum að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ráðherra er heimilt í samráði við [ráðherra er fer með málefni mengunarvarna] 7) að setja í reglugerð 8) nánari ákvæði um leyfisveitingu samkvæmt þessari grein, m.a. um umbúnað sérverslana með tóbak, hvernig þær skuli auðkenndar og hvernig koma megi tóbaki og vörumerkjum tóbaks fyrir á útsölustöðum og í sérverslunum.] 9)
Þeim sem selur tóbak í heildsölu er óheimilt að selja eða afhenda tóbak öðrum en þeim sem hafa leyfi til að selja tóbak í smásölu samkvæmt lögum þessum.
    1)L. 33/2009, 3. gr. 2)L. 162/2010, 72. gr. 3)Rg. 326/2007. 4)Rg. 790/2011, sbr. 1250/2011. 5)L. 24/2003, 3. gr. 6)L. 28/2011, 15. gr. 7)L. 126/2011, 338. gr. 8)Rg. 325/2007. 9)L. 83/2006, 3. gr.

III. kafli. Takmörkun á tóbaksreykingum.
9. gr.
[Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf. Sama gildir um tilsvarandi svæði utan húss séu þau ekki nægilega opin til að tryggja viðunandi loftstreymi.] 1)
1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar í tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum. Í gistiskálum má hvorki leyfa reykingar í herbergjum né svefnskálum.
Þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt grein þessari skal séð fyrir loftræstingu sem fullnægir kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingarnar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.
1)
[Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð, 2) í samráði við [ráðherra er fer með framkvæmd löggjafar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald] 3) og [ráðherra er fer með málefni mengunarvarna], 3) nánari ákvæði um reykingar á gististöðum og um framkvæmd banns við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, m.a. hvað varðar svæði utan dyra, sbr. 1. mgr.] 1)
Tóbaksreykingar eru bannaðar í öllu húsrými í sameign fjöleignarhúsa.
Ráðherra skal í samráði við [ráðherra er fer með íþróttamál] 3) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setja reglur 2) um takmarkanir á tóbaksneyslu utan húss á íþróttasvæðum.
    1)L. 83/2006, 4. gr. 2)Rg. 326/2007. 3)L. 126/2011, 338. gr.
10. gr.
Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar:
    1. Í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, á leikskólum, hvers konar dagvistum barna og í húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga.
    2. Á opinberum samkomum innan húss sem einkum eru ætlaðar börnum eða unglingum.
    3. Í framhaldsskólum og sérskólum.
    4. Á heilsugæslustöðvum, á læknastofum og öðrum stöðum þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum en þar er þó skylt að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.
    5. Á sjúkrahúsum. Þó má leyfa reykingar sjúklinga í vissum tilvikum. Ráðherra setur reglugerð 1) þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd undanþágunnar.
    6. Í fangelsum. Leyfa má þó reykingar í fangaklefum. Skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum fangaklefum.
Öll önnur tóbaksneysla er jafnframt bönnuð í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum, hvers konar dagvistum barna og húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa ungmenna. Sama gildir um allar samkomur sem einkum eru ætlaðar ungmennum.
Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000. Innan sérhverrar stofnunar skal þó heimilt að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar.
    1)Rg. 326/2007.
11. gr.
Forráðamenn húsnæðis, sem almenningur hefur aðgang að en fellur ekki undir 9. og 10. gr. laga þessara, geta sjálfir ákveðið að takmarka reykingar í húsnæðinu. Skal slíkt látið greinilega í ljós á staðnum og tilkynnt heilbrigðisnefnd eða Vinnueftirliti ríkisins eftir því sem við á skv. 1. mgr. 18. gr. og gilda þá ákvæði þessara laga þar sem við á.
12. gr.
[Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 3. mgr. 9. gr. skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi hans sjá til þess að hann njóti þess réttar.] 1)
[Ráðherra] 2) skal setja reglur 3) í samráði við … 2) [ráðherra er fer með framkvæmd löggjafar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald] 4) um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum, þar á meðal í skipum, í samræmi við 1. mgr. og með tilliti til 1. gr. laga þessara.
    1)L. 83/2006, 5. gr. 2)L. 162/2010, 72. gr. 3)Rg. 326/2007. 4)L. 126/2011, 338. gr.
13. gr.
Tóbaksreykingar eru óheimilar í almenningsfarartækjum sem rekin eru gegn gjaldtöku.
Heimilt er forráðamönnum [loftfara] 1) að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa án viðkomu á Íslandi. Þess skal þó ávallt gætt að óþægindi skapist ekki fyrir þá sem ekki reykja.
    1)L. 80/2022, 265. gr.

IV. kafli. Fræðslustarfsemi.
14. gr.
[Það ráðuneyti er fer með fræðslumál] 1) skal í samráði við [ráðuneytið] 2) og [landlækni] 3) sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla í því skyni að draga úr tóbaksneyslu:
    1. Í skólum landsins. Sérstök áhersla skal lögð á slíka fræðslu í grunnskólum og skólum þeim sem mennta fólk til starfa að uppeldis-, fræðslu- og heilbrigðismálum.
    2. Í fjölmiðlum.
Fræðsla um áhrif tóbaksneyslu og leiðir til að draga úr henni skal veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.
    1)L. 126/2011, 338. gr. 2)L. 162/2010, 72. gr. 3)L. 28/2011, 15. gr.

V. kafli. Almenn ákvæði.
15. gr.1)
    1)L. 47/2018, 13. gr.
16. gr.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
    1)Rg. 325/2007. Rg. 326/2007.

VI. kafli. Eftirlit og viðurlög.
17. gr.
Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón [Umhverfisstofnunar], 1) hafa eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að virt séu ákvæði II. kafla laga þessara um merkingar, auglýsingar og sölu tóbaks.
Nú er brotið gegn ákvæðum II. kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.
Brjóti leyfishafi skv. 8. gr. gegn ákvæðum þeirrar greinar getur heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði að undangenginni áminningu svipt hann leyfinu. Við ítrekað brot ber heilbrigðisnefnd að svipta hann leyfinu og eins ef brot er stórfellt.
[Ákvarðanir heilbrigðisnefndar sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.] 2)
    1)L. 164/2002, 27. gr. 2)L. 131/2011, 31. gr.
18. gr.
Heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins [og Samgöngustofa] 1) hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði III. kafla laga þessara í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins.
    1)L. 59/2013, 20. gr. 2)Rg. 326/2007.
19. gr.
Brot gegn ákvæðum 6. og 7. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeim greinum varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.
Brot gegn ákvæðum 8. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeirri grein varða auk leyfissviptingar skv. 17. gr. sektum.
Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
20. gr.
Það varðar mann sektum haldi hann áfram að reykja í húsakynnum eða farartæki þar sem bannað er að reykja skv. 9., 10. og 13. gr., sbr. einnig 11. gr., enda hafi umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra veitt honum áminningu.
Sömu aðilar geta vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.
21. gr.1)
    1)L. 88/2008, 233. gr.