Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 498  —  284. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skaðaminnkun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra veita læknum heimild til að ávísa ópíóíðum og sambærilegum efnum til einstaklinga með vímuefnavanda með skaðaminnkun að markmiði eins og tíðkast í Danmörku?

    Hér á landi er veitt uppbótarmeðferð við ópíatafíkn með lyfinu buprenorfín sem er bæði til í töfluformi og sem stungulyf. Veruleg aukning er á notkun lyfja til uppbótarmeðferðar vegna ópíóðafíknar á Íslandi. Umrædd lyf eru flokkuð sem leyfisskyld sem þýðir að þau eru kostnaðarsöm og/eða vandmeðfarin. Til upplýsingar þá eru leyfisskyld lyf greidd af fjárlagalið leyfisskyldra lyfja og eru sjúklingum að kostnaðarlausu. Lyfjanefnd Landspítala hefur yfirumsjón með leyfisskyldum lyfjum.
    Gögn lyfjanefndar Landspítala sýna að árið 2019 var fjöldi einstaklinga á þessari lyfjameðferð 276 en árið 2021 voru þeir orðnir 438. Eru þeir aðallega í þjónustu SÁÁ, Landspítala eða Sjúkrahússins á Akureyri og hafa ávísanirnar aðallega verið á höndum sérfræðinga í geðlækningum. Einnig hafa aðrir sérfræðilæknar með þekkingu á ópíatafíkn ávísað þeim. Sjúkratryggingar Íslands og SÁÁ hafa gert með sér samning um viðhaldsmeðferð gegn ópíumfíkn sem starfrækt er á göngudeild á Sjúkrahúsinu Vogi á Stórhöfða. SÁÁ hefur því sinnt meginhluta þessarar meðferðar. Nokkur hluti sjúklinga í göngudeildarþjónustu SÁÁ eða undir eftirliti geðlækna sækir lyfin sín á töfluformi í apótek.
    Hvað varðar heimildir lækna til að ávísa þessum lyfjum þá er ferlið almennt þannig að í umsókn um markaðsleyfi koma fram takmarkanir við ávísun lyfs og það er síðan ákvörðun Lyfjastofnunar að útfæra það með tilliti til sérgreina og afgreiðslumerkinga.
    Sé um ávísun á forðastungulyf með buprenorfín að ræða er notkun þeirra bundin við ávísun og gjöf á heilbrigðisstofnun (H-merkt). Töfluformið verður að vera skrifað út af læknum með þekkingu og reynslu af fíknisjúkdómum. Eingöngu sérfræðingar í tilteknum sjúkdómum eða undirgrein læknisfræði mega ávísa lyfinu (Z-merkt lyf). Geta því fleiri sérgreinalæknar en geðlæknar skrifað upp á lyfið ef sýnt er fram á þekkingu og fengið hefur verið til þess leyfi.
    Þar sem um leyfisskylt lyf er að ræða leggur lyfjanefnd Landspítala línurnar fyrir heimild fyrir notkun lyfsins. Lyfjanefnd gefur út leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að meðferð til að einstaklingur hljóti niðurgreiðslu. Leiðbeiningarnar innihalda gjarnan upplýsingar um hvaða sérgreinar og stofnanir geta ávísað lyfinu, hvert mat skal vera fyrir meðferð, hvernig eftirfylgni skuli háttað og upplýsingar um umsóknarferli.