Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 407  —  222. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um kostnað vegna aðgerða gegn kynferðisbrotum.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra og eru eftirfarandi svör unnin í samráði við embættið.

     1.      Hver má ætla að verði árlegur heildarkostnaður við rekstur þjónustugáttar fyrir þolendur kynferðisbrota hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem opnuð var í desember 2021?
    Þjónustugátt lögreglunnar er samstarfsverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Kostnaður við fyrstu útgáfu þjónustugáttar fyrir þolendur (mitt.logreglan. is) sem opnuð var í desember 2021 er 6,75 millj. kr. Áætlaður kostnaður við aðra útgáfu þjónustugáttar með aðgengi fyrir þolendur hjá öllum lögregluembættunum, sjálfvirkri skráningu málsgagna og speglun upplýsinga um úrræði og réttarvörslukerfið fyrir ofbeldisgátt 112 er 15 millj. kr.

     2.      Hver var kostnaður við herferð Neyðarlínunnar gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem bar heitið „Verum vakandi“?
    Neyðarlínan fékk styrk frá dómsmálaráðuneytinu að fjárhæð 20 millj. kr. vegna vitundarvakningar gegn kynferðisofbeldi. Mótframlag Neyðarlínunnar var þar að auki 5 millj. kr.

     3.      Hver var árlegur kostnaður við eitt stöðugildi lögreglumanns í kynferðisbrotadeild lögreglu árin 2017–2021?
    Starfsmenn kynferðisbrotadeildar lögreglu eru í starfsstigi rannsóknarlögreglumanna eða lögreglufulltrúa. Launakjör þeirra fara samkvæmt kjara- og stofnanasamningi lögreglumanna. Við mat á árlegum kostnaði við eitt stöðugildi í kynferðisbrotadeild er hentugast að horfa á meðallaunakostnað á hvert stöðugildi í deildinni að viðbættum starfsmannatengdum kostnaði, svo sem vegna afleysinga, veikinda, búnaðar, fæðis o.fl., sem alla jafna er um 20% af launakostnaði á hverju ári.
    Hér má sjá umbeðnar kostnaðartölur fyrir árin 2017–2021:

2017 2018 2019 2020 2021
Launakostnaður
með launatengdum gjöldum
10.605.990 11.543.824 12.115.0009 12.806.063 13.585.755
Annar starfsmannatengdur kostnaður 2.121.198 2.308.765 2.423.002 2.561.213 2.717.151
Samtals 12.727.188 13.852.589 14.538.011 15.367.276 16.302.906